Fara í efni

Yfirlýsing stjórnar Þórdunu vegna Söngkeppni framhaldsskólanna

Stjórn Þórdunu - nemendafélags VMA - birti í dag á vef sínum yfirlýsingu vegna Söngkeppni framhaldsskólanna í vor. Stjórn Þórdunu er afar ósátt með þessar breytingar og hefur þess vegna ákveðið að VMA dragi sig úr keppninni. Eftir sem áður verður Söngkeppni VMA haldin með pompi og pragt í Hofi nk. fimmtudagskvöld, 18. febrúar.

Yfirlýsing Þórdunu er svohljóðandi:

Mikil umræða hefur verið um Söngkeppni framhaldsskólanna vegna breytinga á keppninni ár frá ári og hafa breytingar undanfarin ár leitt til þess að Þórduna, nemendafélag Verkmenntaskólans á Akureyri dregur sig úr þessari keppni. Við erum sérstaklega ósátt með núverandi breytingar sem innleiddar verða í ár en í þeim felst að einungis 12 skólar eru valdir af dómnefnd til þátttöku í keppninni. Allir skólar sem ætla að senda inn atriði til að komast í keppnina þurfa að greiða þátttökugjald óháð því hvort þeir komist í keppnina eða ekki. Þeir 12 skólar sem komast í keppnina eru svo skuldbundnir til að greiða frekara þátttökugjald.

Þær breytingar sem við erum einnig ósátt með, sem gerðar hafa verið á keppninni síðustu ár, eru meðal annars það að keppendur allra skóla á landinu hafa ekki tækifæri til að keppa í aðalkeppninni og fá tækifæri í sjónvarpi vegna þess að skólar eru sigtaðir út annað hvort með undankeppni eða dómnefnd. Hefur þetta gert það að verkum að umgjörð og áhugi á keppninni hefur stórminnkað síðustu ár og sjáum við ekki hag okkar í því að taka þátt.

Með þessum breytingum finnst okkur að brotið sé á keppendum þar sem einungis 12 af 30 keppendum fá tækifæri til að stíga á svið og syngja fyrir alþjóð í sjónvarpi. Með þessu finnst okkur að ekki sé verið að fylgja eftir hagsmunum keppenda og nemenda í framhaldsskólum á Íslandi.

Hvetjum við aðra framhaldsskóla og jafnt almenning til að kynna sér þetta mál og fylgja því eftir.

Stjórn Þórdunu:
Árni Þórður Magnússon, gjaldkeri
Ingiríður Halldórsdóttir, eignastjóri
Karl Liljendal Hólmgeirsson, varaformaður
Kristján Blær Sigurðsson, ritari
Sindri Snær Konráðsson, skemmtanastjóri
Stefán Jón Pétursson, formaður
Steinar Logi Stefánsson, kynningarstjóri