Fara í efni

VMA þátttakandi í Nordic light 2014

Verkmenntaskólinn á Akureyri verður einn af þátttakendum í Nordic light eða Norræna ljósinu 2014, sem er norræn menningarhátíð fyrir ungmenni á aldrinum 14 – 17 ára. Hátíðin byggir á fimm listgreinum; dansi, sjónlist, leiklist, sirkus og tónlist. Verksmiðjan á Hjalteyri verður miðpunktur sjónlistaverkefnisins 20.-22. júlí 2014 hér nyrðra, undir stjórn Örnu Valsdóttur, brautarstjóra listnámsbrautar VMA, en hópurinn kemur til með að hafa vinnuaðstöðu í VMA.

Verkmenntaskólinn á Akureyri  og Akureyrarbær verða meðal þátttakenda í Nordic light 2014 eða Norræna ljósinu 2014, sem er norræn menningarhátíð fyrir ungmenni á aldrinum 14 – 17 ára. Hátíðin byggir á fimm listgreinum;  dansi, sjónlist, leiklist, sirkus og tónlist. Verksmiðjan á Hjalteyri verður miðpunktur sjónlistaverkefnisins 20.-22. júlí 2014 hér nyrðra, undir stjórn Örnu Valsdóttur, brautarstjóra listnámsbrautar VMA, en hópurinn kemur til með að hafa vinnuaðstöðu í VMA.

Nordic light 2014 er umfangsmesta menningarhátið fyrir ungmenni sem haldin hefur verið á Norðurlöndum og langstærsta menningarverkefni fyrir ungt fólk sem Norræni Menningarsjóðurinn og þar með Norræna ráðherranefndin hafa staðið að. Hátíðin verður "The Nordic Cultural Event of the Year" fyrir 2014.

Utanum þetta verkefni halda öðrum fremur Tero Sarkkinen, leikstjóri frá Finnlandi, Kristiina Isaksson, menningarframleiðandi frá sama landi og Vilborg Einarsdóttir og Hlín Jóhannesdóttir frá Íslandi.

Nordic light 2014 er "traveling festival" sem hefst  20. júlí 2014 og lýkur 4. ágúst 2014. 75 ungmenni á aldrinum 14 - 17 frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Álandseyjum, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi verða valin úr rafrænum umsóknum á vef hátíðarinnar og skipt í 5 listhópa, leiklist, dans, sirkus, myndlist og tónlist. Hver hópur ferðast svo með sínum aðallistamanni og svo sínum fararstjóra og þann 20. júlí 2014 hefst hátíðin með vinnustofum í fimm löndum.   Í hverri vinnustofu eru einnig 2-3 þarlendir listamenn sem vinna með hópnum og á hverjum stað er 15 ungum skapandi heimamönnum boðið að taka þátt í þeirri vinnustofu. 

Allir listamennirnir eru "alvöru", starfandi og vel þekktir einstaklingar frá Norðurlöndunum.  Sem dæmi um ferlið má nefna tónlistarhópinn sem er stýrt af norska fiðlusnillingnum Andreasi Ljones. 

Sem fyrr segir verða 15 þátttakendur í hverjum hópi og í það heila verða þeir því samtals 75. Síðan verður öðrum 15 áhugasömum einstaklingum á viðkomandi svæði boðið að taka þátt í því starfi sem fram fer í viðkomandi smiðju. Þannig verður 15 áhugasömum ungmennum boðið að taka þátt í sjónlistaverkefninu á Akureyri, en þau fara hins vegar ekki áfram til Álandseyja, Eistlands og Finnlands.   

Opnað verður fyrir umsóknir um þátttöku í hátíðinni 1. ágúst nk. og er umsóknarfrestur til 20. október. Það verður síðan opinberað 20. janúar 2014 hvaða 75 ungmenni frá Norðurlöndunum – Ísland þar að sjálfsögðu meðtalið – hafa dottið í lukkupottinn og öðlast þátttöku í einhverjum af framangreindum listasmiðjum.

