Fara í efni

Yfirlýsing frá stjórn Þórdunu vegna fyrirhugaðar sameiningu VMA og MA

Yfirlýsing Þórdunu vegna fyrirhugaðar sameiningu VMA og MA.

Verkmenntaskólinn á Akureyri boðaði til fundar með nemendum og starfsfólki klukkan 09:00 í gærmorgun en þar var fjallað um fyrirhugaða sameiningu VMA og MA. Þar kynnti nemendaráðið m.a. niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir alla nemendur skólans um skoðanir þeirra á fyrirhugaðri sameiningu. Könnuninni svöruðu 374, þar af voru 59% aðspurðra andvíg en 41% voru jákvæð fyrir fyrirhugaðri sameiningu. Mögulegir kostir sem komu fram frá nemendum VMA voru m.a. að betra félagslíf gæti skapast, að myndast gæti kraftmikill skóli með fjölbreyttara námsframboði og fordómar í garð VMA myndu minnka. Hins vegar sjá 83 enga kosti við sameiningu skólanna. Mögulegir gallar voru að skólarnir væru of ólíkir til að sameinast og að fólk sem sótti um í VMA vilji fá að útskrifast úr VMA. Eingöngu galla við sameiningu sjá 23 en 20 sjá enga galla. Í könnuninni kom fram að nemendur á iðn- og starfsnámsbrautum eru töluvert jákvæðari fyrir sameiningu heldur en nemendur á stúdentsbrautum. Í henni kom einnig fram að 95% nemenda VMA líður vel í skólanum.

Hvað varðar afstöðu stjórnar nemendafélagsins Þórdunu þá erum við opin fyrir breytingum og fyrirhugaðri sameiningu en ítrekum þó að ef sameiningu verður þarf að gera það á réttum forsendum og með fleiri og betri upplýsingar því okkur finnst skýrslan ekki nægileg.

Þórdunu finnst mikilvægt að enginn niðurskurður verði á þjónustu við nemendur, sem sagt sálfræðiþjónustu, þjónustu hjúkrunarfræðinga og svo framvegis.

Stjórn Þórdunu vildi ekki taka afstöðu fyrr en eftir fund gærdagsins vegna þess að hún taldi ekki rétt að taka slíka ákvörðun án fullnægjandi upplýsinga. Hins vegar eftir fundinn í gær erum við á báðum áttum, við sjáum bæði meiriháttar kosti og galla eins og margir aðrir nemendur skólans.

Fyrir hönd stjórnar Þórdunu

Steinar Bragi Laxdal
Linda Björg K. Kristjánsdóttir
Margrét Rún Stefánsdóttir
Guðmar Gísli Þrastarson
Óskar Óðinn Sigtryggsson
Sigurður Einar Þorkelsson
Þorsteinn Sveinsson