Fara í efni

VMA með kynningardag fyrir 10. bekkinga 8. október

Viðskiptabrautarnemar tilbúnir í kynninguna.
Viðskiptabrautarnemar tilbúnir í kynninguna.

Kynningardagur fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla verður haldinn í VMA miðvikudaginn 8. október nk. kl. 08:30 til 13:15. Gert er ráð fyrir að um 400 grunnskólanemar frá Akureyri og upptökusvæði VMA sæki skólann heim þennan dag og kynni sér hvað hann hafi upp á að bjóða.

Kynningardagurinn í fyrra tókst með miklum ágætum og er gert ráð fyrir að fyrirkomulag kynningardagsins í ár verði með líku sniði. Í miðrými skólans munu brautir og deildir setja upp bása og kynna grunnskólanemum nám sitt en síðan hafa nemendur frjálsan hálfan annan tíma til þess að ganga um skólann og kynna sér það sem þeir hafa áhuga á. Heimsókn hvers skóla mun taka einn og hálfan til tvo tíma. Kynninguna annast í sameiningu nemendur og kennarar í VMA og verða þeir fúsir að veita allar upplýsingar.

Grunnskólanemendur fá afhent Vegabréf VMA þar sem verður kort af skólanum og einnig verður stimpilleikur þar sem þeir geta fengið stimpla í þeim deildum sem þeir heimsækja og geta svo skilað vegabréfinu í kassa sem dregið verður úr. Einnig fá nemendur að gjöf USB-lykla á hálsbandi merktu VMA og á honum verða upplýsingar um brautir og deildir skólans.

Í tengslum við kynningardaginn verður Þórduna – nemendafélag VMA – með kynningu á félagslífinu í skólanum og þeirri fjölþættu klúbbastarfsemi sem þar er.

Nemendur og kennarar hinna ýmsu deilda skólans hafa að undanförnu unnið að því að undirbúa kynningardaginn. Það á til dæmis við um nemendur viðskipta- og hagfræðibrautar sem munu taka á móti grunnskólanemum með skemmtilegum leikjum, vinningum, bæklingum og glæsilegum bás. Meðfylgjandi mynd er einmitt af nemendum á viðskipta- og hagfræðibraut albúnum að taka á móti grunnskólanemum og fræða þá um námsbrautina þeirra og almennt um VMA.

Nemendur og kennarar VMA bjóða grunnskólanema og kennara þeirra hjartanlega velkomna á kynningardaginn 8. október nk.!