Fara í efni

Brautskráning í Hofi í dag við óvenjulegar aðstæður

Sigríður Huld skólameistari á sviðinu í Hofi í dag
Sigríður Huld skólameistari á sviðinu í Hofi í dag

Níutíu og fjórir nemendur brautskráðust frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag. Brautskáningin var um margt óvenjuleg vegna sóttvarnareglna. Brautskráningarnemum var skipt í þrjá hópa og voru á þriðja tug nemenda í hverjum hópi en á milli sextíu og sjötíu nemendur mættu til brautskráningarinnar.

Í upphafi athafnarinnar bauð Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari gesti í sal og þá sem horfðu á beina útsendingu úr Hofi velkomna á brautskráninguna. Að því búnu flutti Steinar Logi Stefánsson, nýstúdent af fjölgreinabraut, ávarp brautskráningarnema.

Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta, og Baldvin Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms, afhentu nemendum skírteini sín.

Í upphafi ávarp síns sendi Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari hlýjar kveðjur til nemenda skólans frá Seyðisfirði og Seyðfirðinga allra vegna þeirra náttúruhamfara sem þar hafa orðið síðustu daga.

„Hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Það er einmitt á stundum sem þessum sem við finnum fyrir vanmætti okkar gagnvart náttúrunni en á sama tíma finnum við samhuginn sem býr í okkar litlu þjóð. Við stöndum saman og leggjumst á eitt til að hjálpa hvert öðru, hugga og styðja. Þetta ár hefur sannarlega fengið okkur til að hugsa um það sem skiptir máli í þessu lífi. Hversu lítið við í raun ráðum yfir örlögum okkar sem einstaklingar, sem fjölskylda, sem vinahópur, sem þjóð og sem mannkyn sem byggir þessa jörð. Covid-19 hefur ekki bara breytt okkar daglega lífi heldur gjörsamlega breytt heimsmynd okkar. Hlutir eins og það að allt flug í heiminum myndi nánast falla niður á einum degi hefði okkur þótt óhugsandi fyrir ári síðan. En á nokkrum dögum bara gerist það. Það hefðu líka fáir trúað því að á nokkrum dögum myndu nemendur og kennarar umbreyta öllu námi og kennslu. Nám færðist yfir í netheima og bæði nemendur og kennarar meira og minna að vinna heima hjá sér. Það hefur verið ótrúlegt að horfa á þetta gerast, sjá sköpunarkraftinn hjá kennurum og nemendum og ný tækifæri verða til. Auðvitað er margt sem við söknum og sumt af því mun koma til baka en ekki allt. Skólastarf í öllum heiminum hefur breyst til frambúðar, það verður ekkert alveg eins og áður. Okkur mun bera gæfa til að tileinka okkur það sem vel hefur tekist til með og halda áfram að efla VMA sem lærdómssamfélag,“ sagði Sigríður Huld.

Viðurkenningar

Að vanda voru veittar viðurkenningar til nemenda fyrir námsárangur og starf nemenda að félagsmálum:

Eygló Ástþórsdóttir, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut
Verðlaun fyrir bestan árangur í samfélagsgreinum, veitt úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar sem var kennari við VMA.

Bryndís Ann McCormick, nýstúdent af fjölgreinabraut
Verðlaun fyrir bestan árangur í dönsku. Danska sendiráðið gaf.

Gunnar Árnason, nýstúdent af fjölgreinabraut
Verðlaun fyrir dugnað, staðfestu og þrautseigju í námi sínu við skólann. Verðlaunin gefa Hollvinasamtök VMA. 

Jóhanna Gabriela Lecka, nýstúdent af íþrótta- og lýðheilsubraut
Verðlaun fyrir bestan árangur í greinum sem tengjast heilbrigði og lýðheilsu. Verðlaunin tengjast þátttöku VMA í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem er stýrt af Embætti landlæknis. Allir framhaldsskólar á Íslandi taka þátt í verkefninu og gefur Embætti landlæknis verðlaunin.

Andri Rósinberg Antonsson, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut
Hvatningarverðlaun VMA eru veitt nemanda sem hefur verið fyrirmynd og sýnt miklar framfarir í námi, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. Á námstíma sínum í skólanum hefur Andri Rósinberg sýnt seiglu, mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum og verið virkur í Leikfélagi VMA. Verðlaunin gefur fyrirtækið Terra. 

