Fara í efni

Regnbogahópur í VMA

Regnbogahópurinn er heiti á hópi starfsmanna í VMA sem hefur það að leiðarljósi að styðja við hinsegin nemendur í skólanum og hinsegin samfélagið almennt, að vera sýnileg og til taks og veita upplýsingar.

Að frumkvæði Snorra Björnssonar kennara í íslensku og kynjafræði í VMA var núna í upphafi haustannar boðað til fundar starfsmanna í skólanum sem vildu leggja þessu málefni lið og taka þátt í starfinu. Um tuttugu starfsmenn mættu til fyrsta fundar þar sem grófar útlínur að starfinu voru lagðar. Snorri segist fastlega gera ráð fyrir að fleiri eigi eftir að bætast í hópinn.

Snorri segir að hugmyndin að slíkum regnbogahópi í VMA hafi smám saman mótast í framhaldi af málþingi sem var haldið í VMA í október í fyrra um hinsegin nemendur á landsbyggðinni. Þar hafi m.a. flutt erindi Stefano Paolillo, kennari og umsjónamaður hinsegin stuðningshóps í European School UCCL í Brussel (Evrópuskóli nr. 1). Í framhaldinu segir Snorri að komist hafi á tengsl VMA við þennan skóla í Brussel og heimsóttu þrír starfsmenn og þrír nemendur úr VMA hann sl. vor með stuðningi Erasmus+. Þessi Evrópuskóli er tvískiptur, annars vegar eru eldri nemendur í UCCLE og hins vegar yngri nemendur í Berkendael. Í þeim báðum eru starfræktir regnbogahópar í þeim tilgangi að styðja við hinsegin nemendur. Sendinefnd VMA heimsótti báða skólana. Auk heimsóknar í skólana og fræðslu um hinsegin samfélagið í Brussel heimsóttu VMA-starfsmenn og nemendur m.a. Evrópuþingið og söfn í borginni.

Snorri Björnsson segir að þessi heimsókn hafi tekist afskaplega vel og í framhaldinu hafi kviknað sú hugmynd að koma á fót sambærilegum regnbogahópi í VMA. Ákveðið bakslag hafi orðið í réttindamálum hinsegin fólks og því sé full ástæða til þess að vera á varðbergi og styðja við fjölbreytileikann í skólanum og almennt í samfélaginu.

„Okkar helsta markmið með þessu er að vera sýnileg á göngum skólans þannig að nemendur geti leitað með það sem þeim liggur á hjarta. Okkur í Regnbogahópnum verður alltaf að finna í stofu B4 í hádeginu á miðvikudögum frá kl. 12.30 til 13.10. Þar munum við hittast og fá okkur hádegissnarl saman og við viljum endilega sjá sem flesta nemendur og starfsmenn kíkja við og eiga við okkur samtal,“ segir Snorri og bætir við að ánægjulegt sé að núna á haustönn sé ætlunin að endurvekja hinsegin félag nemenda í skólanum.