Fara í efni

Athyglisverð rannsóknaverkefni í uppeldisfræði

Aðgengi hreyfihamlaðra á Akureyri var skoðað.
Aðgengi hreyfihamlaðra á Akureyri var skoðað.
Í áfanganum uppeldisfræði 303 núna á vorönn unnu nemendur stór rannsóknartengd verkefni. Þeir skiluðu ritgerðum og kynntu niðurstöður þeirra, auk þess að gera útdrátt úr þeim til að setja á netið. Nemendur völdu viðfangsefni samkvæmt þeirra áhugasviði, en áskilið var að viðfangsefnin tengdust uppeldismálum á einhvern hátt.

Í áfanganum uppeldisfræði 303 núna á vorönn unnu nemendur stór rannsóknartengd verkefni. Þeir skiluðu ritgerðum og kynntu niðurstöður þeirra, auk þess að gera útdrátt úr þeim til að setja á netið. Nemendur völdu viðfangsefni samkvæmt þeirra áhugasviði, en áskilið var að viðfangsefnin tengdust uppeldismálum á einhvern hátt.

Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttire, kennari í þessum áfanga, segir að mikil vinna liggi að baki verkefnum nemendanna og útkoman hafi í mörgum tilfellum verið afar áhugaverð.

Nemendum í áfanganum var skipt niður í nokkra hópa og útkoman var tíu verkefni, misjöfn að vöxtum. Verkefnin eru:

Hvert er hlutverk foreldra á meðgöngu og eftir fæðingu?
Höfundar: Alda María Norðfjörð, Védís Áslaug Beck Valdemarsdóttir og Þórunn Þöll Egilsdóttir.

Kynferðisbrot gegn börnum – áhrif kynferðislegrar misnotkunar á fullorðinsár
Höfundar: Bryndís Þorsteinsdóttir, Daníel Páll Snorrason, Lena Sif Rögnvaldsdóttir og Ólöf Ragna Einarsdóttir.

Áttu von á barni?
Höfundar: Guðrún Ása Viðarsdóttir og Kamilla Ósk Guðmundsdóttir.

Áhrif skilnaðar á börn
Höfundar: Arndís Ósk Arnarsdóttir, Lena Rut Ingvarsdóttir og Sigurlaug Sigurðardóttir.

Klámvæðing í okkar nánasta umhverfi
Höfundar: Eydís Lind Guðrúnardóttir, Guðrún Kata Egilsdóttir og Þorbjörg Jóna Guðmundsdóttir.

Aðgengi og viðhorf til hreyfihamlaðra á Akureyri
Höfundar: Ástdís Pálsdóttir, Elfur Sunna Baldursdóttir, Laufey Elísa Hlynsdóttir og Sara Daníelsdóttir.

Barnaefni – áhrif barnaefnis á geðheilsu barna
Höfundar: Skarphéðinn Freyr Þorvaldsson og Zak Valur Sigurbjörnsson.

Kynferðislegt ofbeldi og netnotkun barna
Höfundar: Aldís Björk Benjamínsdóttir, Bjarnveig Rós Bjarnadóttir, Halldór Kristinn Harðarson, Margrét Jóna Kristmundsdóttir og Viktor Samúelsson.

Börn og alkahólistar
Höfundar: Sigurður Ingvi Rögnvaldsson og Stefán Daði Bjarnason.

Áhrif tónlistarnáms á einkunnir framhaldsskólanema
Höfundur: Úlfar Gunnarsson.

-----

Hér eru útdrættir úr verkefnunum tíu:

Hvert er hlutverk foreldra á meðgöngu og eftir fæðingu?
Höfundar: Alda María Norðfjörð, Védís Áslaug Beck Valdemarsdóttir og Þórunn Þöll Egilsdóttir.

Við höfðum áhuga á að kynna okkur hversu mismunandi foreldr hlutverkin eru og allt í kringum meðgöngu og eftir fæðingu. Við miðuðum ekki við neinn sérstakan aldurshóp, því við vorum vissar um að það myndi engu breyta. Það skipti engu máli vegna þess að þessi tímamót í lífi verðandi foreldra eru alltaf ólík, sama hver aldurinn er. 

