Fara í efni

VMA mætir Verzlunarskólanum í Gettu betur í kvöld

Enn eitt árið hefur hinni sívinsælu spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, verið ýtt úr vör. VMA hefur ekki tekið þátt í keppninni síðustu tvö ár en  mætir nú aftur til leiks. VMA-ingar mæta liði Verzlunarskóla Íslands á Rás 2 kl. 19:30 í kvöld, miðvikudag. Lið VMA skipa Anna Kristjana Helgadóttir, Ingimar Atli Knútsson og Friðrik Páll Haraldsson. Tumi Snær Sigurðsson og Hera Jóhanna eru varamenn. Þjálfari liðsins er Urður María Sigurðardóttir, kennari á starfsbraut og gamalreyndur keppandi í Gettu betur. Skemmtileg tilviljun, því síðasti þjálfari Gettu betur liðs VMA heitir einnig Urður - Urður Snædal.

Að þessu sinni taka 28 framhaldsskólar þátt í Gettu betur og eru því fjórtán viðureignir í fyrstu umferð keppninnar. Fyrri tvö kvöld fyrstu umferðar voru í fyrrakvöld og gærkvöld og í kvöld verða fjórar síðustu viðureignir fyrstu umferðar.

Spurningahöfundar og dómarar í Gettu betur í ár eru Ingileif Friðriksdóttir og Vilhelm Anton Jónsson auk Sævars Helga Bragasonar sem er þeim til aðstoðar. Spyrill er Kristjana Arnarsdóttir en umsjón með keppninn hefur Elín Sveinsdóttir.

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er handhafi Hljóðnemans eftir sigur á Kvennaskólanum í Reykjavík í úrslitunum 2018.