Fara í efni

VMA í Gettu betur í kvöld

Fulltrúar VMA mæta í kvöld til leiks í Gettu betur - spurningakeppni framhaldsskólanna og mæta liði Borgarholtsskóla í Reykjavík. Viðureign liðanna hefst á Rás 2 kl. 20.30. Í liði VMA eru Húsvíkingurinn Lilja Björk Jónsdóttir og Húnvetningarnir Elísabet Kristín Kristmundsdóttir og Stefán Logi Grímsson. Þær Lilja Björk og Elísabet Kristín hafa ekki keppt áður í Gettu betur, en Stefán Logi var í liði VMA í fyrra.

"Ég get ekki neitað því að þetta er svolítið stressandi, en við ætlum bara að hafa gaman af þessu og við gerum okkar besta. Markmiðið er í það minnsta að gera betur en í fyrra," segir Elísabet Kristín.

"Mér líst bara mjög vel á þetta og hlakka til að takast á við þetta verkefni. Við hittumst í gær og stilltum aðeins saman strengi, hlustuðum á upptöku af einni af viðureigninni sem þegar er búin til þess að reyna að átta okkur svolítið á spurningunum. Síðan fórum við í gegnum slatta af gömlum spurningum og skiptum með okkur verkum. Í minn hlut komu bókmenntir og náttúrufræði. Þetta verður bara gaman," segir Lilja Björk, sem er á fyrsta ári í VMA, en félagar hennar í liðinu eru komin lengra í náminu.

Sem fyrr segir hefst viðureign VMA og Borgarholtsskóla á Rás 2 í kvöld kl. 20.30 - er síðasta viðureign kvöldsins.