Við fundum sex viðmælendur til að ræða við, þar á meðal tvö pör, einn einstæðan föður og eina einstæða móður. Í ritgerðinni, ásamt því að fá upplýsingar frá viðmælendum okkar, fórum við ítarlega í gegnum allt sem tengist meðgöngunni, fæðingu og afdrifaríka fyrsta árinu eftir barnsburð.

Ef við fengjum að halda áfram með rannsóknina okkar myndum við stækka markhópinn og finna fleiri viðmælendur til að taka viðtal við, en halda okkur við persónulegu spurningarnar og kafa þá dýpra í foreldrahlutverkið. Við myndum þá að hluta til halda í spurningalistann, en betrumbæta hann, með því að taka út óþarfa spurningar og reyna að bæta við opnum spurningum að auki.

 

Kynferðisbrot gegn börnum – áhrif kynferðislegrar misnotkunar á fullorðinsár Höfundar: Bryndís Þorsteinsdóttir, Daníel Páll Snorrason, Lena Sif Rögnvaldsdóttir og Ólöf Ragna Einarsdóttir.

Rannsókn okkar fólst í athugun á hvaða áhrif kynferðisleg misnotkun í æsku hefur á fullorðinsár. Rannsóknin byggist á eigindlegum aðferðum þar sem kafað er dýpra í málefnin og reynt að komast að ýmsu sem einstaklingar eiga ekki auðvelt með að útskýra á einfaldan og fljótlegan hátt.

Við fengum fjóra einstaklinga á aldrinum 20-35 ára, þrjár konur og einn karlmann, til að ræða við okkur um kynferðislega misnotkun sem þau urðu fyrir í æsku. Viðmælendur okkar glíma allir við einhverskonar vandamál sem rekja má til misnotkunarinnar sem þeir urðu fyrir, en afleiðingar kynferðisofbeldis geta verið af mörgu tagi, bæði líkamlegar og andlegar. Af fjórum viðmælendum voru þrjú mál sem komust upp og fóru í ferli hjá dómstólum og því kynntum við okkur kynferðisbrotakafla hegningarlaganna til að átta okkur betur á alvarleika brotanna sem viðmælendur okkar urðu fyrir. 

Niðurstöður rannsóknarinnar komu okkur ekki sérstaklega á óvart þar sem við töldum okkur trú um að kynferðisofbeldi í æsku hefði mikil áhrif á líðan brotaþola út lífið.

Af viðmælendum okkar voru þrír af fjórum sem greinst hafa með áfallastreituröskun og allir kvenkyns viðmælendur okkar hafa glímt við þunglyndi. Í brotum sem viðmælendur okkar urðu fyrir voru gerendur í flestum tilvikum einhverjir sem þeir þekktu, t.d. fjölskyldumeðlimur, nágranni eða vinnufélagi, en í einu tilviki var brot sem átti sér stað þar sem gerandinn var ókunnugur. Viðmælendur okkar hafa vegna ofbeldisins átt erfiðara með að tengjast öðrum tilfinningalega vegna skorts á trausti á öðrum, sem rekja má til þeirra atburða sem þeir lentu í og halda þeir sér því frekar til hlés. Það kom okkur ekkert á óvart að tengslamyndun þeirra væri ekki upp á það besta, þar sem traust þeirra hefur verið brotið áður. Það er því okkar niðurstaða að kynferðisofbeldi hefur mikil áhrif á brotaþola og er því hægt að blása á goðsagnir og alhæfingar þess efnis að kynferðislegt ofbeldi hafi lítil sem engin áhrif á líf þeirra.


Áttu von á barni?
Höfundar: Guðrún Ása Viðarsdóttir og Kamilla Ósk Guðmundsdóttir.

