Fara í efni

VMA í Erasmus samstarfsverkefni með skóla í Suður-Frakklandi

Samningur um verkefnið handsalaður hjá Rannís.
Samningur um verkefnið handsalaður hjá Rannís.

Frá og með 1. september sl. er VMA þátttakandi í evrópsku samstarfsverkefni með skóla í Suður-Frakklandi. Verkefnið er til tveggja ára og hefur á ensku yfirskriftina Rotten Shark and Aioli: Sharing Culinary Culture to Erase Differences. Verkefnið lýtur að matarmenningu hér á landi og í Frakklandi og mun matvælabraut VMA taka þátt í verkefninu. Nemendur í VMA koma til með kynnast franskri matarmenningu og -hefðum og öfugt. Nemendahópur frá VMA fer til Frakklands á vorönn og að sama skapi mun hópur nemenda frá Frakklandi sækja VMA heim. Nemendaheimsóknum í verkefninu lýkur á þessu skólaári en á næsta skólaári verða dregnar saman niðurstöður verkefnisins og metin reynsla af því.

Verkefnið nýtur styrkja úr svokallaðri Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins (1 FR01-KA229-062996_2) og er það í flokki Erasmus Plus KA229 verkefna School Exchange Parterships.

Þann 4. september sl. var gengið frá samningi um verkefnið hjá Rannís í Reykjavík sem hefur umsjón með Erasmus+ styrkjaúthlutun hér á landi. Í gegnum Rannís fær VMA fjármuni til þess að fjármagna verkefnið. Að sama skapi fær samstarfsskóli VMA í verkefninu í Suður-Frakklandi fjármuni frá landsskrifstofu Erasmus+ í Frakklandi.

VMA hefur ríka reynslu af þátttöku í slíkum evrópskum samstarfsverkefnum sem eru styrkt af Erasmus. Nægir þar að nefna verkefnið Innoavative VET devices in rural areas eða Dreifbýli og verklegt nám sem VMA hefur tekið þátt í undanfarin ár. Hér má sjá yfirlit yfir verkefni sem VMA hefur verið að vinna að eða tekur nú þátt í.

Á meðfylgjandi mynd tekur Jóhannes Árnason við samningnum um þetta nýjasta verkefni sem VMA tekur þátt í úr hendi Ágústs Hjartar Ingþórssonar, sviðsstjóra mennta- og menningarsviðs Rannís. Með þeim á myndinni er Jón Svanur Jóhannsson, verkefnisstjóri skólahluta Erasmus+ hjá Rannís. Á hinni myndinni eru fulltrúar allra verkefna sem fengu við sama tækifæri Erasmus styrki til fjölbreyttra verkefna.