Fara í efni

Brautskráning Verkmenntaskólans á Akureyri í Hofi 20. des. 2011

Brautskráning fór fram í glæsilegum aðalsal Hofs kl. 17, þriðjudaginn 20. desember. Útskrifaðir voru nemendur sem lokið hafa burtfararprófi á iðn- og starfsnámsbrautum ásamt stúdentum. Rúmlega 100 nemendur brautskráðust frá skólanum í þetta sinn. Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi. Brautskráning fór fram í glæsilegum aðalsal Hofs kl. 17, þriðjudaginn 20. desember. Útskrifaðir voru nemendur sem lokið hafa burtfararprófi á iðn- og starfsnámsbrautum ásamt stúdentum. Rúmlega 100 nemendur brautskráðust frá skólanum í þetta sinn. Veitt voru verðlaun fyrir góðan námsárangur og blómvendi fengu nokkrir nemendur fyrir góða og virka þátttöku í skólastarfi.


Glæsilegur hópur !

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari flutti góða ræðu og fer hún hér á eftir          


Kæru brautskráningarnemar, aðstandendur, kennarar og starfsfólk Verkmenntaskólans, formaður skólanefndar og aðrir gestir.

    Velkomin á brautskráningarathöfn Verkmenntaskólans á Akureyri.

    Það eru mörg hjörtu sem slá hratt núna. Þau slá hratt m.a. af stressi yfir því hvort maður líti nú örugglega nógu vel út hér uppi á sviðinu - og á ég þar bæði við nemendur og mig sjálfa sem stend, eins og þau, í fyrsta skipti í þessum sporum hér á sviðinu.
    Hjörtu fjölskyldu og vina slá líka hraðar, kannski ekki af stressi heldur af stolti. Stolti yfir því að horfa á ástvin sinn ná þessum áfanga sem innsiglaður er hér í kvöld.

    Hinsvegar er bæði blóðþrýstingur og hjartsláttur kennaranna sem eru hér með okkur örugglega alveg eðlilegur enda þeir fegnir því að þurfa hvorki að standa eða sitja hér uppi á sviði. Ég er samt alveg viss um að þeir eru afar stoltir yfir því að hafa tekið þátt í að móta þá einstaklinga sem sitja hér fyrir aftan mig.

    Til að létta aðeins á spennunni þá skulum við bara öll brosa með hjartanu, vera glöð, samfagna og stressa okkur ekki um of á formlegheitum.

    Þegar ég var að undirbúa þessa ræðu og ákveða hvað ég ætti að fjalla um kom alltaf  það sama upp í hugann; fyrir hvað stendur skóli eins og VMA?
    Skólinn stendur fyrir fjölbreytileika og sveigjanleika í menntun. Ég er stolt af skólanum mínum og hann er mikilvægur í þessu samfélagi. Hann gefur einstaklingum með ólíkar þarfir og áhuga tækifæri til náms sem ekki er í boði í neinum öðrum framhaldsskóla á þessu svæði. Jafnvel á heimsvísu eru ekki margir skólar sem hafa svo fjölbreytt námsframboð í einum skóla.  Þá gefur skólinn nemendum með þroskahamlanir tækifæri til náms á framhaldsskólastigi.

    Með skólanum kemur nýsköpun, hann gerir samfélagið sjálfbærara og fjölbreyttara og fleiri hafa tækifæri til náms. Hann er mikilvægur þáttur í eflingu atvinnulífs á þessu svæði og án skólans væru líklega nokkur fyrirtæki hér á svæðinu í erfiðleikum með að manna stöður. Stúdentar frá VMA efla Háskólann á Akureyri og það skapandi starf sem fram fer hér í skólanum eflir listamannalífið í bænum. Skólinn veltir rúmlega milljarði á ári sem skilar sér með margfeldisáhrifum út í samfélagið.

    VMA hefur starfað frá árinu 1984, skólinn er að festa sig í sessi og hefðirnar eru að verða til - engu að síður þarf skólinn enn að sanna tilverurétt sinn og leiðrétta misskilning og jafnvel fordóma í garð skólans út í samfélaginu.

    Í skólanum er unnið gott starf með afburðar kennurum og starfsfólki sem líður vel á sínum vinnustað samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið á meðal starfsmanna. Nemendum líður að öllu jafna vel í skólanum og telja hann undirbúa sig vel til frekara náms eða starfa. Það hafa kannanir í skólanum líka sýnt. Við sendum út könnun til foreldra nýnema nú lok annar og spurðum um viðhorf þeirra til skólans. Þar kom fram mikil ánægja með veru barna þeirra í skólanum og þá umgjörð sem er um nemendur  á fyrsta ári þeirra í framhaldsskóla.

