Fara í efni

Yngstur í félagi eldsmiða á Íslandi

Eldsmiðurinn Jakob Ágúst Róbertsson.
Eldsmiðurinn Jakob Ágúst Róbertsson.

Það eru örugglega ekki margir á svipuðu reki sem eiga sér sama áhugamál og Jakob Ágúst Róbertsson, sextán ára Akureyringur og nemandi á almennri braut VMA. Hann eyðir nefnilega flestum sínum frístundum í eldsmíði og framtíðin er ráðin, að sögn Jakobs Ágúst. Hann stefnir á að fara í grunndeild málmiðnaðar næsta haust, fara síðan í stálsmíði í VMA og fara loks til útlanda og nema eldsmíði. Þar horfir Jakob sérstaklega til Herefordshire & Ludlow College í Englandi.

Jakob segir að áhugi á eldsmíði hafi kviknað af hreinni tilviljun fyrir nokkrum árum.  „Ég hef alltaf haft gaman af því að fikta með eld. Ég man að einu sinni í skátaferðalagi upp í Fálkafell fékk ég það verkefni að vakta eldinn. Ég fór eitthvað að fikta með skörunginn, sem var steypustyrktarjárn, í eldstæðinu og þegar ég tók hann út var hann rauðglóandi. Ég barði honum aðeins í gólfið og komst þá að raun um að það væri hægt að móta járnið. Þetta kveikti forvitni mína og áhuga á þessu. Veturinn 2012-2013 eyddi ég öllum stundum á netinu við að gúggla greinar og horfa á myndbönd á Youtube. Sumarið 2013 byrjaði ég síðan að prófa sjálfur og hef verið að þróa þetta síðan. Ég fór til að byrja með á námskeið hjá Guðmundi Erni Ólafssyni hér á Akureyri en hann er með smiðju niður í gamla slipphúsinu og rekur fyrirtækið Horny Viking. Daginn eftir að ég kláraði námskeiðið 2013 fór ég upp á ruslahauga og fann járnkassa sem ég útbjó síðan eldstæði úr. Þetta var fyrsta eldsmiðjan mín en í það heila er ég búinn að smíða fjórar slíkar smiður. Ég er með eldsmiðjuna undir svölunum heima. Það er hægt að smíða í hvaða veðri sem er, enda er svo mikill hiti frá smiðjunni,“ segir Jakob.

Langalangafi Jakobs var eldsmiður og því má kannski segja að þessi áhugi sé genetískur. „Ég vissi reyndar ekki fyrr en í fyrra að langalangafi hafi verið eldsmiðu. Langamma mín, dóttir langalangafa, á ennþá nokkur af verkfærunum sem hann notaði í eldsmíðinni. Bæði amma mín og langamma hafa báðar áhuga á þessu og ég var ásamt þeim að vinna á handverkshátíðinni á Hrafnagili sl. sumar.“

Í félagi eldsmiða á Íslandi eru um þrjú hundruð manns en Jakob skýtur á að um 180 þeirra stundi eldsmíði. Það kemur ekki á óvart að Jakob er yngstur í félaginu!

Jakob segist smíða úr allskyns járni – steypustyrktarjárni, gormum úr gömlum bílum, þjölum, tindum úr heyþyrlum o.s.frv. Hann hefur smíðað fjölda smáhluta, t.d. hringa, hálsmen, hnífa o.fl. Hér er mynd af nokkrum þessara hluta. Dökk áferð á járninu fæst með því að setja birkitjöru á járnið þegar það er um 300 gráðu heitt. Með því að strjúka síðan yfir með sandpappír fæst fínn gljái á járnið.