Vilborg Einarsdóttir, einn skipuleggjenda, segir að ekki einungis sé verið að leita að skemmtilegum krökkum, „heldur í fullri alvöru að reyna að ná til sem flestra alvöru skapandi ungmenna hvort sem þau eiga að baki langt listnám eða ekki, því þetta er einstakt tækifæri fyrir alvöru „talenta“ til að vinna saman, læra af sumum fremstu norrænu listamönnunum, búa sér til tengslanet fyrir framtíðina og öðlast skilning á hvað það þýðir að starfa sem listamaður - því að á endanum er jú takmarkið að í þessum stóra hóp sé að finna framtíðarlistamenn Norðurlanda.“

Hér er um gríðarlega stóra og athyglisverða menningarhátíð ungmenna að ræða og á hún sér langan aðdraganda. Norræni Menningarsjóðurinn tilkynnti fyrir þremur árum að veita stórum styrk eða 3 milljónum danskra króna – röskum 60 milljónum ísl. króna – barna- og ungmenningar fyrir 2013-2014 og er Nordic light 2014 afrakstur þess verkefnis.

Maria Tsakiris, ráðgjafi hjá Norræna Menningarsjóðnum, segir að ákvörðun sjóðsstjórnar um styrk til þessa verkefnis byggist á þremur meginþáttum.
 „Í fyrsta lagi eru málefni barna og ungmenna í forgangi við alla ákvarðanatöku hjá sjóðnum, eins og gerist hjá öllum stofnunum sem falla undir hatt Norrænuráðherranefndarinnar.  Því lá beinast við að styrkurinn endurspeglaði þá stefnu. Í öðru lagi var þetta spurning um lýðræðislega þátttöku. Það er, að veita styrknum til verkefnis sem gæfi ungu fólki kost á að skapa sjálft sína menningu í stað þess að styrkja verkefni þar sem fullorðnir sköpuðu menningu til að sýna ungu fólki. Í þriðja lagi var þetta svo spurning um framtíðarsýn og það að nota styrkinn í menningarviðburð þar sem ungt skapandi fólk á Norðurlöndunum kynntist öðru ungu og skapandi fólki á Norðurlöndunum,” segir Maria.

Leitað er til fjölmargra aðila um stuðning við verkefnið, til viðbótar við styrk Norræna Menningarsjóðsins, en sá styrkur stendur undir rúmlega 60% kostnaðaráætlunar hátíðarinnar - en þáttakan er unga fólkinu algjörlega að kostnaðarlausu. Sveitarfélögin styðja verkefnið með margvíslegum hætti . Þá er hátíðin í samstarfi  við flugfélög, margmiðlunarfyrirtæki, banka í öllum löndunum og ýmsa fleiri aðila. 

Frá Akureyri fer sjónlistahópurinn, þ.e. einstaklingarnir fimmtán sem koma allsstaðar að af Norðurlöndum, til Mariehamn á Álandseyjum og þaðan til Pärnu í Eistlandi áður og loks fer hópurinn á lokaáfangastaðinn í Joensuu í Finnlandi þann 29. júlí 2014, þar sem allar listgreinarnar sameinast á lokahátíðinni.

Danshópurinn byrjar í 3ja daga þjóðdansavinnustofu í Þórshöfn í Færeyjum og heldur svo til Kaupmannahafnar þar sem hópurinn tekur þátt í 2ja daga Street-Dance vinnustofu. Þaðan liggur leiðin til Bergen í Noregi í 2ja daga vinnustofu í nútímadansi. Að henni lokinni fer danshópurinn til Joensuu í Finlandi.

Tónlistarhópurinn fer fyrst í vinnustofu til Ilulissat á vesturströnd Grænlands. Þar verður unnið með grænlenskum tónlistamönnum út frá Inúita-trommunni. Þá kemur tónlistarhópurinn til Reykjavíkur í 2ja daga raftónlistar-vinnustofu með íslenskum tónlistarmönnum. Því næst er farið til Utsjoka nyrst finnska Lapplandi í 2ja daga vinnustofa með samískum joik tónlistarmönnum. Svo fer tónlistarhópurinn til Joensuu.