    Verkmenntaskólinn tók á árinu þátt í átakinu Nám er vinnandi vegur sem er verkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytis. Markmið átaksins er að opna framhaldsskóla og háskóla fyrir nemendur yngri en 25 ára og sérstaklega þá sem eru án atvinnu.

    Það var aldrei vafi í okkar huga að það væri samfélagsleg skylda okkar að taka þátt í verkefninu og gefa unga fólkinu okkar tækifæri til náms. Það þarf ekkert að sannfæra okkur um það að verkefni sem þetta skili sér til baka með fleiri menntuðum einstaklingum úti í samfélagið. Skólinn er með þátttökunni samt sem áður að taka ákveðna áhættu, við innrituðum fleiri nemendur en fjárlög gerðu ráð fyrir - en með þeirri von að skólinn fengi tekjur til að taka þátt í verkefninu fórum við af stað.

    Það var afar ánægjulegt að sjá árangur verkefnisins þegar við tókum hann saman nú í lok annar. Nánast allir stóðu við námsval sitt, náðu þeim einingum sem þeir voru skráðir í og mættu vel í skólann. Ég neita því ekki að við vorum svolítið hrædd um að þessi hópur væri það viðkvæmur að hann myndi ekki ná fótfestu í skólanum. En þeir stóðu sig frábærlega sem sannar að verkefnið á rétt á sér, þessir nemendur þiggja með þökkum það tækifæri sem þeir fá á öðru tækifæri til náms. Þeir nemendur sem byrjuðu í haust halda flestir áfram og í útskriftarhópnum okkar núna eru einstaklingar sem fengu inn í skólann í haust í gegnum verkefnið.

    Á þessu ári fékk skólinn staðfestingu á því að hann væri heilsueflandi framhaldsskóli og þið hafið vonandi tekið eftir því að fáni heilsueflandi framhaldsskóla blaktir við hún hér fyrir fram Hof. Við erum afar stolt að því að hafa tekið þátt í þessu verkefni þar sem einblítt er á heilbrigði nemenda og starfsmanna.

    Ég tel að skólinn hafi sýnt ákveðið hugrekki að ganga alla leið með þessu verkefni. Skólar hafa val um það að stefna á svokallaðar gull, silfur eða bronsleið og við stefnum eins og sannir keppnismenn að gullinu. Í sjálfu sér hafa ekki orðið miklar breytingar en það eru ekki allir sáttir við það að fá ekki lengur að kaupa sitt kók og sinn súkkulaðisnúð í skólanum en við beinum þeim aðilum annað til að kaupa þessar neysluvörur. Það er jú eitt af lögbundnum hlutverkum framhaldsskólans að tryggja að í boði sé innan veggja hvers skóla heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið.

    Ég vil þakka þeim sem hafa hvatt okkur áfram í þessu verkefni, sérstaklega þeim foreldrum sem hafa haft samband. Ólafi Björnssyni íþróttakennara fyrir að halda utan um verkefnið hér innan skólans, nemendum og starfsmönnum fyrir að vera jákvæðir gagnvart því og Lostæti fyrir að taka þátt í verkefninu af áhuga og fagmennsku.

    Félagslífið í skólanum hefur verið hefðbundið á önninni. Það mæðir mikið á stjórn nemendafélagsins strax í upphafi annar með undirbúningi fyrir busahátíð sem tókst nokkuð vel í ár. Á hverju ári fer fram umræða um breytingar á þessari hefð sem mörgum nemendum finnst sjálfsagður hluti af félagslífi nemenda meðan aðrir vilja hátíðina burt. Í haust var tekin umræða sem oft áður og verður stefnt að því að gera nýnemahátíð næsta haust með breyttu sniði þar sem horft verður til þess að gera hátíðina meira í anda virðingar og vináttu en áður.

    Í skólanum starfa fjölbreyttir klúbbar þar sem nemendur finna farveg fyrir áhugamál sín af mörgu tagi. Af öllum ólöstuðum þá var starfsemi leikfélagsins mjög öflug á þessari önn þar sem sett var upp barnaleikritið Hrói höttur sem sýnt var í Rósenborg við góðar viðtökur.

    Það er afar mikilvægt að í skólanum sé haldið vel utan um félagslíf nemenda. VMA hefur náð að halda úti öflugu félagslífi þar sem nemendur hafa skemmt sér án áfengis og vímuefna, eitthvað sem er sérstakt fyrir framhaldsskólana á Akureyri og horfa margir framhaldsskólar til okkar í forvarnarmálum og félagslífi nemenda.

