Fyrsti kennsludagur haustannar
19.08.2025
Fyrsti kennsludagur haustannar í VMA samkvæmt stundaskrá er í dag, 19. ágúst. Um 870 nemendur eru skráðir í dagskóla í upphafi annar og við bætast nemendur í fjarnámi en almennum umsóknarfresti til þess að sækja um fjarnám á haustönn lýkur 21. ágúst. Nýnemar eru um 250.
Sem fyrr eru margar námsbrautir skólans þétt setnar og á það ekki síst við um hinar ýmsu verknámsbrautir. Auk náms í dagskóla verður í vetur kvöldskóli í bæði rafiðn og húsasmíði. Í rafiðn byrjaði þessi námshópur um síðustu áramót en nýr námshópur, þriðji kvöldskólahópurinn, hefur nú nám í húsasmíði.
Nýr námshópur hefur einnig nám núna á haustönn í matartækni. Sem fyrr hefur Marína Sigurgeirsdóttir umsjón með náminu sem verður kennt í lotum.