Sirkushópurinn byrjar í 3ja daga vinnustofu hjá Circus Arcus í Hvidovre í Danmörku. Þaðan er farið í 2ja daga vinnustofu hjá Circus Circör í Botkyrka í Svíþjóð og loks í síðustu 2ja daga vinnustofuna hjá Helsinki Sirkusnum. Eftir það liggur leiðin til Joensuu.

Leiklistarhópurinn, sem er undir stjórn Maríu Ellingsen, leikkonu og leikstjóra, er með sína fyrstu vinnustofu í Longyearbyen á Svalbarða í 3 daga. Hópurinn fer svo til Tromsö í Noregi í 2ja daga vinnustofu í samstarfi við Kulta ungmennaleikhúsið og loks liggur leiðin til Pajala í Svíþjóð þar sem 2ja daga vinnustofa verður haldin í samstarfi við Tornedalsteatret. Frá Pajala fer leiklistarhópurinn til Joensuu.

Sjónlistahópurinn er með sína fyrstu vinnustofu á Akureyri og nágrenni. Hún verður í 3 daga en þvínæst ferðast hópurinn til Mariahamn á Álandseyjum í 2ja daga vinnustofu. Frá Álandseyjum tekur sjónlistahópurinn litla lykkju út fyrir Norðurlöndin og fer í 2ja daga vinnustofu í Parnö í Eistlandi. Þaðan liggur leið hópsins til Joensuu.

Í öllum vinnustofum listhópanna fimm verða, auk þeirra 15 sem tilheyra hverjum listahóp, jafnmargir þáttakendur frá hverjum og einum stað. Til dæmis mun 15 íslenskum ungmennum standa til boða að taka þátt í raftónlistarvinnustofunni í Reykjavík. Í Joensuu verður svo 100 ungmennum boðið að taka þátt í lokavinnustofunni og vinna með öllum 75 þáttakendunum úr listahópunum að lokasýningu hátíðarinnar. Með þessu fyrirkomulagi er Norræna ljósið 2014 ekki aðeins einstakt tækifæri fyrir þau 75 ungmenni sem veljast í listahópana, heldur ekki síður fyrir hin 325 ungmennin sem taka þátt í vinnustofum í sínum heimabæjum og borgum.

Arna Valsdóttir, brautarstjóri listnámsbrautar VMA og aðalleiðbeinandi sjónlistavinnustofunnar á Akureyri í Nordisk lys, segir að hér sé um afar skemmtilegt og krefjandi verkefni að ræða sem hún hlakki mikið til að takast á við. Arna segir að Verksmiðjan á Hjalteyri verði miðpunktur verkefnisins hér, inn í hana verði verði m.a. unnið með ljós og hljóð með mörgum ólíkum miðlum. VMA láti síðan hópnum í té vinnuaðstöðu þá daga sem vinnustofan verði í júlí á næsta ári.

Hátíðin verður varðveitt í máli og myndum meðan á henni stendur og núna er verið að setja saman sérstakan fjölmiðlahóp 10 ungmenna í kringum tvítugt sem munu starfa undir stjórn Vilborgar og Hlínar á undirbúningstímanum og meðan á hátíðinni stendur, skipta sér niður á listhópana og uppfæra í myndum og máli það sem er að gerast daglega hjá hverjum hópi, ákveðnum viðburðum verður streymt beint á netið, s.s lokahátíðinni sem verður mikið sjónarspil. En hverjum listhópi fylgja líka töku- og hljóðmaður á ferðalaginu og á endanum verður unnin heimildamynd um hátíðina til sýninga á norrænu ríkisstöðvunum. 

Allar nánari upplýsingar um Nordic light 2014 er að finna hér

oskarthor@vma.is