Fara í efni

Æfingar á Bót og betrun komnar í fullan gang

Leikhópurinn í Bót og betrun.
Leikhópurinn í Bót og betrun.

Æfingar á leikritinu Bót og betrun í uppfærslu Leikfélags VMA eru komnar í fullan gang undir stjórn leikstjórans Sögu Geirdal Jónsdóttur. Bót og betrun eftir breska leikskáldið Michael Cooney er farsi af bestu gerð þar sem misskilningur á misskilning ofan ræður för.

Valið var í hlutverk fyrir nokkrum vikum og í kjölfarið hófust æfingar. Örn Smári Jónsson formaður Leikfélags VMA sagði hér á heimasíðunni 5. september sl. að hann væri mjög spenntur fyrir því að setja upp farsa, það væri mikil og góð áskorun. Einnig væri sérstaklega ánægjulegt að fá reynslumikinn leikstjóra, Sögu Geirdal Jónsdóttur, til liðs við hópinn, en hún á að baki meira en hálfa öld í leikhúsinu sem leikari og leikstjóri og er margreynd í því að setja upp farsa.

Saga segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart þegar Leikfélag VMA leitaði til hennar með að leikstýra Bót og betrun. Hún hafi þurft að hugsa sig eilítið um, enda mikið og krefjandi verkefni, en  ákveðið síðan að slá til. „Það er mikil áskorun að setja upp farsa því hann er erfiðasta formið í leikhúsi. Ég hef leikstýrt uppsetningu áhugaleikfélaga á försum en þetta er í fyrsta skipti sem ég set upp farsa með framhaldsskólanemum. Þetta er skemmtilegt og gefandi verkefni, krakkarnir eru hressir og áhugasamir.“

Eins og undanfarin ár er fyrirkomulagið á þann veg að fyrri hluti æfingatímans er núna á haustönn, fram í desember, en síðan verður þráðurinn tekinn upp eftir áramót og frumsýning er áætluð í febrúar nk. í Gryfjunni í VMA. Örn Smári Jónsson, formaður Leikfélags VMA, sem jafnframt er einn tíu leikara í sýningunni, segir að ekki aðeins sé farið að æfa af krafti heldur séu aðrir hlutir baksviðs komnir í fullan gang. Til dæmis leikmyndahönnun og smíði, sem byggingadeild skólans mun koma að. Einnig er farið að huga að öflun leikmuna, búninga o.fl. Við leikuppfærslu er í mörg horn að líta og því um að gera að vera tímanlega með hlutina.

Auk Arnar Smára fara með hlutverk í sýningunni: Halldór Birgir Eydal, Katla Snædís Sigurðardóttir, Hanna Lára Ólafsdóttir, Sigríður Erla Ómarsdóttir, Hemmi Ósk Baldursbur, Sigrún Karen Yeo, Ingólfur Óli Ingason, Guðmar Gísli Þrastarson og Svavar Máni Geislason.