Fara í efni

Málin rædd á fyrsta VMA-þinginu

Einn af umræðuhópunum fer yfir málin í Gryfjunni.
Einn af umræðuhópunum fer yfir málin í Gryfjunni.

VMA-þing var haldið í skólanum í gær í fyrsta skipti og tóku þátt í því nemendur og kennarar skólans. Fyrirkomulagið var á þann veg að milli kl. 10:00-12:30 var kennsla felld niður en þess í stað voru nokkrir tugir umræðuhópa myndaðir.

Lykilhugtök í umræðum hópanna voru vellíðan, samskipti, ábyrgð og samhygð og var fjallað um þau frá ýmsum hliðum. Það sem skipti máli var að fá fram sjónarmið nemenda um þessi lykilhugtök, skólann og námið. Spurningar sem var velt upp var m.a. hvað felst í menntun, hvernig er stundataflan, eru kennslustundirnar hæfilega langar eða þarf að brjóta tímapörin upp með stuttum frímínútum, hvaða námsmat er best (próf, símat eða blanda af þessu?) og ýmislegt fleira.

Í hverjum hópi var umræðustjóri og ritari og niðurstöður hvers hóps voru skráðar og dregnar saman á sameiginlegt svæði þingsins. Yfir allt þetta efni munu samfélagsfræðikennarar og nemendur í viðburðastjórnun fara og niðurstaðan verður það sem kallað verður  samskipasáttmáli VMA.

Hilmar Friðjónsson var með myndavélina á lofti í gær og tók þessar myndir.

Hér er kveðja sem forseti Íslands, Guðni Jóhannesson, sendi til þátttakenda á VMA-þinginu.

Skipulag VMA-þingsins var í höndum samfélagsfræðikennaranna Valgerðar Daggar Oddudóttur Jónsdóttur, Þorsteins Kruger, Kristjönu Pálsdóttur, Hrafnhildar Sigurgeirsdóttur og nemenda hennar í viðburðastjórnun.

Valgerður Dögg segir að hér sé um frumraun að ræða og því safnist reynsla og upplýsingar í sarpinn sem hægt verði að byggja á til framtíðar en vilji sé til þess að slíkt þing verði árlegur viðburður.