Fara í efni

VMA í rannsóknaverkefni um starfshætti í framhaldsskólum

Verkmenntaskólinn á Akureyri er einn af níu framhaldsskólum sem lentu í úrtaki fyrir viðamikla rannsókn Rannsóknastofu um þróun skólastarfs á starfsháttum í framhaldsskólum. Rannsóknin er unnin af rannsakendum sem starfa á Menntavísindasviði HÍ og nemendum þeirra. Sem liður í rannsókninni voru rannsakendur í vettvangsheimsókn í VMA í gær, fimmtudag, þar sem m.a. var rætt við nemendur sem voru valdir af handahófi og nokkra kennara.

Verkmenntaskólinn á Akureyri er einn af níu framhaldsskólum sem lentu í úrtaki fyrir viðamikla rannsókn Rannsóknastofu um þróun skólastarfs á starfsháttum í framhaldsskólum.  Rannsóknin er unnin af rannsakendum sem starfa á Menntavísindasviði HÍ og nemendum þeirra. Sem liður í rannsókninni voru rannsakendur í  vettvangsheimsókn í VMA í gær, fimmtudag, þar sem m.a. var rætt við nemendur sem voru valdir af handahófi og nokkra kennara.  

Rannsóknastofnun um þróun skólastarfs segir að markmið rannsóknarinnar sé að varpa ljósi á starfshætti í framhaldsskólum og það sem mótar þá – með áherslu á skipulag skóla og skólastarfs, viðhorf nemenda, kennara og stjórnenda til skólastarfsins, námsumhverfi, nám og kennslu og skuldbindingu nemenda.

Líkan af þróun starfshátta í framhaldsskólum er lagt til grundvallar í rannsókninni en það hvílir á fimm stoðum sem skarast innbyrðis:

1. Skipulag og þróun framhaldsskóla og menntakerfis.
2. Viðhorf til náms og kennslu.
3. Námsumhverfi innan skólastofunnar og í skólanum almennt.
4. Nám og kennsla: kennsluhættir og námsaðferðir.
5. Skuldbinding nemenda: námsferill gegnum framhaldsskóla, skuldbinding  til námsins og frumkvæði nemenda.

Að rannsóknarverkefninu stendur hópur fræðimanna úr mismunandi greinum menntavísinda af Menntavísinda- og félagsvísindasviðum Háskóla Íslands. Stjórn verkefnisins skipa þau Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor, formaður stjórnar, Gerður G. Óskarsdóttir, verkefnisstjóri, Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor, Jón Torfi Jónasson, prófessor, og Kristjana Stella Blöndal, lektor. Aðrir rannsakendur eru Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor, og Elsa Eiríksdóttir, lektor. Hópur meistara- og doktorsnema tekur einnig þátt í rannsókninni sem hluta af meistara- eða doktorsverkefnum sínum.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Norrænt öndvegissetur í menntarannsóknum (Justice through Education in the Nordic Countries - Menntun til réttlætis á Norðurlöndunum) sem starfar til 2018 með fjárstyrk frá norrænu ráðherranefndinni. Það er staðsett við Helsinkiháskóla og að því starfa rannsakendur frá Norðurlöndunum fimm og fleiri löndum. Meginmarkmiðið er að kanna stöðu réttlætis og hugmynda um það á Norðurlöndum á dögum hnattvæðingar 21. aldar.