Fara í efni

VMA fær góða gjöf frá Bílgreinasambandinu

Gjöfin afhent. Bragi, Steingrímur og Hjalti Jón.
Gjöfin afhent. Bragi, Steingrímur og Hjalti Jón.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds ehf., á Akureyri sótti VMA heim í gær og færði fyrir hönd Bílgreinasambandsins námi í bifvélavirkjun í skólanum 500 þúsund krónur að gjöf en Steingrímur situr í stjórn þess. Hjalti Jón Sveinsson skólameistari og Bragi Finnbogason, brautarstjóri bíliðngreina í VMA, veittu gjöfinni viðtöku.

Bragi og Hjalti Jón vilja koma á framfæri kærum þökkum til Bílgreinasambandsins fyrir þann hlýhug og stuðning sem það sýni skólanum með þessari góðu gjöf. Peningarnir muni nýtast afar vel til kaupa á nauðsynlegum búnaði fyrir kennslu í bifvélavirkjun en eins og margoft hafi komið fram hafi þröngur fjárhagur undanfarin ár gert það að verkum að kaup á tækjabúnaði, ekki síst í verknámi, hafi lent neðarlega á listanum.

Kennsla í bifvélavirkjun var lengi að stórum hluta í húsnæði utan skólans en frá og með síðasta hausti færðist öll kennslan undir þak VMA. Bragi segir að á þessari önn stundi 22 nemendur nám í bifvélavirkjun í skólanum en hann er einn þriggja skóla í landinu þar sem bifvélavirkjun er kennd. Hinir eru Borgarholtsskóli í Reykjavík og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Til þess að geta innritast í nám í bifvélavirkjun í VMA þurfa nemendur fyrst að taka tvær annir í grunndeild málmiðnaðar. Bragi segir vonir við það bundnar að áður en langt um líður verði unnt að bjóða upp á viðbótarnám í réttingu og sprautun. Það nám yrði þá unnið að stórum hluta í samvinnu við verkstæði á Akureyri. Bragi segir það námi í bifvélavirkjun í VMA afar mikils virði að eiga gott samstarf við atvinnulífið og það sé gagnkvæmur ávinningur skólans og atvinnulífsins að námið sé eins gott og yfirgripsmikið og kostur er.

Bílgreinasambandið er samtök atvinnurekenda í sölu ökutækja, vöru og þjónustu þeim tengdum og eru á milli 150 og 160 fyrirtæki innan vébanda sambandsins um allt land; almenn bílaverkstæði, bílasölur, bílaumboð, hjólbarðaverkstæði, málningar- og réttingarverkstæði, ryðvarnarstöðvar, smurstöðvar, varahlutasalar og aðrir þjónustuaðilar í bílgreininni.

Steingrímur Birgisson tekur undir með Braga að það sé afar mikilvægt fyrir m.a. bílaverkstæðin á Akureyri og þar með Bílgreinasambandið að nám í bifvélavirkjun í VMA sé öflugt og búi verðandi bifvélavirkja vel undir að starfa í sínu fagi að loknu námi. Því sé það Bílgreinasambandinu sönn ánægja að styðja með þessari peningagjöf við bakið á bifvélavirkjanáminu í VMA.