Fara í efni

VMA í Gettu betur í kvöld: Ætlum að gera okkar langbesta

Stefán, Baldur, Hólmfríður Sölvi og Urður.
Stefán, Baldur, Hólmfríður Sölvi og Urður.

Lið VMA í Gettu betur – spurningakeppni framhaldsskólanna mætir í kvöld í fyrstu umferð liði Verzlunarskóla Íslands á Rás 2. Útsending hefst í kvöld kl. 19.20 og verður viðureign VMA og Versló sú þriðja af fjórum viðureignum kvöldsins.  Útsendingu lýkur kl. 21:00 og því er nokkuð ljóst að keppni VMA og Versló verði einhvern tímann milli kl. 20 og 21.

Þriggja manna keppnislið VMA skipa Baldur Sverrisson, Stefán Jón Pétursson og Hólmfríður María Þorsteinsdóttir og varamaður er Sölvi Fannar Sigmarsson. Urður Snædal hefur þjálfað krakkana að undanförnu sem hún segir að hafi ekki síst falist í að æfa hraðaspurningarnar.

Gera má ráð fyrir afar sterku liði Verzlunarskóla Íslands enda hefur hann átt glæsta sögu í keppninni  í gegnum tíðina. Urður Snædal segir að því sé ekki að neita að í fyrstu umferð hafi Versló ekki verið óska andstæðingur en það þýði ekkert að velta sér upp úr því. „En við erum með þrælklára krakka í okkar liði sem ég trúi að eigi eftir að standa sig vel,“ segir Urður.

„Við ætlum fyrst og fremst að gera okkar langbesta. Við sjáum svo hversu langt það skilar okkur,“ segir Mývetningurinn Stefán Jón Pétursson, sem stundar nám í bæði vélstjórn og rafvirkjun í VMA.  „Við fáum hálfa aðra mínútu í hraðaspurningar og síðan verða tólf bjölluspurningar. Við höfum fyrst og fremst undirbúið okkur fyrir hraðaspurningarnar því reynslan sýnir að lið eiga möguleika ef þau koma vel út úr þeim. Vissulega er þetta nokkuð stressandi en það skiptir miklu máli að náum að halda ró okkar,“ segir Stefán og bætir við að hvernig sem keppnin í kvöld komi til með að fara vilji VMA-liðið í ár endurvekja áhuga á Gettu betur en á síðasta ári tók skólinn ekki þátt í keppninni og 2013 reið hann ekki feitum hesti frá keppninni.

Sem fyrr segir verður viðureign VMA og Versló þriðja af fjórum viðureignum í kvöld . Fyrst mætast  Fjölbrautaskólinn í Garðabæ og Landbúnaðarháskóli Íslands, síðan Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Menntaskólinn á Egilsstöðum, þá Verzlunarskóli Íslands og VMA og loks  Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn í Kópavogi.