Fara í efni

Allt eftir kúnstarinnar reglum

Að mörgu þarf að gæta þegar lagt er á borð.
Að mörgu þarf að gæta þegar lagt er á borð.

Á fjórða tug nemenda stunda nú nám í grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA. Nemendum er skipt upp í hópa í verklegum greinum, sem fara í gegnum allan þann grunn sem nauðsynlegur er ef þeir velja sér nám á þessu sviði í framhaldinu – matreiðslu, bakstur, framreiðslu eða kjötiðn. Sumir grunndeildarnemar á matvælabrautinni halda áfram á þessu sviði og sérhæfa sig, aðrir nýta sér þekkingu úr náminu í grunndeildinni - eldamennsku, bakstur, meðhöndlun kjötvara og framreiðslu - út í lífið sjálft. Ekki ónýtt veganesti!

Matvæla- og ferðabraut VMA hefur góða aðstöðu til kennslu; fyrsta flokks eldhús, góða aðstöðu til baksturs og í matsalnum kennir Edda Björk Kristinsdóttir nemendum réttu handbrögðin við framreiðslu. Að mörgu er að hyggja í þessu sambandi, hvort sem eru borðdúkar, servíettur, hnífapör eða glös. Borðið skal dúka eftir kúnstarinnar reglum, ótal skemmtileg brot eru til fyrir servíettur og staðsetning hnífaparanna skiptir máli.

Framreiðslan er áhugavert fag og segir Edda Björk að atvinnumöguleikarnir séu góðir, skortur hafi verið viðvarandi á fagmenntuðum þjónum á veitingahúsum. Til þessa hefur VMA ekki fullmenntað framreiðslumenn vegna þess að ekki nægilega margir nemendur hafa sótt í námið. Þess vegna hafa þeir sem læra framreiðslu þurft að fara suður yfir heiðar og ljúka náminu þar. Edda Björk gerir sér vonir um að áður en langt um líður verði unnt að bjóða upp á að mennta framreiðslumenn í VMA, eins og skólinn hefur gert með góðum árangri í matreiðslunni.

Þegar litið var inn í kennslustund í grunndeildinni var Edda Björk að leiðbeina nemendum með m.a. að dúka borð, þeir fengu að spreyta sig á því að búa til óáfenga kokteila o.fl. Myndirnar tala sínu máli.