Á þessari önn unnum við að verkefni í uppeldisfræði 303 í Verkmenntaskólanum á Akureyri um mæðravernd, hvernig það ferli fer fram og hvernig foreldrum líki mæðraverndin yfirhöfuð og meinta fordóma ljósmæðra í garð ungra kvenna. Við tókum viðtal við tvær ljósmæður, þrjár mæður og tvo feður. Niðurstöður okkar leiddu í ljós að ljósmæður telja sig ekki og vona að þær sýni ekki fordóma gagnvart neinum einstaklingi sem kemur til þeirra. Að sjálfsögðu hafa þær þó eigin skoðanir á ástandi og persónulegum málum þessara kvenna eða foreldra, en reyna að láta þær skoðanir ekki koma í ljós og koma eins fram við alla, að þeirra sögn.

Tvær af þremur mæðrum sem tekin voru viðtöl við fundu fyrir einhverskonar fordómum, en önnur þeirra þó ekki fyrr en í ungbarnaverndinni og talaði þá ljósmóðirin frekar við ömmu barnsins en móðirina sjálfa. Í hinu tilvikinu fann móðirin fyrir fordómum gagnvart ungum aldri sínum og eins  og í fyrra tilvikinu var það í mæðraverndinni og fannst henni ljósmóðirin vera dónaleg og tala niður til sín.

Að okkar mati á þetta ekki að vera svona. Konur koma þarna í leit að öryggi fyrir sig og ófædd börn sín.

Einnig leiddu niðurstöður okkar í ljós að það virðist vera lítil þörf fyrir feðurna í þessum hluta meðgönguferlisins, þar sem þeim fannst þeir sitja útí horni í þau skipti sem þeir komu með og hefðu alveg eins geta sleppt því að koma með barnsmæðrum sínum.

Þarf ekki að huga að þeim líka? Feðurnir eru líka að taka sér nýtt hlutverk á hendur og vita í raun ekkert um hvað konan er að ganga í gegnum, þeir skilja ekki endilega þessa líkamlegu og andlegu breytingu sem er í gangi. Þurfa þeir ekki að fá meiri fræðslu? Væri hægt að hafa fræðslunámskeið fyrir þá sem vilja vita hvað þeir geti gert til að hjálpa barnsmæðrum sínum í gegnum þessa hormónaflækju?

 

Áhrif skilnaðar á börn

Höfundar: Arndís Ósk Arnarsdóttir, Lena Rut Ingvarsdóttir og Sigurlaug Sigurðardóttir.

Við heitum Arndís, Lena og Sigurlaug og við ákváðum að gera verkefni um áhrif skilnaðar foreldra á börn. Við tókum viðtöl við fimm stelpur og tvo stráka. Við tókum við þau djúpviðtöl og spurðum þau út í skilnað foreldra þeirra. Okkur fannst það vera betri hugmynd heldur en að búa til spurningalista og spyrja heilan bekk í til dæmis grunnskóla hvort að nemendur væru skilnaðarbörn eða ekki, en það hefði líka geta verið möguleiki fyrir okkur. Okkur fannst þetta koma betur út og við fengum nákvæmari svör.

Við reyndum líka að fá eins ýtarleg svör og við gátum frá viðmælendum okkar. Sum svörin frá þeim voru frekar óþægileg en við vorum mjög ánægðar með hvað viðmælendur okkar voru alveg til í að opna sig fyrir okkur og tala um skilnaðinn við okkur.

Svörin frá strákunum voru neikvæðari en hjá stelpunum. Við veltum því fyrir okkur hvort það hefði bara verið af tilviljun, að þeir hefðu komið verr út úr skilnuðunum en stelpurnar eða hvort að strákar tækju skilnuðum foreldra sinna almennt verr en stelpur.

Okkur fannst leiðinlegt að heyra að sumir foreldrar tala lítið sem ekkert saman í dag og að þeir hafi látið öll sín samskipti fara í gegnum barnið. Þar með er það orðið milliliður fyrir foreldra sína, það ber skilaboð á milli þeirra í staðinn fyrir að þau tali saman og geti haft samskipti sín á milli. Slík samskipti geta verið mjög erfið fyrir barnið.

Við skoðuðum líka mjög mikið af heimildum um skilnaði, lásum dæmisögur um þá og nokkrar greinar eftir sálfræðinga til að afla okkur frekari upplýsinga fyrir fræðilega hlutann í verkefninu.

Við fengum mjög misjöfn svör frá viðmælendum okkar og sumir komu bara nokkuð vel út úr skilnaðinum en aðrir ekki. Viðmælendurnir voru allir á mismunandi aldri þegar skilnaðurinn átti sér stað og upplifðu hann að sjálfsögðu á mismunandi hátt.

Við erum á heildina litið mjög ánægðar með þetta verkefni og hvernig okkur tókst að gera það og koma því frá okkur.

 

Klámvæðing í okkar nánasta umhverfi

Höfundar: Eydís Lind Guðrúnardóttir, Guðrún Kata Egilsdóttir og Þorbjörg Jóna Guðmundsdóttir.

Við erum 3 stúlkur sem ákváðum að taka klámvæðingu í okkar nánasta umhverfi sem rannsóknaritgerðarefni í uppeldisfræði 303.

Hópurinn sem við tókum til rannsóknar var nemendur úr Verkmenntaskólanum á Akureyri. Við ákváðum að við skyldum skipta hópnum eftir kyni. Við tókum um 80 manna hóp en af þeim hópi voru um 60 marktæk svör. Strákarnir sem tóku þátt voru 20 en stelpurnar 40. Einstaklingarnir sem tóku þátt í könnuninni voru jafnframt allir yfir 18 ára aldri.

Klámvæðingin er orðin mjög stór hluti af okkar daglega lífi, hvort sem við erum börn eða fullorðin.  Klám er bannað á Íslandi samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það blasir klámfengið efni víða við í blöðum og tímaritum, auglýsingum og kvikmyndum, tónlistarmyndböndum og á vefsíðum sem beinlínis dreifa klámi. Þar sem klám er orðið svo algengt þarf sífellt að finna ýktari birtingarmyndir af því til þess að vekja viðbrögð okkar og tekst framleiðundum  einstaklega vel til.

Til þess að skilja hvað klámvæðing er þarf fyrst að skilgreina klám. Er hægt að segja að allt kynferðislegt efni sé klám? Svarið er nei. Klámvæðingin er menningarferli þar sem klám smeygir sér inn í okkar daglega líf sem samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri. Klám er mjög erfitt að skilgreina því það hefur breyst svo eftir kynslóðum, frá einum einstaklingi til annars, og flestir hafa sína eigin skilgreiningu. Við bjuggum til okkar eigin skilgreiningu og settum hana í fræðilega kaflann.
Klám er ekki það sama og erótík. Erótík er allt það kynferðislega samneyti tveggja aðila sem fram fer í einrúmi og með samþykki beggja aðila. Erótík er því fullkomlega eðlilegur hluti í lífi einstaklings. Erótík upphefur því það sem klám niðurlægir.

Þar sem kynlíf milli tveggja einstaklinga á að innihalda ást, tilfinningar og nánd, þá teljum við mikilvægt að skilgreiningin á klámi sé ekki eingöngu bundin við eitthvað sem örvar einstaklinginn kynferðislega heldur hvernig efnið sé framsett.

Klámvæðingin eins og hún birtist okkur dags daglega hefur því óviðráðanlega mikil áhrif á okkur öll þó við gerum okkur ekki grein fyrir því mörg hver sjálf. Þessi væðing er því búin að gera sér stað í samfélaginu okkar og er viðurkennd af okkur sjálfum.

Ekki er hægt að útiloka þessa væðingu úr samfélaginu vegna þess hve umsvifamikil hún er orðin, en það sem við getum gert er að fræða fólk um áhrif þessarar væðingar svo fólk geri sér grein fyrir hversu skaðleg hún er. Þess vegna fannst okkur spennandi að skrifa rannsóknarritgerðina okkar um þetta efni og þess vegna langar okkur að sem flestir lesi hana og myndi sér sjálfir skoðanir um efnið.

