Fara í efni

VMA nemendur verðlaunahafar á Nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík 2012

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík hélt sjöttu verðlaunahátíð sína til heiðurs 23 nýsveinum sem luku burtfararprófi í iðngreinum með afburðaárangri á árinu 2011. Hátíðin var haldin í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík laugardaginn 4. febrúar s.l.   Verðlaunahafar 2012 eru 23 úr 10 iðngreinum og þar af tveir nemendur frá VMA.Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík hélt sjöttu verðlaunahátíð sína til heiðurs 23 nýsveinum sem luku burtfararprófi í iðngreinum með afburðaárangri á árinu 2011. Hátíðin var haldin í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík laugardaginn 4. febrúar s.l.   Verðlaunahafar 2012 eru 23 úr 10 iðngreinum og þar af tveir nemendur frá VMA.



Bronsverðlaun hlutu Dagur Hilmarsson fyrir afburðarárangur í sveinsprófi í rafvirkjun. Meistari Dags var Gunnar Frímansson kennari hér í VMA. Þá fékk Grétar Mar Axelsson bronsverðlaun fyrir afburðarárangur á sveinprófi í kjötiðn. Meistari hans var Jón Ágúst Knútsson hjá Norðlenska. Jafnframt fékk Guðmundur H. Gústafsson fyrrum nemandi okkar silfurverðlaun fyrir afburðarárangur í rennismíði en Guðmundur útskrifaðist frá Iðnskólanum í Hafnarfirði eftir að hafa tekið megnið af grunnnáminu hér í VMA og námssamning hjá Helga Stefánssyni hjá Slippnum. Við teljum okkur því eiga svolítið í hans árangri. Kennarar, nemendur og stjórnendur VMA óska Degi, Grétari, Guðmundi og meisturum þeirra til hamingju með frábæran árangur. Árangur þeirra ætti að vera áskorun til núverandi nemenda skólans til að gera enn betur og við hér í VMA erum afar stolt af því að eiga hlut í glæstum árangri þeirra. 
 

Dagur Hilmarsson og meistari hans Gunnar Frímannsson

Jafnframt viðurkenningum nýsveina var Ragnar Axelsson, ljósmyndari, tilnefndur og heiðraður sem iðnaðarmaður ársins og fékk gullverðlaun félagsins. Veitt var viðurkenning fyrir samstarf hönnuða og framleiðenda. Hana hlutu fyrirtækin GO Form Design Studio og Brúnás Innréttingar. 
 
Háskólinn í Reykjavík hefur undanfarin ár heiðrað nýsveina með viðurkenningu og niðurfellingu skólagjalda eina önn í Háskólanum í Reykjavík. Í ár hlutu þrír verðlaunarhafar úr hópi nýsveina þennan heiður. Athöfnin var mjög hátíðleg og glæsilegt var að sjá fánaborg með fánum hinna ýmsu starfsnámsskóla og iðnaðar- og handverksfélaga í kringum sviðið. Á hátíðinni ávarpaði Mennta- og menningarmálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík nýsveina og gesti. Víkingur Heiðar Ólafsson og Flensborgarkórinn fluttu tónlist. 


Grétar Mar Axelsson og meistari hans Jón Ágúst Knútsson
 
Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað 1867 og fagnar nú 145 ára afmæli. Tilgangur þess frá upphafi er að "efla menningu og menntun iðnaðarmanna og styrkja stofnanir sem starfa í þeirra þágu". Iðnaðarmannafélagið stóð fyrir stofnun Iðnskólans í Reykjavík 1904 og er nú einn af hluthöfum Tækniskólans - skóla atvinnulífsins. Félagið reisti Iðnó 1896, stóð fyrir fyrstu iðnsýningunni 1883, gaf þjóðinni styttu Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli 1924 - svo fátt eitt sé nefnt. Félagið er aðili að Verkiðn sem stendur fyrir Íslandsmóti iðn- og verkgreina og haldið verður í Háskólanum í Reykjavík 9. og 10. mars n.k.
 

Hópmyndin er af verðlaunahöfum á nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur