Fara í efni

,,Þarf að jafna kynjahallann“

Fimm af sex körlum í sjúkraliðanáminu í VMA.
Fimm af sex körlum í sjúkraliðanáminu í VMA.

Nám á sjúkraliðabraut VMA er fjölbreytt sex anna nám. Í lýsingu á náminu á vef VMA kemur fram að því sé ,,ætlað að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna.“ Þá er þess getið að sjúkraliðanám geti verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Þessi mynd var tekin af nemendum í kennslustund í hjúkrun hjá Hannesínu Scheving.

Sjúkraliðabrautin er ein þeirra námsbrauta þar sem kynjahalli hefur verið mjög ríkjandi, til undantekninga hefur heyrt ef karlmenn hafa sótt í námið. Vissulega er enn drjúgur meirihluti nemenda konur en líklega hafa aldrei verið fleiri karlmenn skráðir í nám á sjúkraliðabrautinni og nú eða sex.

,,Það þarf að jafna kynjahallann í þessu námi. Ég tel að þetta ná sé góður grunnur undir svo margt og eitt og sér gefur það starfsréttindi. Minn hugur stendur til þess að fara í hjúkrunarfræði í framhaldinu,“ segir Kristján Helgi Benjamínsson. Hann segist hafa verið nemandi í VMA fyrir margt löngu og haft þá lítinn áhuga á námi. Síðar hafi hann náð sér í réttindi í leiðsögn og starfað sem leiðsögumaður í rúman áratug. En með náminu á sjúkraliðabraut VMA segist hann hafa tekið u-beygju og sjái ekki eftir því, námið sé áhugavert og gefandi.

Magnús Rosazza segist hafa valið þetta nám vegna þess að hann hafi ánægju af því að vinna með og umgangast fólk. Auk sjúkraliðanámsins hyggst hann ljúka stúdentsprófi og hann segist taka bóklegar greinar til stúdentsprófs í fjarnámi VMA. Hvað framtíðin ber í skauti sér segir Magnús of snemmt að segja til um en sjúkraþjálfun sé ein þeirra leiða sem komi til greina.

Bjarni Hólmgrímsson segist hafa horft til þess að fara áfram í hjúkrunarfræði þegar hann valdi sjúkraliðanámið en eins og staðan sé núna finnist honum áhugavert að stefna á að starfa í sjúkraflutningum. Tíminn verði þó að leiða í ljós hvað verði ofan á.

Hilmar Harðarson segist hafa lengi starfað í ýmsum umönnunarstörfum auk þess sem hann hafi aflað sér kennslu- og einkaþjálfararéttinda. Hann segist lengi hægt að bæta við sig þekkingu og námið á sjúkraliðabrautinni taki til margra áhugaverðra þátta sem nýtist vel.

Níels Ómarsson er kominn á þriðja og síðasta ár sjúkraliðanámsins en auk þess tekur hann áfanga til þess að ljúka stúdentsprófi. Hann segist hafa valið þetta nám með það í huga að starfa í framhaldinu sem sjúkraflutningamaður og þau áform hans hafi ekki breyst.