Fara í efni

Benedikt skólameistari - Anna María aðstoðarskólameistari

Anna María Jónsdóttir og Benedikt Barðason.
Anna María Jónsdóttir og Benedikt Barðason.

Benedikt Barðason er skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri skólaárið 2019-2020 í námsleyfi Sigríðar Huldar Jónsdóttur og Anna María Jónsdóttir aðstoðarskólameistari.

Benedikt hefur verið aðstoðarskólameistari VMA og Anna María hefur verið annar tveggja áfangastjóra skólans. Hún þekkir raunar vel til verkefna aðstoðarskólameistara því skólaárið 2017-2018 gegndi hún því starfi í námsleyfi Benedikts Barðasonar.

Áfangastjórar skólaárið 2019-2020 eru Sigurður Hlynur Sigurðsson og Helga Jónasdóttir.

Benedikt segir að eins og venja sé til hafi verið í mörg horn að líta við undirbúning skólaársins en núna séu nemendur komnir í skólann, kennsla hafin og skólalífið að færast í fastar skorður. Hann segir afar ánægjulegt hversu margir nýnemar hefji nám í VMA í haust. Prýðileg aðsókn sé að mörgum brautum skólans, þannig sé fullbókað á allar verknámsbrautir og biðlistar. Hann nefnir sem dæmi að í byggingadeildinni séu nú þrír hópar í grunndeildinni auk nemendahópa í bæði múrsmíði og pípulögnum. Afar ánægjulegt sé að geta auk húsamíðinnar bæði boðið upp á nám í múrsmíði og pípulögnum. Einnig sé mikil aðsókn í grunndeild matvælabrautar og þar verði einnig í boði 2. bekkur í matreiðslu og nám í matartækni. Þá nefnir hann að á haustönn verði í boði nám í rafvirkjun fyrir útskrifaða vélstjóra.

Af stúdentsbrautunum nefnir Benedikt að mest aðsókn sé á íþrótta- og lýðheilsubraut og félags- og hugvísindabraut, einnig sé góð aðsókn á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar. Þá nefnir Benedikt að brautabrú sé óvenjulega fjölmenn við upphaf þessa skólaárs.