María Helena Mazul, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut
Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í myndlistargreinum. Gefandi er Slippfélagið. 

Eva Björg Þorleifsdóttir, sjúkraliðabraut - stúdent að loknu starfsnámi 
Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Eymundsson gefur verðlaunin.

Allir útskriftarnemendur í húsasmíði fengu hamar og gjafabréf frá Byko. 

Daði Jónsson og Gígja Jónsdóttir, húsasmíði
Verðlaun fyrir góðan árangur í fagreinum í húsasmíði. Gefandi er Byggiðn.

Ulla Kristin Lundberg, matartækni
Verðlaun fyrir góðan árangur í matartæknanámi. Fastus og Mjólkursamsalan á Akureyri gáfu verðlaunin.

Fannar Smári Sindrason, rafvirkjun. 
Verðlaun fyrir góðan árangur í rafvirkjun. Ískraft gaf verðlaunin. Fannar var jafnframt dúx skólans og fékk verðlaun sem A4 gaf.

Inga Rakel Pálsdóttir, rafvirkjun
Verðlaun fyrir góðan árangur í faggreinum rafvirkjunar. Verðlaunin gaf Johann Rönning. Inga Rakel fékk jafnframt enskuverðlaun sem SBA-Norðurleið gaf. 

Eftirtalin fengu blómvendi að gjöf frá skólanum fyrir störf sín að félagsstörfum í skólanum á námstímanum:

Arndís Eva Erlingsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut. Arndís Eva sigraði Sturtuhausinn - söngkeppni VMA árið 2019 og lagði lóð sín á vogarskálarnar í leiklistarstarfi skólans. 

Brynjar Halldór Sveinsson, stál- og blikksmiður.

Steinar Logi Stefánsson, nýstúdent af fjölgreinabraut.

Skírnir Már Skaftason, nýstúdent af íþrótta- og lýðheilsubraut.

 

Félagslíf í heimsfaraldri

Sem fyrr segir var streymt frá brautskráningunni í dag. Inn í beina útsendingu var skotið tveimur uppteknum dagskráraatriðum nemenda. Arndís Eva Erlingsdóttir, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut söng jólalagið Enginn ætti að vera einn um jólin og flutt var atriði úr söngleiknum Grís (Grease), sem Leikfélag VMA vinnur nú að því að setja upp. Ráðgerð er frumsýning í febrúar. Í atriðinu úr Grís komu fram María Björk Jónsdóttir, Eyrún Arna Ingólfsdóttir, Freysteinn Sverrisson, Dagbjört Nótt Jónsdóttir, Embla Björk Hróadóttir, Anna Birta Þórðardóttir, Katrín Helga Ómarsdóttir, Elín Gunnarsdóttir og Kormákur Rögnvaldsson.

Sigríður Huld skólameistari sagði aðallega tvennt sem hún hlakki til á næsta ári; að losna úr Covid-19 ástandinu og að sjá uppáhalds kvikmyndina sín, Grease, færða á svið af Leikfélagi VMA. „Nemendur í leikfélaginu létu Covid ekkert hafa áhrif á sig þótt leikprufurnar hafi verið með flóknari hætti en venjulega. Það var mikil ásókn í hlutverkin og úr hæfileikaríkum hópi að velja. Þá náðist að hafa leiklistarnámskeið í lok september og var alveg dásamlegt að heyra og sjá lífið í Gryfjunni, sem hefur verið heldur hljóð í vetur. Síðan í október hefur leikfélagið æft Grease með rafrænum hætti en þau Sandy og Danny eru nýlega farin að geta kelað og dansað í raunheimum. Áhugi, útsjónarsemi og elja nemenda er mikil og sagði Pétur Guðjónsson leikstjóri mér að það væri hægt að setja þetta upp á morgun, leikhópurinn væri orðinn það vel undirbúinn. En vonandi gengur það eftir að hægt verði að frumsýna í febrúar og vil ég nota tækifærið og hvetja fólk til að mæta á sýninguna,“ sagði Sigríður Huld og bætti við að það væri ekki sjálfgefið að halda úti félagslífi í jafn fjölbreyttum skóla og VMA er. „Á hverju ári springa hér út hæfileikaríkir nemendur hvort sem það er í leiklistinni, söngkeppni eða í almennum félagsstörfum fyrir nemendafélagið. Það verður ekki nein lognmolla um leið og hægt verður að gera eitthvað skemmtilegt á nýju ári, þá verðum við tilbúin í fjörið og vonandi náum við að halda nýnemahátíð og árshátíð,“ sagði Sigríður Huld.

