Fara í efni

Ávarp nýstúdentsins Steinars Loga

Steinar Logi flytur ávarp brautskráningarnema.
Steinar Logi flytur ávarp brautskráningarnema.

Steinar Logi Stefánsson, nýstúdent af fjölgreinabraut , flutti eftirfarandi ávarp fyrir hönd brautskráningarnema í Hofi í dag:

Kæru útskriftarnemar, starfsfólk og þið sem heima sitjið. Mig langar að bjóða ykkur velkomin og segja örfá orð.

Best að byrja á byrjuninni, er það ekki alltaf svoleiðis? Ég er fæddur í Reykjavík en flutti snemma til Akureyrar og foreldrar mínir eru héðan. Nei, ég segi svona. 

VMA hefur reynst mér afar vel og er frábær skóli. Ég byrjaði haustið 2015 og fann mig strax vel í félagslífinu enda ekkert endilega frábær á bókina eins og sagt er, en það er annað mál. Það var svo ofboðslega gaman að kynnast  nýjum unglingum sem voru líka spenntir og eignaðist ég vini sem munu fylgja  mér alla ævi. Ég fór snemma að láta heyra í mér, hvort sem það var í lúgunni hjá ömmu á skrifstofunni eða feta mín fyrstu skref í leiklist. Ég gjörsamlega kolféll fyrir öllu sem hét leik-eitthvað eða nemendaráð. Ég tók þátt í Bjart með köflum, Litlu hryllingsbúðinni, Ávaxtakörfunni og Mér er fokking drullu sama, ásamt að hafa verið kynnir og skemmtikraftur við hin ýmsu tilefni ásamt góðum vini mínum, Freysteini Sverrissyni. Ég var hluti af því, ásamt fullt af öðru hæfileikaríku og skemmtilegu fólki, að setja ákveðinn ,,standard” í leiksýningar VMA. 

Ég sat í stjórn nemendaráðs og var það verkefni einnig mjög skemmtilegt. Eftir fjórar annir var ég búinn að gera nánast allt sem tengdist félagslífi VMA. En var ég búinn að ná blessuðu stærðfræðinni eða sögu? Nei, svo aldeilis ekki. Ég er nokkuð viss um að ég eigi eitt skólamet samt sem áður, það að vera oftast á nærbuxunum í skólanum, og held ég að ég sé kominn í 95. skipti, svo það er eitthvað sem fer í sögubrækurnar.  

Sigríður Huld kallaði á neyðarfund þar sem staðan var tekin og ákvað ég að taka þessa ,,pásu frá skóla”, sem getur haft tvenns konar afleiðingar. Annað er að hætta og koma ekkert aftur og segja þetta bara gott. En svo er líka það sem gerðist í mínu tilfelli; ég þroskaðist mikið og áttaði mig á því að stúdentspróf er miðinn í gegnum lífið. Það verður aldrei tekið af þér. Ég er svo ofboðslega ánægður að hafa komið mér í gírinn og klárað þetta dæmi!

Ég er stoltur af okkur brautskráningarnemum sem erum að útskrifast núna í miðjum heimsfaraldri. Þetta hefur reynt á okkur öll en þrátt fyrir það getum við þó haldið þessa líka fínu útskriftarathöfn, þó hún sé með  öðru sniði. Mér finnst að við ættum að gefa bæði okkur og kennurum og öðru starfsfólki skólans gott klapp! 

Nú er komið að því að þakka nokkrum einstaklingum, sem er alltaf skemmtilegt. Þetta er ekki í neinni sérstakri röð, svo ekki fara í fýlu.

Mig langar að þakka Pétri Guðjónsyni fyrir svo gott sem allt, nema hvað hann er frekur, Sigríði Huld og Ómari fyrir að hafa sýnt mér þá möguleika sem ég átti þegar annað hvort gekk vel eða ég búinn að gera upp á bak, Hilmari Friðjóns, einu mesta ljúfmenni sem ég hef kynnst, fyrir að reyna að troða stærðfræðinni inn í hausinn á mér. Svo verð ég að þakka Valgerði Dögg fyrir bara það einfaldlega að brosa til mín og láta mér líða vel í hvert skipti sem ég sé hana. Ef ég er að gleyma einhverjum getið þið sent mér tölvupóst á freysteinnsverrisson@gmail.

Að lokum vill ég þakka fjölskyldunni minni og öllum þeim vinum og ættingjum sem hjálpuðu mér að ná þessum áfanga í lífinu.

Samnemendum mínum óska ég innilega til hamingju með áfangann og megi dagurinn vera ykkur sem skemmtilegastur. 

Fyrir mína hönd og þeirra brautskráningarnema sem sitja hér þakka ég fyrir mig og okkur öll. Takk fyrir allt það frábæra veganesti sem Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur gefið mér.

Mamma I made it!

Takk!