 

Aðgengi og viðhorf til hreyfihamlaðra á Akureyri
Höfundar: Ástdís Pálsdóttir, Elfur Sunna Baldursdóttir, Laufey Elísa Hlynsdóttir og Sara Daníelsdóttir.

Á undanförnum árum höfum við orðið varar við þörf á betra aðgengi í samfélaginu. Þegar við fórum í áfangann uppeldisfræði 303 og þurftum að velja okkur viðfangsefni að lokaritgerð, fannst okkur tilvalið að nýta það tækifæri til þess að rannsaka hvort hreyfihamlaðir hafi sömu tækifæri í samfélaginu og við sem ekki erum bundin hjólastól og hvernig viðhorf almennings er til hreyfihamlaðra. Við tókum aðallega fyrir miðbæ Akureyrar og Verkmenntaskólann á Akureyri. Ástæða þess er sú, að við skrifuðum ritgerðina út frá því hvað unglingar hafa fyrir stafni í tómstundum sínum. Við fengum til liðs við okkur Sigrúnu Maríu Óskarsdóttur, nemanda í Menntaskólanum  á Akureyri, til þess að segja okkur frá sinni reynslu af því að vera bundin hjólastól á Akureyri.

Í upphafi verkefnisins gerðum við okkur ferð á Glerártorg þar sem við könnuðum aðstæður og gengum útfrá því að í för með okkur væri einstaklingur í rafmagnshjólastól, þar sem hann er umfangsmeiri en hefðbundinn hjólastóll. Þessi ferð varð kveikjan að því að við ákváðum að gera einskonar vettvangsrannsókn og að ein okkar myndi vera í hjólastól í einn dag. Við fengum samþykki fyrir því hjá Akureyrarbæ  að ferlibíll myndi sækja hana heim að morgni og fara með hana í skólann. Við fórum með hana víða um Akureyri á einkabíl og þá reyndi á okkur að lyfta henni, hjálpa henni á salernið og veita henni allan þann stuðning sem hún þurfti á að halda yfir daginn.

Elfur Sunna var í hjólastól í einn dag og tók hann mið af hennar dagskrá, til þess að við gætum eins og kostur er sett okkur í spor hreyfihamlaðra. Við fórum m.a. í Verkmenntaskólann á Akureyri, á Glerártorg, Te&Kaffi, Bláu könnuna, Hof, Tónlistarskólann á Akureyri og veitingahúsið Greifann. Við tókum svo stutt stopp í Borgarbíói, Nýja bíói, Hrísalundi, Heilsugæslustöðinni á Akureyri, sem er í miðbænum, og nokkrum búðum í miðbænum.

Þessi dagur opnaði augu okkar fyrir mörgu sem mætti betur fara, bæði hvað varðar aðgengi og viðhorf til einstaklinga bundna hjólastólum. Þó svo að almennt sé fólk á þeirri skoðun að einstaklingar sem eru hreyfihamlaðir eigi rétt á sömu tækifærum og aðrir, virðist samfélagið samt ekki vera tilbúið til þess að leggja á sig þessa litlu viðbót sem þarf til þess að hreyfihamlaðir losni við margar af þeim hömlum sem enn verða á vegi þeirra. Oft eingöngu vegna skorts á skilningi eða hjálpartækjum. Sem dæmi má nefna skort á sjálfvirkum hurðaopnurum, römpum, stærri hurðum og lyftum.

Þó margt mætti betur fara, viljum við einnig koma því að, að það er margt sem fært hefur verið til betri vegar. Sem dæmi má nefna  að víða hefur verið bætt  við römpum eða lyftum í eldri byggingar sem ekki höfðu ásættanlegt aðgengi áður.

Með því að smella á þennan hlekk má sjá nokkrar myndir sem þær stöllur tóku á hjólastólayfirreið sinni á Glerártorgi.

http://www.myalbum.ca/Album=UHDONXOO


Barnaefni – áhrif barnaefnis á geðheilsu barna.

Höfundar: Skarphéðinn Freyr Þorvaldsson og Zak Valur Sigurbjörnsson.

