Fara í efni

VMA í samstarfsverkefni með skólum í Harderwijk og Randers

Fulltrúar skólanna fyrir utan VMA.
Fulltrúar skólanna fyrir utan VMA.

Í liðinni viku var í VMA fyrsti undirbúningsfundur að evrópsku samstarfsverkefni – Erasmus+ - sem VMA tekur þátt í með Morgen College í Harderwijk í Hollandi og SOSU – Randers Social- og Sunhedsskole í Danmörku. Í þessu nýja samstarfsverkefni, sem ber yfirskriftina Ready for the World, fara nemendahópar frá skólunum milli landanna til þess að fræðast og kynna sér siði og áherslur í þátttökulöndunum.

Undirbúningsfundinn í VMA sátu fyrir hönd skólans kennararnir Jóhannes Árnason, Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir og Valgerður Dögg Jónsdóttir. Hrafnhildur segir að þessu verkefni hafi upphaflega átt að ýta úr vör fyrr en covid heimsfaraldurinn hafi komið í veg fyrir það. En nú séu allir klárir til þess að koma því af stað, innan allra þeirra sóttvarnareglna og takmarkana sem í gildi séu í þessum þremur þátttökulöndum.

Hrafnhildur segir að verkefnið lúti m.a. að því að nemendur í skólunum skoði sín samfélög út frá því hvernig þau leggi fólki lið á ýmsan hátt. Hér á landi liggi fyrir að áherslan verði m.a. á að kynna fyrir gestunum frá Hollandi og Danmörku hvernig björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar bregðist við ef eitthvað beri út af vegna m.a. náttúruhamfara eða slysa.

Í nóvember nk. er ætlunin að nemendur frá VMA og Morgen College í Harderwijk fari til Randers í Danmörku. Í mars á næsta ári eru ráðgerðir endurfundir í Herderwijk í Hollandi og loks er ætlunin að nemendur frá Hollandi og Danmörku komi til Akureyrar að ári liðnu, í september 2022. Hrafnhildur segir að á næstu vikum verði valdir VMA-nemendur til Danmerkurfararinnar og þeirra bíði markviss undirbúningur fyrir hana.