    Í VMA hefur sem betur fer ekki myndast hefð þar sem eldri nemendur taka að sér yngri nemendur sem felst m.a. í því að standa fyrir heimboðum eða skemmtunum úti í bæ þar sem áfengi er haft um hönd. Þetta er skemmtanahald sem skólarnir hafa staðið hálfráðþrota gagnvart og erfitt að eiga við þær hefðir. Það er hluti af framhaldsskólalífinu að hittast og gera sér glaðan dag saman. Ég vona að framhaldsskólanemendur framtíðarinnar haldi því áfram því þessi tími á að vera skemmtilegur. Hinn gullna meðalveg verður að hafa að leiðarljósi og þeir einstaklingar sem velja að skemmta sér án áfengis eða annara vímuefna eiga að geta skemmt sér án pressu frá félögunum. Þau viðhorf viljum við í VMA hafa í heiðri.

    Ég vil þakka félagsmálafulltrúum skólans þeim Hrafnhildi Sigurgeirsdóttur og Ómari Kristinssyni fyrir að halda utan félagslífið með nemendum. VMA hefur á síðustu árum haldið þétt utan um starfsemi nemendafélagsins og stutt nemendur í þeirra málum. Sem skólameistara finnst mér það ákveðin forréttindi að eiga þessi góðu samskipti við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf á önninni og hlakka til næstu annar þar sem söngkeppni, árshátíð og opnir dagar eru framundan.

    Erlent samstarf hefur verið með miklum blóma og er alltaf að eflast innan skólans. Við verðum að hafna mörgum beiðnum um samstarf við erlenda skóla þar sem við ráðum einfaldlega ekki við meira í bili. Nemendur njóta góðs af þessum verkefnum m.a. hafa sjúkraliðar og matvælabrautarnemendur farið til Danmerkur og Finnlands í starfsþjálfun núna undanfarnar annir. Þá fóru nokkrir nemendur með Ólafi Björnssyni íþróttakennara til Svíþjóðar í byrjun annar og stefnt er á aðra vinnuferð með nemendum til Noregs á næstu önn þar sem haldið verður áfram með verkefnið. Þessi tækifæri fyrir nemendur eru dýrmæt og efla stjálfstæði og víðsýni þeirra.

    Skólinn fékk í sumar nær 30 milljóna styrk frá Leonardo starfsmenntasjóði Evrópusambandsins. Styrkurinn fjármagnar samstarfsverkefni nokkura landa þar sem markmiðið er að útbúa leiðbeiningar og gátlista fyrir starfsfólk sem tekur að sér nema á vinnustöðum í starfsþjálfun, svokallaðir Mentorar. Verkefnið er tveggja ára verkefni og er það VMA sem heldur utan um vinnu hópsins. Þetta verkefni er mikilvægt fyrir okkur og styrkir þá vinnu sem mun fara fram á næstu misserum í tengslum við ný framhaldsskólalög þar sem gert er ráð fyrir meiri ábyrgð framhaldsskólanna á námi nemenda úti á vinnustöðunum.

    Söngur: Heimir Ingimarsson

    Útskriftarhópurinn í kvöld er glæsilegur. Að þessu sinni erum við að útskrifa marga afburðarnemendur frá skólanum og eru alls 101 nemandi að brautskrást.  Óvenju fjölmennur hópur nýstúdenta útskrifast núna miðað við brautskráningu í desember. Það skýrist að nokkru vegna þess að 14 stúdentar af 71 eru að útskrifast eftir 3½ ár. Í desember eru einnig stórar útskriftir sjúkraliða og rafvirkja. Nokkrir nemendur eru nú að útskrifast með tvö og jafnvel þrjú prófskírteini. Sá möguleiki sem áfangakerfið gefur nemendum til að hafa fjölbreytileika í náminu sínu er nánast óendanlegur. Þeir nemendur sem velja að taka iðn- eða starfsnám og bæta síðan við stúdentsprófinu eru á margan hátt mjög vel undirbúin undir háskólanám. Sérstaklega á það við nemendur sem ætla sér í verk- eða tæknifræði þar sem mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvernig það er að starfa við vélar og tæki eða á byggingastað. Þá eru hér nokkrir sjúkraliðar sem útskrifast einnig sem stúdentar og ég veit að sá undirbúningur er afar góður fyrir allt háskólanám í heilbrigðisvísindum. Þá erum við að útskrifa sjö iðnmeistara sem taka meistaranám sitt að mestu í gegnum fjarnám VMA.

