Fara í efni

VMA í úrslitakeppni Boxins: Þetta verður bara gaman!

Keppnislið VMA sem tekur þátt í úrslitum Boxins.
Keppnislið VMA sem tekur þátt í úrslitum Boxins.

„Ég myndi vilja kalla þetta hug- og verkvitskeppni,“ segir Haukur Smári Gíslason, nemandi á viðskipta- og hagfræðibraut og einn fimmmenninganna sem skipa sveit VMA í úrslitakeppni Boxins – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna sem verður haldin í Háskólanum í Reykjavík á morgun, laugardaginn 8. nóvember, kl. 10 til 16:30.

Tutt­ugu og sex lið tóku þátt í for­keppni fyrir þessa úrslitakeppni, þar af þrjú lið í VMA, og komust átta þeirra í úrslitakeppnina á laugardaginn.

Auk Hauks Smára, sem áður er getið, eru í liði VMA þau Stefán Jón Pétursson vélstjórnarbraut, Ásgeir Sigurðsson vélstjórnarbraut, Steinþór Baldursson listnámsbraut og Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir náttúrfræðibraut.

Haukur Smári segir mjög gott og í raun nauðsynlegt að liðið samanstandi af nemendum sem komi úr öllum áttum og hafi ólíkan bakgrunn. „Ég held að það sé okkar styrkur að koma úr öllum áttum,“ segir Haukur Smári.

Auk VMA eru í úrslitum í Boxinu í ár Mennta­skól­inn á Ak­ur­eyri, Mennta­skól­inn í Reykja­vík, Fram­halds­skól­inn í Vest­manna­eyj­um, Flens­borg­ar­skóli, Kvenna­skól­inn í Reykja­vík, Mennta­skól­inn við Sund og Fjöl­brauta­skóli Suður­lands.

Boxið er nú haldið í fjórða sinn og að því standa Sam­tök iðnaðar­ins, Há­skól­inn í Reykja­vík og Sam­band ís­lenskra fram­halds­skóla­nema. Mark­mið með keppn­inni er að kynna og vekja áhuga á tækni, verk- og tækni­námi og störf­um í iðnaði.

Liðin fara í gegn­um þrauta­braut og fá hálf­tíma til að leysa hverja þraut. Kepp­end­ur þurfa að geta unnið hratt og vel að sam­eig­in­legu mark­miði og sýna fram á hug- og verkvit auk þess sem liðsheild skipt­ir miklu máli. Við mat á lausn­um ræður meðal ann­ars tími, gæði lausn­ar og frum­leiki.

Haukur Smári Gíslason segir að keppnislið VMA hyggist hafa það að leiðarljósi að flýta sér hægt. Mikilvægt sé að halda ró sinni og gera hlutina yfirvegað. „Auðvitað erum við spennt en þó svo róleg. Þetta verður bara gaman,“ segir Haukur Smári.