Barnaefni hefur verið til í áraraðir og hafa nokkrir vísindamenn rannsakað áhrif þess á börn.  Við ákváðum að kanna ofbeldi í nokkrum teiknimyndum.

Ofbeldi kemur víða fyrir í barnaefni í dag og snúast margir þættir hreinlega um ofbeldi. Hetjur eins og Batman, Superman og Spiderman stunda það að góma glæpamenn og þurfa þá oft að beita ofbeldi til að ná þeim.
Börn vilja oft feta í fótspor hetja sinna og taka stundum upp á því að klæðast eins og uppáhalds hetjan þeirra. Þau hlaupa um í löggu og bófa, þykjast vera með byssur eða sverð og skylmast eða fara í einhverskonar stríð við jafnaldra sína.
Þó er ekki allt barnaefni neikvætt og í sumum tilfellum getur það verið frekar jákvætt, t.a.m. Íþróttaálfurinn, sem er karakter sem hleypur, hoppar og skoppar um dreifandi þeim boðskap að börn ættu að hreyfa sig og borða hollari mat.
Einnig var tekið fyrir kynjaskiptingu í barnaefni þar sem augljóst var að litir hafi mikið að segja um hverjir eigi að horfa á hvaða barnaefni.

Barnaefni hefur breyst í gegnum árin en þó er alltaf hægt að finna kynjaskiptingu og ofbeldi í því.


Kynferðislegt ofbeldi og netnotkun barna

Höfundar: Aldís Björk Benjamínsdóttir, Bjarnveig Rós Bjarnadóttir, Halldór Kristinn Harðarson, Margrét Jóna Kristmundsdóttir og Viktor Samúelsson.

Í okkar verkefni skrifuðum við um „Kynferðislegt ofbeldi og tölvunotkun barna“.  Við upphaf verkefnisins ákváðum við að skrifa um „barnaperra“ á internetinu. Við hófum strax rannsóknarvinnu, gerðum auglýsingu inn á Einkamál.is og fengum um leið mikil viðbrögð frá eldri mönnum sem voru að reyna að komast í samband við 14 ára unglingsstelpu. Eftir að hafa talað við nokkra mannanna komumst við að því í kennslustund daginn eftir að það sem við vorum að gera var ólöglegt vegna þess að notkun tálbeita er bönnuð samkvæmt lögum. Við ákváðum því að fara aðra leið og gera einhverskonar bækling þar sem við gætum frætt unglinga og foreldra um þær hættur sem leynast á internetinu og hvað bæri þar að varast, en enn og aftur lentum við á vegg. Við komumst fljótlega að því að samskonar bæklingur var þegar til og við skiptum því enn einu sinni um stefnu í verkefninu. Við ákváðum að skoða tölvunotkun unglinga og hvort unglingar sem og foreldrar gerðu sér grein fyrir þeim hættum sem leyndust á internetinu, þar lærðum við margt gagnlegt og fræðandi. Það voru 20 manns sem tóku þátt í könnuninni og voru það 10 af hvoru kyni, þar af voru 10 foreldrar og 10 unglingar (yngri en 18 ára). Við tókum viðtöl við unglingana og spurðum þau um hættur internetsins og hvort þeir geri sér grein fyrir því hvar þær leynast. Meirihluti unglinganna taldi sig gera sér fulla grein fyrir því hvar þessar hættur leynast og hvernig bæri að varast þær. Stór hluti þeirra kunni líka að eyða „History“ í tölvunum sínum en þar kemur fram hvaða vefsíður skoðaðar eru. Viðtölin við foreldrana voru mestmegnis svipuð, þar gerðu flestir sér grein fyrir því hvar hætturnar leyndust, en þó fylgdust ekki allir foreldrarnir með því hvað börnin þeirra gerðu á internetinu.

Í byrjun verkefnisins tóku Halldór og Viktor að sér að gera spurningar fyrir unglinga undir 18 ára aldri og Bjarnveig gerði spurningar fyrir foreldra. Halldór og Viktor hittu krakkana utan kennslustundar og svöruðu krakkarnir spurningunum samviskusamlega. Bjarnveig tók síðan viðtöl við foreldra sem allir tóku vel í það að svara nokkrum spurningum.