    Mig langar að minnast aðeins á lokaverkefni nemenda áður en brautskráningin fer fram. Í nýrri menntastefnu og nýjum brautarlýsingum er verið að gera vægi lokaverkefna við allar námsbrautir meira. Lokamarkmið brauta eiga að endurspeglast í lokaverkefnum nemenda sem byggjast á sjálfstæðum vinnubrögðum undir leiðsögn fagkennara. Nokkrar brautir eru nú þegar með lokaverkefni t.d. þekki ég vel til lokaverkefna sjúkraliða þar sem þeir þurfa að leggja mikla vinnu í heimildaleit, fræðileg vinnubrögð og sjálfstæði.  Ég er sannfærð að þessi lokaverkefnisvinna skilar sér í aukinni fagvitund og sjálfstæði nemenda þótt þeir sjálfsagt hafi ekki alltaf skilið hvað við kennararnir erum að eltast við þessa heimildaskráningu.

    Þá hafa listnámsbrautarnemendur gert lokaverkefni um árabil sem byggja á sjálfstæði og eigin sköpun. Afrakstur þeirrar vinnu má sjá á sýningum listnámsbrautarnema í lok hverrar annar.
    Ég vil nefna tvö dæmi um lokaverkefni sem voru unnin af nemendum á þessari önn, af öllum öðrum ólöstuðum. Í lok nóvember var mér var boðið inn í sjúkraliðastofuna uppi í skóla til að vera viðstödd afhendingu á lokaverkefni ekki sjúkraliðanema heldur rafvirkjanema. Þá höfðu þrír nemendur í rafvirkjun gert lokaverkefni sem fólst í því að hanna og útbúa bjöllukerfi eins og er á sjúkrastofnunum. Ég vona að þeir félagar hafi verið eins ánægðir með verkefnið eins og hjúkrunarkennarnir sem eru komnir með flott kennslutæki.

    Hitt lokaverkefnið sá ég á lokaverkefnissýningu listnámsbrautarnemenda og féll ég algjörlega fyrir því verkefni. Einn kennari brautarinnar hvíslaði því að listakonunni að ég hefði verið mjög hrifin af verkinu hennar og eins og sannur listamaður með viðskiptavit þá sendi hún mér línu. Og hér stend ég í lokaverkefni nemanda af listnámsbraut. Til að útskýra aðeins verkið þá er loftmynd af Mývatni og svæðinu þar í kring prentað á efnið. Þið getið ykkur til um það hvaðan nemandinn er en listakonan heitir Björg Lilja Jónsdóttir. 

    Brautskráning nemenda af deildum

    Jónas Jónsson, kennslustjóri samfélagsgreinasviðs
    Arna Valsdóttir, kennslustjóri listnámsbrautar
    Borghildur Blöndal, kennslustjóri raungreinasviðs
    Baldvin Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs
    Ingimar Árnason, kennslustjór fjarnáms


Verðlaunahafarnir

    Þá er komið að því að veita verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur og bið ég Benedikt Barðason aðstoðarskólameistara, um að aðstoða mig við afhendingu verðlaunanna. Að vanda eru það samstarfsaðilar og velunnarar skólans sem gefa verðlaunin og þakka ég kærlega fyrir þann hlýhug sem skólanum er sýndur.


    Fyrir framúrskarandi árangur í dönsku gefur danska sendiráðið bókarverðlaun. Sú sem hlýtur verðlaunin er Guðný Ósk Sigurðardóttir nýstúdent af náttúrufræðibraut.

    Að þessu sinni eru tveir nemendur sem hafa náð framúrskarandi árangri í faggreinum rafiðna og ekki var hægt að gera upp á milli þeirra. Það eru Ískraft og Johann Rönning sem gefa verðlaunin. Bjarnhéðinn Jónsson og Eyjólfur Guðjónsson eru verðlaunahafar í rafiðngreinum. 

    Litaland gefur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum myndlistarkjörsviðs listnámsbrautar. Sú sem hlýtur þau verðlaun fær einnig verðlaun frá Íslandsbanka fyrir bestan árangur á stúdentsprófi. Verðlaunin hlýtur Margrét Kristín Karlsdóttir nýstúdent af listnámsbraut.

    Kvennasamband Eyjafjarðar hefur um árabil verðlaunað nemanda skólans sem hefur sýnt bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum. Sú sem fær þessi verðlaun í kvöld er Dagný Davíðsdóttir nýstúdent af listnámsbraut.

    Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum eru veitt úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar sem var kennari hér við skólann. Albert Sölvi var frábær kennari, góður félagi og mikill sögumaður og minnumst við hans við hverja útskrift með þessum verðlaunum. Margrét Ósk Elíasdóttir nýstúdent af félagsfræðabraut hlýtur verðlaunin.

    FSA hefur um árabil veitt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum sjúkraliða. Kristín Laufey Ingólfsdóttir sjúkraliði hlýtur verðlaunin að þessu sinni.

    Þýska sendiráðið gefur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í þýsku til stúdentsprófs. Sami nemandi fær jafnframt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ensku og er það skólinn sem gefur þau verðlaun. Sú sem hlýtur þau verðlaun fær einnig verðlaun frá Eymundsson fyrir bestan árangur á stúdentsprófi. Sú sem hlýtur þessi þrenn verðlaun er Hjördís Guðmundsdóttir nýstúdent af náttúrufræðibraut.

    Efnafræðingafélagið gefur verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði og hlýtur verðlaunahafinn jafnframt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku sem Eymundsson gefur. Þau verðlaun falla til nemanda sem einnig fær verðlaun Íslenska stærðfræðafélagsins fyrir framúrskarandi árangur í stærðfæði. Þetta er ekki alveg allt komið því Sif Sindradóttir nýstúdent af náttúrufræðibaut fær einnig verðlaun frá Gámaþjónustu norðurlands fyrir bestan árangur á stúdentsprófi.

    Það er skólanum afar mikilvægt að hér sé öflugt félagslíf og margir nemendur leggja mikið á sig til að halda utan um félagslíf samnemenda sinna. Við brautskráningu hefur skólinn ávallt afhent blómvendi til þeirra nemenda sem setið hafa í stjórn Þórdunu nemendafélags skólans eða komið með öðrum hætti að félagslífinu. Ég vil  biðja þessa nemendur að koma til okkar og veita blómunum viðtöku og kalla til:

    Helena Rut Stefánsdóttir
    Hrund E Thorlacius
    Jóhann Gunnar Malmquist
    Sif Sindradóttir
    Stefán Grímur Rafnsson
    Þórgunnur Þórsdóttir

    Söngur: Heimir Ingimarsson.

    Eitt það skemmtilegasta og það sem við öll munum helst eftir í ræðuhöldum dagsins er ræða brautskráninganema. Ég bíð í pontu Guðrúnu Hönnu Sigurjónsdóttur nýstúdent af félagsfræðabraut til að flytja kveðju brautskráningarnema.

    Nú ætla ég að fá að snúa aðeins bakinu í ykkur kæru gestir og tala til útskriftarhópsins.
    Jæja kæru brautskráningarnemendur, til hamingju með árangurinn ykkar. Þótt við höfum verið að verðlauna sum af ykkur hér áðan þá eruð þið öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafa þurft að leggja á sig mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til því hér standið þið nú.

    Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. 

    Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðum framhaldsskólaárum kynnumst við oft á tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni til hvors annars. Til hamingju.

    Góðir brautskráninganemar og gestir. Það er að koma að lokum þessarar hátíðar. Ég vil biðja fólk um að sitja kyrra í sætum sínum á meðan við hér á sviðinu göngum fram. Að því loknu vil ég biðja gesti um að yfirgefa salinn svo hægt verði að stilla upp fyrir myndatöku hér á eftir.

    Takk fyrir þessa stund í kvöld sem er mér afar kær. Ég er stolt af því að vera fyrsta konan sem gegnir skólameistaraembætti hér á Akureyri og ég er ekki síður stolt af því að vera fyrsti skólameistari VMA sem hefur útskrifast frá þessum góða skóla.

    Ég vil þakka starfsfólki skólans fyrir þessa önn og þá sérstaklega Benedikti Barðasyni aðstoðarskólameistara sem líka er útskrifaður frá VMA Björk Guðmundsdóttur skrifstofustjóra og áfangastjórunum Sigurði Hlyni Sigurðssyni og Garðari Lárussyni fyrir samvinnuna og stuðninginn.
    Að stjórna skóla eins og VMA er ekki einnar konu verk,-  samheldin starfsmannahóp þarf líka til.
    Þá vil ég þakka skólanefnd og Hjalta Jóni Sveinssyni skólameistara sem er í árs námsleyfi fyrir traustið-  til að leiða skólastarfið í VMA þetta skólaár.

    Þá vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og - Munum að brosa með hjartanu takk fyrir.

    Akureyri 20. desember 2011
    Sigríður Huld
    Skólameistari VMA










Skoða í myndasafni VMA