Fara í efni

Ýmsar áskoranir í listnáminu

Kennararar á listnáms- og hönnunarbraut VMA eru sammála um að það sé töluvert stór áskorun að kenna listnámsnemendum í VMA verklega áfanga sína í fjarnámi. Sumir áfangar eru erfiðari viðfangs en aðrir, t.d. segir það sig sjálft að kennsla í vefnaði er snúin, enda ekki vefstólar á hverju heimili. Vefstólarnir eru í VMA en þar er að sjálfsögðu engin kennsla sem stendur.

Helga Björg Jónasardóttir og Björg Eiríksdóttir halda utan um lokaverkefni nemenda á listnáms- og hönnunarbraut á þessari önn. Helga segir að hópurnn sé óvenju stór að þessu sinni eða um tuttugu nemendur. Margar stórar spurningar eru uppi í þessum efnum. Ein af þeim lýtur að sýningunni sem nemendur hafa jafnan sett upp í Listasafninu á Akureyri. Miðað er við í dagskrá Listasafnsins að sýningin verði opin níunda til sautjánda maí. Það kemur síðan í ljós hvort þessar dagsetningar standast. Í það minnsta segir Helga Björg að vinna nemendanna miðist áfram við þessar dagsetningar og hún og Björg vinni náið með nemendum og séu í góðu sambandi við þá.

Helga Björg segir að í þeim áföngum sem hún kenni heyri hún í öllum nemendum sínum símleiðis, hún upplifi að slík persónuleg samskipti efli nemendur og hvetji þá til dáða, því auvitað sé það svo að fjarnám sé ekki fyrir alla. „Þetta gengur upp en ég finn jafnframt að nemendur eiga miserfitt með að höndla fjarnám,“ segir Helga. Undir þetta tekur Arna Valsdóttir, samkennari Helgu á listnáms- og hönnunarbrautinni. Hún segir að aðstæður nemenda séu mjög mismunandi til þess að takast á við þetta breytta fyrirkomulag í námi, afar mismunandi sé með aðgang nemenda að búnaði til fjarkennslu og tæknikunnátta þeirra sé einnig mismunandi. Þessu megi ekki gleyma þegar horft sé á heildarmyndina.

Arna kennir nú listasögu í gegnum Google Meet og námsefnið er aðgengilegt á Moodle. Þetta fyrirkomulag segir hún að hafi gengið vel. Hún segir að það hafi verið mikil áskorun að takast á við kennslu í grafík í gegnum netið en hún er með tvo tíu nemenda hópa í grafíkinni. Grafíkverk hafi nemendur ekki möguleika á að útfæra endanlega heima hjá sér og því hafi kennslan færst yfir í að nemendur skissi heima og skissunum sé síðan miðlað til kennarans. Einnig sé áhersla á að kynna fyrir nemendum helstu grafíklistamenn heims og fyrir hvað þeir standi. Í þessum áfanga hefur Arna bæði verið með fjarfundi í gegnum Google Meet og einnig hefur hún notað veftólið Google Sites.

Anna María Guðmann, kennari í myndlist á listnáms- og hönnunarbraut, segist einnig hafa farið þá leið að heyra í hverjum og einum nemenda í síma og mikilvægt hafi verið að missa ekki persónuleg tengsl við þá. Hún segist einnig hafa farið fjarfundaleiðina og sé í samskiptum við nemendum á Messenger í gegnum Facebook. „Mér hefur fundist ánægjulegt að sjá hversu virkir og duglegir nemendur eru, þrátt fyrir allt. Bæði ég sem kennari og nemendur hafa lært heilmikið nýtt í sambandi við fjarfundatækni og slíkt sem mun nýtast okkur öllum áfram,“ segir Anna María – Amí.

Borghildur Ína Sölvadóttir kennir á þessari önn nokkra skylduáfanga á textílsviði listnáms- og hönnunarbrautar, t.d. vefnað, prjón og hekl, útsaum og bútasaum. Ína segir að verklegar æfingar í vef séu að sjálfsögðu ekki á dagskrá enda vefstólarnir í skólanum. Áherslan sé því á bindifræðina í vefnum í gegnum netið. Yfir þessi atriði fari hún yfir með nemendum á fjarfundum.

Prjón segir Ína að hafi gengið framar vonum. Hún hafi notast við fjölda kennslumyndbanda og einnig hafi hún getað aðstoðað nemendur með verkefni í gegnum myndsamtöl. Allt hafi þetta gengið ótrúlega vel.

Nemendur hafa ekki allir aðgang að saumvélum heima og því segist Ína hafa lagt bútasauminn til hliðar og áherslan sé þess í stað á útsaum, sem nemendur eigi auðveldara með að vinna heima.

Í hverri viku frá því að samkomubann var sett á hafa kennarar á listnáms- og hönnunarbraut hist á sameiginlegum fjarfundi þar sem þeir bera saman bækur sínar og miðla hugmyndum að úrlausnum á ýmsum þáttum kennslunnar. Anna María Guðmann segir að allir leggist á eitt við að hlutirnir gangi eins vel upp og nokkur kostur sé við þessar aðstæður.