Hún sagði að þrátt fyrir heimsfaraldur Covid 19 hafi margt verið í gangi í VMA á haustönninni. Vitnaði hún í því sambandi til fyrirsagna á fréttum á heimasíðu skólans á önninni, t.d.: Gengið á Súlur, Fjarkennir áfanga í vélstjórn frá Noregi, Lífið á heimavist á Covid-tímum, Nýt hvers vinnudags, Setið við vefstólinn, Öflug stoðþjónusta í VMA, Góður grunnur fyrir háskólanám, Kynntu sér nýjar áherslur í Moodle, Vinkonurnar voru með það á hreinu að ég yrði hárgreiðslukona, Sjúkraliðanámið gefur mikla möguleika, Reistu veggi smáhýsis og Unnið að listsköpun með hanska og grímu. „Ég tek fram að ég sleppti öllum fyrirsögnum sem fjölluðu um breytt skipulag á skólastarfi en þær fréttir þurftum við að flytja allt of oft. Nemendur eru líka orðnir þreyttir á stundum allt of löngum tölvupóstum frá skólameistara sem fjalla um frekar leiðinlega hluti eins og persónulegar sóttvarnir, bannar alla hópamyndun og þvælir um A og B hópa, reynir að útskýra tímatöflu sem ekki var hægt að birta rétta í Innu og, já...þið þekkið þetta. Ég dáist af ykkur kæru nemendur fyrir að hafa á endanum náð að skilja þetta allt saman. Vonandi!

Allar þessar breytingar sem Covid hefur fært okkur hefur breytt samfélaginu til frambúðar. Með breyttu samfélagi þarf að hlúa að menntun og er mikil áskorun í því fólgin fyrir okkur í skólunum að halda í við þessar breytingar sem hafa orðið, ekki síst í skólastarfi. 

Menntun og þekking hefur sjaldan verið eins mikilvæg og á síðustu mánuðum og mikil áhersla á rannsóknir og vísindi. Við þurfum að byggja upp þekkingu og nýta okkur vísindin þegar teknar eru ákvarðanir. Vísindaleg þekking þarf að liggja að baki breytingunum og við þurfum að gera fólki kleift að geta tekið ákvarðanir út frá þekkingu og vísindum. Það að börn hafi aðgengi að menntun og geti stundað nám er ein forsendan fyrir því að koma í veg fyrir fáfræði, fátækt og ójöfnuð, alveg sama hvar í heiminum við búum. 

Hvað sem verður er það alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Áhersla skólanna þarf að vera á þekkingu og vísindi en jafnframt að vera meiri í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi, efla jafnrétti í víðum skilningi og setja umhverfismál í öndvegi.“ 

Viðhaldið vináttunni!

Til brautskráningarnema sagði Sigríður Huld skólameistari eftirfarandi:

„VMA mun halda áfram að þróast en það sem er okkur dýrmætast heldur áfram að vera til staðar. Þið, nemendur, eruð okkur dýrmæt, við leggjum okkur fram við að undirbúa ykkur undir lífið framundan. Hvort sem það verður til frekara náms eða til ákveðinna starfa. Fagmennska - fjölbreytni og virðing eru einkunnarorð skólans. Það er einlæg ósk okkar í VMA að þið haldið út í lífið með sterka tengingu við þessi orð og þau gildi sem þau standa fyrir. Verið fagleg í þeim störfum sem þið takist á við í framtíðinni, fagnið fjölbreytileikanum hvernig sem hann birtist ykkur og berið virðingu fyrir ykkur sjálfum og samferðafólki ykkar. Til hamingju með árangurinn. Þótt við höfum verið að verðlauna sum af ykkur hér áðan þá eruð þið öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafa þurft að leggja á sig mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til og þið farin út í lífið. Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðum framhaldsskólaárum kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.“