Fara í efni

Með tónlistar- og leiklistarbakteríu

Örn Smári Jónsson.
Örn Smári Jónsson.

Þegar Örn Smári Jónsson hóf nám í VMA haustið 2015 segist hann hafa verið mjög óviss um hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór. Hann hóf nám í grunndeild rafiðna en fann eftir nokkra mánuði ekki þann neista sem hann taldi þurfa til þess að halda áfram á þeirri braut. Fór þá á félagsfræðibraut og síðan í grunndeild matvælagreina og loks á textílsvið listnáms- og hönnunarbrautar. En að lokum fann Örn Smári sína réttu hillu og er núna á fjölgreinabraut þar sem hann stundar nám til stúdentsprófs, með áherslu á listnám og sálfræði. Stefnan er tekin á brautskráningu við lok haustannar 2020.

„Ég vissi ekkert hvað mig langaði að gera þegar ég kom úr Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu í VMA haustið 2015. Ég hafði á þeim tíma áhuga á tölvum og hafði ánægju af því að gera við þær. Þess vegna hélt ég að rafvirkinn væri fyrir mig. Ég hafði frá unga aldri haft gaman að því að skapa tónlist og líklega samdi ég mitt fyrsta lag í kringum tíu ára aldurinn. Tónlistin hefur aldrei farið frá mér og ég fann smám saman að skapandi nám hentaði mér best. Mig minnir ég hafi byrjað að syngja á fyrstu árunum í Húnavallaskóla og þar var ég í sönghóp sem við kölluðum Tenórarnir þrír. Við tróðum upp nokkrum sinnum sem var mjög gaman. En svo fór ég í mútur og þar með fór mín hreina og barnslega rödd út í buskann og við tenórarnir hættum að syngja saman. Á árum mínum í Húnavallaskóla byrjaði ég síðan að spila á gítar og var í líklega hálft ár í tónlistarnámi en svo nennti ég ekki frekara tónlistarnámi og vildi frekar læra þetta sjálfur. Ég hef síðustu árin lært sjálfur það sem ég kann á gítar og hef einnig verið að glamra svolítið á píanó. Tónlistin var alltaf til staðar en það er ekki fyrr en fyrir tveimur til þremur árum sem ég finn að tónlistin er eitthvað sem ég vil leggja meiri áherslu á og starfa við í framtíðinni," segir Örn Smári sem hefur frá árinu 2018 sent frá sér átta lög undir listamannsnafninu DayDream. Hann semur lög og texta á gítar og píanó og færir þau síðan inn í tölvu og vinnur áfram. Sjö af þessum átta lögum eru með enskum textum en eitt með íslenskum texta. Sem stendur vinnur Örn Smári að því að semja lög sem öll verða með íslenskum textum og hefur hann hug á því að koma fimm til sjö lögum út á smáskífu.

En hvernig skyldu lög Arnar Smára verða til? Því svarar hann á þann veg að þau verði til út frá einhverrri persónulegri reynslu eða sögum sem hann heyri. Lögin verði yfirleitt til fyrst en síðan semji hann textana. „Það er erfitt að skilgreina lögin mín. Þau eru allskonar en ég hugsa að meginlínan í tónistinni minni sé einfaldlega popp,“ segir Örn Smári sem hefur tekið þátt í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA, hann lenti í öðru sæti í keppninni í síðustu viku og söng af mikilli innlifun og frá hjartanu.

Foreldrar Arnar Smára eru bændur á Búrfelli í Austur-Húnavatnssýslu. Systkini hans voru bæði í VMA á sínum tíma, Þröstur Gísli er útskrifaður smiður og Ugla Stefanía, sem hefur verið í framvarðasveit transfólks hér á landi og erlendis – og var á lista BBC á síðasta ári yfir hundrað áhrifamestu konur heims – var til hliðar við nám sitt í VMA ötul í félagslífinu í skólanum, m.a. í stjórn Þórdunu og Leikfélagi VMA.

Sem fyrr er Örn Smári með mörg járn í eldinum. Auk námsins í VMA er hann á fullu í tónlistinni og sömuleiðis leiklistinni. Leiklistarbakterían hefur ekki látið hann í friði síðan hann lék í uppfærslu Leikfélags VMA á Ávaxtakörfunni og sama ár lék hann í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Kabarett. Áfram heldur Örn Smári á leiklistarbrautinni og leikur nú í uppfærslu Leikfélags VMA á Tröllum, sem verður frumsýnd í Hofi í febrúar. Núna eru stífar æfingar og svo verður fram að frumsýningu í Hofi 16. febrúar.

„Ég hafði aldrei áhuga á leiklist en Freysteinn vinur minn dró mig í prufur fyrir Ávaxtakörfuna og ég hugsaði með mér að þeim loknum að það væri nú engin hætta á því að ég fengi hlutverk. En síðan fékk ég símtal þess efnis að mér hefði verið úthlutað hlutverki Guffa banana, sem var stórt fyrir mig sem hafði aldrei leikið á sviði. Þar með var teningnum kastað og ég fékk bakteríuna. Þau tækifæri sem ég hef fengið í þessum skóla hafa tvímælalaust mótað mig og beint mér inn á þær brautir sem ég ætla að feta í framtíðinni og fyrir það er ég þakklátur. Fjölbreytnin hér er mikil og hún hefur hentað mér vel,“ segir Örn Smári.

Um framtíðina, að loknu námi í VMA, segir Örn Smári að sé nokkuð ljóst að hann muni leggja áherslu á tónlist og leiklist. Hann segist hafa áhuga á því að læra m.a. tónfræði og á gítar og fara jafnframt í söngnám. En leiklistin togi hann líka til sín, á hvaða hátt svo sem það kunni að verða í framtíðinni. Hún ein muni skera úr um það.