Fara í efni

Bót og betrun hjá Leikfélagi VMA

Örn Smári Jónsson, formaður Leikfélags VMA.
Örn Smári Jónsson, formaður Leikfélags VMA.

Aðalverkefni vetrarins hjá Leikfélagi VMA verður gamanleikritið eða farsinn Bót og betrun eftir breska leikskáldið Michael Cooney. Á frummálinu nefnist leikritið Cash and Delivery. Leikstjóri sýningarinnar verður Saga Geirdal Jónsdóttir. Örn Smári Jónsson, formaður Leikfélags VMA, segist mjög spenntur fyrir því að taka þátt í uppfærslu farsa, gamall draumur rætist í vetur.

Bót og betrun fjallar um Erik nokkurn Swan sem eftir að hafa verið sagt upp í vinnunni grípur til þess að ráðs að svíkja peninga út úr kerfinu á mjög svo vafasömum forsendum. Hann flækist óþægilega mikið í lygavefnum sem hann hefur spunnið og horfir fram á að spilaborgin hans hrynji með látum. Örn Smári segir að þetta sé dæmigerður farsi með hröðum skiptingum og misskilningi á misskilning ofan.

Tíu leikarar verða í sýningunni sem eins og fyrr segir verður leikstýrt af Sögu Jónsdóttur, sem býr yfir áratuga reynslu sem leikkona og leikstjóri. Örn Smári segir ánægjulegt að fá Sögu til liðs við Leikfélagið í þessu verkefni, enda hafi hún mikla reynslu af uppsetningu á farsaleikritum.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni enda hefur mig lengi langað til þess að taka þátt í að setja upp farsa. Nú er komið að því. Leikfélag VMA hefur verið að setja upp barnaleikrit og söngleiki undanfarin ár og það hefur verið mjög skemmtilegt. Núna tökumst við á við allt aðra hluti, sem ég held að sé bara mjög gott og ögrandi fyrir okkur,“ segir Örn Smári.

Gert er ráð fyrir að velja í hlutverk í sýningunni í október en áður en að því kemur verður efnt til leiksmiðju sem nefnist Harlekin. Skráning í hana er á leikfelag@thorduna.is til 8. september nk. en smiðjan verður starfrækt 12.- 30. september nk.