Fara í efni

Wollongong - Mývatnssveit - VMA

Joanna Figliuzzi Herrera.
Joanna Figliuzzi Herrera.

Það er löng leið frá Wollongong, um 300 þúsund manna borg í hálfs annars tíma akstursvegalengd suður af Sidney í Ástralíu, í Verkmenntaskólann á Akureyri. En stundum ræður tilviljun för að nokkru leyti og hlutirnir púslast saman á óvæntan hátt. Það má segja að eigi við um Joönnu Figliuzzi Herrera sem nú stundar nám í grunndeild matvæla- og ferðagreina í VMA.

Árið 2004 kom Ástralinn Joanna í ævintýraleit til Íslands og starfaði sumarlangt á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit. Hún segir helstu ástæðuna fyrir því að hún hafi komið til Íslands á sínum tíma hafa verið löngun til að búa og starfa í evrópsku landi enda eigi hún rætur í Evrópu, móðir hennar sé frá Spáni og faðir hennar eigi ættir að rekja til Ítalíu.

Joanna lærði grafíska hönnun í Ástralíu og starfaði í því fagi í nokkur ár í heimalandinu. Hún segist hins vegar hafa komist að raun um að það ætti ekki við sig að sitja við tölvu dag eftir dag og viku eftir viku og þess vegna hafi hún ákveðið að leita á önnur mið. Hún lærði síðan og starfaði í tískugeiranum um tíma, bæði í Sidney og í heimaborginni Wollongong.

Aftur leitaði hugurinn til Evrópu en Joanna segir það alls ekki hafa verið ætlun hennar að koma aftur til Íslands. En það varð þó úr sumarið 2015 og aftur lá leiðin í Mývatnssveit. Joanna hefur nú verið meira og minna í þrjú ár á Íslandi og starfað á Hótel Reynihlíð. Gengið þar í flest störf, þar á meðal eldað og bakað. Hún segist raunar hafa verið með ríka reynslu að baki í bakstri því hún hafi á sínum tíma starfað lengi við bakstur í fjölskyldufyrirtækinu í Ástralíu.

Joanna ákvað að drífa sig í grunnnám matvæla- og ferðagreina í VMA og styrkja sig til að starfa í þessum geira og hún segist staðráðin í að ljúka náminu hér. Það verði síðan bara að koma í ljós hvort hún búi á Íslandi í framtíðinni eða e.t.v. í einhverju öðru Evrópulandi – trúlega einhverju Norðurlandanna. „Ég hef áhuga á því að læra bæði til bakara og matreiðslumanns en það verður að koma í ljós hvernig þetta æxlast,“ segir Joanna. Hún segist kunna náminu vel og henni finnist síður en svo skrítið að vera langelst í nemendahópnum. „Ég er vön því að vinna með mér mun yngra fólki á Hótel Reynihlíð þannig að það truflar mig alls ekki,“ segir Joanna.

Hún segist gjarnan hafa viljað náð lengra í íslenskunni en flestallir Íslendingar sem hún hafi unnið með tali góða ensku og því hafi nánast öll samskipti sín við fólk farið fram á ensku. „Ég reyni að læra íslensku, meðal annars hitti ég kennara hér á Akureyri tvisvar í viku sem leiðbeinir mér og hjálpar mér með skilning á ýmsum verkefnum sem við þurfum að skila í náminu hér,“ segir Joanna.

„Sem stendur bý ég í Mývatnssveit og legg af stað korter í sjö þaðan til þess að vera komin hingað klukkan átta. Ég þarf að vera hér tvo daga í viku. Ég fæ að hluta metna þá reynslu sem ég hef aflað mér í gegnum tíðina, m.a. af bakstri í fjölskyldufyrirtækinu í Ástralíu og einnig af hótelstörfum mínum,“ segir Joanna Figliuzzi Herrera.

Hér er Joanna í kennslustund hjá Ara Hallgrímssyni í VMA ásamt samnemendum sínum.