Útfrá þeim niðurstöðum sem fengust úr könnununum gerðum við síðan súlurit og unnum með þær niðurstöður sem við fengum.

Þar sjáum við svart á hvítu að meirihluti unglinganna á aldrinum 16-17 ára telja sig gera sér grein fyrir þeim hættum sem leynast á internetinu og hvernig best sé að forðast þær. Einungis einn af þeim unglingum sem við töluðum við myndi hitta einhvern í eigin persónu sem þeir hafi eingöngu talað við á netinu og passaði meirihlutinn upp á það hvaða fólki það hleypti á vinalistann sinn á Facebook.

Af þeim foreldrum sem við töluðum við skoðaði minnihluti foreldra hverskonar fólk börnin þeirra talaði við á internetinu og helmingur þeirra takmarkaði tölvunotkun þeirra, þrátt fyrir að meirihlutinn taldi það þurfa.

Tekið saman, þá virðist meirihluti foreldra og unglinga gera sér grein fyrir þeim hættum sem leynast á internetinu og hvernig beri að varast þær.

Ef við myndum halda áfram með verkefnið myndum við vilja fá stærra úrtak til að fá nákvæmari og skýrari niðurstöður.

Við gætum tekið viðtöl við foreldra barnanna og væri þá meira samræmi á milli t.d. hvort börnin átti sig á því hvort foreldrar þeirra skoða raunverulega það sem þau eru að gera í tölvunni.

Við hefðum getað gert mun ítarlegri rannsókn og fengið betri niðurstöður hefðum við haft lengri tíma. 


Börn og alkóhólistar 
Höfundar: Sigurður Ingvi Rögnvaldsson og Stefán Daði Bjarnason.

Það sem hafði komið fram í fræðilega kaflanum finnst okkur stemma við þau svör sem við fengum úr þeim spurningum sem við fengum aðila til að svara. Það sem kom fram í fræðilega kaflanum er að fræðimenn segja að alkóhólismi sé fjölskyldusjúkdómur. 

Í úrtakinu sem við tókum viðtal við kom einnig í ljós að þetta væri algengur sjúkdómur innan fjölskyldunar og yfirleitt einn eða fleiri úr fjölskyldunni hafi glímt við þennan sjúkdóm. Eins og fram kom í fræðilega kaflanum eiga börn foreldra sem eru alkóhólistar í mun meiri erfiðleikum með félagslíf en börn foreldra sem eru ekki alkóhólistar. Í mörgum tilfellum vinnur annað foreldrið tvöfalda vinnu til þess að sjá fyrir heimilinu. Jafnframt þarf foreldrið að sjá til þess að makinn, alkóhólistinn, geri ekki eitthvað af sér og hefur stanslausar áhyggjur af honum. Af þessum ástæðum er lítill tími fyrir barnið og þess vegna bitnar þetta ástand á félagslífi barnsins á heimilinu vegna þess að það getur ekki fengið vini sína heim til sín þegar ástandið er sem verst á heimilinu vegna alkóhólistans. Einnig kemur þetta niður á tómstundum barnsins vegna þess að foreldrarnir hafa ekki tíma til að skutla því á t.d. æfingu eða það sem barnið stundar. Einnig fær barnið ekki þann stuðning frá heimilinu sem það þarf til þess að geta stundað það sem það vill.

Alkóhólismi getur komið við sögu í öllum stéttum samfélagsins. Þess vegna er mismunandi hvernig þetta kemur niður á bæði fjölskyldunni og börnunum þó svo að það séu mjög líkar afleiðingar.

Eftir því sem barnið er eldra þegar foreldrið missir stjórn á neyslu áfengis, því minni afleiðingar hefur þetta á barnið. Einnig er búið að sanna að ef að foreldrið fer í meðferð við þessu áður en að barnið nær skólaaldri og nær bata þá hefur barnið ekki hlotið mikinn skaða. Ef foreldrarnir eru illa settir í samfélaginu þá eru meiri líkur á því að börn þeirra verða háð áfengi eða fíkniefnum.

Drykkja kvenna er mun meira feimnismál en drykkja karla og þá eru fordómar gagnvart „kvenalkóhólisma“ mun meiri en í garð karla. Þá er það mun meira falið ef móðirin er alkóhólisti en ef faðirinn er alkóhólisti. Samskiptin jafnt innan sem utan fjölskyldunar byggjast þá mjög oft á boðorðunum þremur. Algengt er í þessum fjölskyldum að alkóhólistinn, móðirin, sé beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Okkur fannst sláandi hversu margir ungir alkahólistar greinast og fara í meðferð. Talið er að um eitthundrað ungmenni sem hafa ekki náð tvítugsaldri komi ár hvert í meðferð hjá SÁÁ. Yfirleitt hefur sjúkdómurinn þróast mjög hratt og á stuttum tíma. Unga fólkið hefur oft verið í blandaðri neyslu, þar sem það hefur einnig notað margvísleg vímuefni. Unga fólkið er oft mun háðara umhverfi sínu en þeir sem eru eldri. Talið er að ungir alkóhólistar hafi yfirleitt misst öll tengsl við mæður sínar og feður og aðra fjölskyldumeðlimi þegar unglingurinn verður alkóhólisti.

Meðferð hjá S.Á.Á. hefst á Vogi og framhaldsmeðferð fer fram á göngudeildum og eftirmeðferðarheimilum. Auk fræðslu um alkóhólisma fá sjúklingar aðstoð við undirbúning þess að lifa án vímugjafa. Sjúklingar ástunda sjálfskönnun, læra að fást við tilfinningar og  streitu og gera áætlun um nýtt líf. Sjúklingar fara í raun í líkamlega, andlega og félagslega endurhæfingu. Flestum tekst að ná varanlegum árangri strax í fyrstu tilraun, eða um 60% þeirra sem fara í meðferð og framhaldsmeðferð. Aðrir þurfa að fara tvisvar eða þrisvar í meðferð. Lítill hluti á síðan erfitt með að ná tökum á tilverunni og þarf oft á meðferð að halda. Enginn er samt vonlaus. Fjölmörg dæmi eru um að alkóhólistar hafi náð góðum bata eftir meira en tug meðferða. Okkur finnst magnað hversu gott og frábært starf S.Á.Á.  eru að vinna fyrir þá sem glíma við áfengisvandann.

Miðað við niðurstöðurnar sem við fengum úr spurningunum finnst okkur að einstaklingarnir hafi verið að segja satt og rétt frá, ekki síst vegna þess að þetta passaði mjög vel við það sem við vorum búnir að kynna okkur þegar við vorum að gera fræðilega kaflann.

 

Áhrif tónlistarnáms á einkunnir framhaldsskólanema
Höfundur: Úlfar Gunnarsson.

Ég, Úlfar Gunnarsson, ákvað að rannsaka hversu mikil eða lítil áhrif tónlistarnám í æsku getur haft á einkunnir seinna á lífsskeiðinu. 

Ég fékk meðaleinkunnir frá 68 framhaldsskólanemum úr framhaldsskólum víðsvegar um landið. Einkunnir þeirra voru mjög misjafnar og það eina sem ég gerði var að skipta þeim í tvennt; einn 34 manna hóp sem hafði stundað tónlistarnám í æsku og annan 34 manna hóp sem hafði ekki stundað tónlistarnám í æsku.

Niðurstöðurnar voru einfaldar. Meðaleinkunn nemenda sem hafa stundað tónlistarnám var 7,35 og meðaleinkunn nemenda sem ekki höfðu stundað tónlistarnám var 7,23. Munurinn á þessum hópum er frekar lítill eða 0,12.
Sjálfur ætla ég ekkert að tjá mig um það hvort þessar niðurstöður bendi til þess að þeir sem stunduðu tónlistarnám í æsku séu eitthvað betri en þeir sem gerðu það ekki. Ég læt ykkur sjálf dæma um það.