Fara í efni

Ánægð með matartæknanámið

Anna Björk Ívarsdóttir í eldhúsinu í Norðlenska.
Anna Björk Ívarsdóttir í eldhúsinu í Norðlenska.

Ellefu nemendur stunda í vetur nám í matartækni í VMA en skólinn býður upp á þetta þriggja anna nám þegar ákveðinn lágmarksfjöldi nemenda skráir sig í það. Námið hófst sl. haust og lýkur í desember nk. Um er að ræða lotunám – fimm lotur á önn – og á milli þeirra er verkefnavinna. Auk þess er vinnustaðanám áskilið þar sem horft er m.a. til eldunar á sérfæði. Þeir ellefu nemendur sem nú eru í matartæknanáminu eru frá Vestmannaeyjum, Hvammstanga, Akureyri, Egilsstöðum og Vopnafirði.

Sem fyrr segir eru fimm lotur í náminu og er kennt í VMA. Fyrirkomulag lotuhelganna er á þann veg að bókleg kennsla er eftir hádegi á föstudögum en verkleg kennsla á laugardögum. Aðalkennari er Marína Sigurgeirsdóttir en einnig kennir Ari Hallgrímsson. Bæði eru þau kennarar við matvælabraut VMA.

Marína segir að nemendur séu á öllum aldri og margir þeirra hafi komið inn í námið eftir að hafa fengið starfsreynslu sína og færni metna í raunfærnimati.

Dæmi um nemanda í þessum nemendahópi sem fór í raunfærnimat í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar er Anna Björk Ívarsdóttir en hún hefur í meira en áratug starfað sem kokkur og matráður og þar áður var hún í ýmsum störfum sem á einn eða annan hátt tengjast matvælaframleiðslu. Núna annast Anna eldamennskuna í mötuneyti kjötframleiðslufyrirtækisins Norðlenska á Akureyri.

Anna segir að hún hafi fengið hvatningu til þess að fara í raunfærnimat í SÍMEY á fyrrihluta síðasta árs og ákveðið að láta slag standa, ekki síst vegna þess að hún hafði veður af því að til stæði að hefja kennslu í matartækni í VMA á haustönn 2021. Raunfærnimatið hafi skilað henni mun meira en hún hafi átt von á og í kjölfarið hafi hún ákveðið að skrá sig í grunnfög í SÍMEY – íslensku, ensku og stærðfræði – sem er hluti af matartæknináminu.

Með alla sína starfsreynslu í matvælageiranum fékk Anna Björk fjölmargt sem kennt er í matartækni metið í raunfærnimatinu í fyrra, sem þýðir að hún þarf ekki að taka alla áfangana í matartæknanáminu. Á fyrstu önninni var hún t.d. einungis í einum áfanga, hráefnisfræði, og núna á vorönn er hún í matseðlafræði.  

Í vinnustaðanáminu er áskilið að nemendur vinni ákveðinn tíma í eldhúsum sjúkrastofnana til þess að læra matreiðslu sérfæðis. Anna segist spennt fyrir því, enda sé matreiðsla á sérfæði ný fyrir sér. Einnig hafi hún áhuga á því að taka hluta vinnustaðanámsins á veitingastað sem leggi áherslu á matreiðslu grænmetisfæðis.

„Mér finnst þetta skemmtilegt nám og þó svo að ég hafi lengi starfað í þessum geira er ég að læra helling af nýjum hlutum,“ segir Anna og rifjar upp að þegar hún fór í bóklegu fögin í SÍMEY hafi hún ekki setið á skólabekk árum saman. Raunfærnimatið og námið í SÍMEY hafi kveikt neistann til þess að læra meira og hún sé afskaplega sátt með að hafa drifið sig í matartæknanámið í VMA.