Fara í efni

Allir leggjast á eitt við þessar aðstæður

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA.
Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð að blikur eru á lofti við upphaf vorannar. Á hverjum sólarhring hafa verið að greinast um og yfir eitt þúsund kóvidsmit  hér á landi sem þýðir að smit eru mjög útbreidd í samfélaginu. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA segir að í ljósi mikillar fjölgunar smita að undanförnu séu á margan hátt óvissutímar í byrjun vorannar 2022.

„Það má gera ráð fyrir að það verði töluverð truflun á skólastarfi á vorönn vegna þess að bæði einhverjir nemendur og kennarar verða að fara í einangrun og sóttkví. Þetta segi ég vegna þess að smitin eru svo almenn út í samfélaginu. Vissulega hefur verið eitthvað um slíkt hér í skólanum frá því að faraldurinn hófst en við höfum búið okkur undir að það verði í mun meira mæli á þessari önn en áður. Til þess að þessar aðstæður hafi sem minnst áhrif á nám nemenda hefur verið tekin ákvörðun um að bregðast við m.a. með því að í lok annar verði ekki lofapróf eins og verið hefur en þess í stað verði námsmatið í formi símats. Með þessu er unnt að ná fram ákveðnum sveigjanleika ef á þarf að halda vegna mögulegrar fjarveru nemenda og kennara.

Þegar og ef nemendur eða kennarar eru í sóttkví eða einkennalaus í einangrun er gert ráð fyrir því að þeir sinni námi og kennslu. Nemendur hafa rafrænan aðgang á Moodle, Innu eða á öðrum stöðum sem kennararnir vísa til að öllu námsefni í viðkomandi áföngum og eiga því að geta fylgt eftir námsáætlunum eins og mögulegt er. Auðvitað er misjafnt á milli áfanga hvernig þessu er háttað og það er ljóst að þetta er mun snúnara í verknámsáföngum. Ef kennari verður í sóttkví fellur kennsla ekki niður, þá færist hún yfir í fjarkennslu og nemendur eiga að mæta í þær kennslustundir, rétt eins og um venjulegan skóladag væri að ræða í dagskóla, og mæting nemenda verður skráð. Markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú er að námið geti haldið áfram og sem allra minnst röskun verði á því, jafnvel þótt kennarar eða nemendur séu í sóttkví eða einkennalaus í einangrun. Við höfum beðið kennara að gera nemendum grein fyrir því í fyrstu kennslustundum í áföngum hvernig fyrirkomulagið verði ef sú staða kæmi upp að kennarar og/eða nemendur þyrftu að sæta sóttkví.
Við gerum okkur alveg grein fyrir því að í skóla, þar sem samanlagður fjöldi nemenda og starfsmanna er á annað þúsund, að þessi staða mun koma upp og strax á fyrsta skóladegi hefur þetta gerst, einn af kennurum okkar er í einangrun og hefur þegar verið í sambandi við sína nemendur,” segir Sigríður Huld.
Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að nemendur verði virkir í sínu námi, hvaða aðstæður sem upp kunni að koma, og þess vegna muni kennarar verða í góðu sambandi við nemendur sína.
Sigríður Huld segir að þrátt fyrir að ekki verði lokapróf í annarlokin sé ekki þar með sagt að engin próf verði í einstaka áföngum. Þau geti eftir sem áður verið hluti af fjölbreyttu námsmati í hverjum áfanga. Ákvörðun um það sé eins og áður í höndum hvers kennara. „Ég er kennurum mjög þakklát fyrir hvernig þeir hafa tekið þeirri áskorun að breyta námsmati sínu á þessari önn. Við erum öll sammála um það markmið að leita allra leiða til þess að sem allra minnst röskun verði á náminu við þessar aðstæður og við viljum öll gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir óvissu og streitu sem því fylgir ef nemendur þurfa að vera eitthvað í burtu vegna sóttkvíar eða einangrunar.“

Sóttvarnir lykilforsenda skólastarfs við þessar aðstæður
Í ljósi mikillar útbreiðslu smita í samfélaginu vill skólameistari undirstrika mikilvægi sóttvarna nemenda og starfsmanna skólans. „Grímuskylda er í öllum skólanum – alltaf. Einnig er ástæða til að undirstrika mikilvægi handþvottar og að spritta reglulega. Þriðja atriðið er að virða fjarlægðarmörk. Og fjórða atriðið er að hvorki nemendur né starfsmenn komi í skólann ef þeir hafa einhver einkenni sem geti bent til kóvid. Þess í stað fari viðkomandi í hraðpróf eða PCR-próf til þess að fá úr því skorið hvort um smit sé að ræða."

Sigríður Huld segir að í gær hafi hún og aðrir stjórnendur farið um skólann og heyrt hljóðið í nemendum. Vissulega sé komið töluverð þreyta í nemendur eins og aðra í samfélaginu gagnvart faraldrinum en sem fyrr sé ekkert annað í boði en að vinna mjög ákveðið eftir fyrirmælum sóttvarnayfirvalda „og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vernda skólastarfið. Því betur sem við sinnum okkar persónubundnu sóttvörnum og erum ekki að koma veik í skólann, því meiri líkur eru á að við getum haldið úti ólöskuðu skólastarfi. Við þessar aðstæður þurfum við öll að leggjast á eitt til þess að skólastarfið geti gengið vel fyrir sig. En við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því að ef hér kæmu upp hópsmit gæti þurft að loka öllum skólanum eða einstaka deildum tímabundið.“
Varðandi bólusetningu segist Sigríður Huld vilja hvetja þá nemendur sem ekki hafi tekið bólusetningu að gera það. Einnig sé mikilvægt að nemendur sem hafi þegar verið verið tvíbólusettir þiggi örvunarbólusetningu. Þetta sé sérstaklega mikilvægt því nýjustu sóttvarnareglur geri ráð fyrir því að nemendur með örvunarskammt geti mætt í skólann, þó svo að þeir séu skilgreindir í sóttkví.

Hér má sjá þær nýju reglur sem gilda um þá sem eru þríbólusettir eða tvíbólusettir með staðfesta sögu um Covid.

„Þessar aðstæður eru eitthvað sem við ráðum ekki við en við getum ráðið okkar viðhorfi frá degi til dags. Það erum við sjálf sem ákveðum að mæta ekki í skólann vegna þess að við erum með einhver kóvideinkenni, það er ákvörðun hvers og eins nemanda að sinna námi sínu vel þrátt fyrir faraldurinn og við treystum því að hver og einn nemandi og starfsmaður skólans sjái um sínar sóttvarnir.“

Sigríður Huld segir að það sé vissulega öðruvísi að stýra skólanum við þessar krefjandi aðstæður. Faraldurinn og allt sem tengist honum taki eðlilega mikinn tíma og á meðan þurfi önnur verkefni að víkja. Mikilvægast af öllu sé að geta verið með eins eðlilegt skólastarf og nokkur kostur sé. Það hafi tekist ótrúlega vel á haustönninni og allir leggist á eitt við að skólastarf geti einnig gengið vel fyrir sig núna á vorönn, þótt vissulega séu blikur á lofti vegna mikillar útbreiðslu smita í samfélaginu.