Fara í efni

VMA veitir föngum í fangelsinu á Akureyri námsráðgjöf

Lögreglustöðin og fangelsið á Akureyri.
Lögreglustöðin og fangelsið á Akureyri.

Nýverið var gerður samningur milli Fjölbrautaskóla Suðurlands og Verkmenntaskólans á Akureyri sem kveður á um að námsráðgjafar við VMA sinni námsráðgjöf í fangelsinu á Akureyri, en meirihluti þeirra fanga sem eru í fangelsinu á Akureyri stundar fjarnám á framhaldsskólastigi við nokkra framhaldsskóla, þ.m.t. VMA.

Umræddur samningur FSU og VMA um þjónustu námsráðgjafa í VMA við fangana á Akureyri gildir til ársloka. Þessi þjónusta er nýmæli í fangelsinu á Akureyri en hins vegar hafa fangar þar lengi stundað fjarnám í hinum ýmsu greinum.  Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur víðtæka reynslu af slíkri þjónustu við fanga í fangelsinu m.a. á Litla-Hrauni.

Námsráðgjafar VMA sem sinna ráðgjöfinni í fangelsinu á Akureyri eru Ásdís Birgisdóttir og Svava Hrönn Magnúsdóttir. Miðað er við að þær heimsæki fangana að jafnaði einu sinni í viku eða eftir þörfum. Meðal annars kenna námsráðgjafarnir föngum námstækni og ráðleggja þeim varðandi ýmislegt er lýtur að þeirra námsframvindu.