Fara í efni

Vinnustaðanám nýjung í hársnyrtiiðn

Nemendur á þriðju önn eru að hefja vinnustaðanám.
Nemendur á þriðju önn eru að hefja vinnustaðanám.

Í dag, fimmtudag, hefst nýr þáttur í námi þriðju annar nemenda í hársnyrtiiðn í VMA sem felst í vinnustaðanámi. Þetta er unnið í samstarfi við hársnyrtistofur á Akureyri og felst í því að hver nemandi fer einu sinni í viku, samtals í tíu skipti, á viðkomandi hársnyrtistofu, fjórar klukkustundir í senn,  og er markmiðið að nemendur kynnist faginu frá öllum hliðum og kynnist vinnubrögðum við raunverulegar starfsaðstæður. Slíkt vinnustaðanám er einnig áætlað á fjórðu og fimmtu önn.

Harpa Birgisdóttir kennari í hársnyrtigreinum segir ánægjulegt að finna hversu vel meistarar á hársnyrtistofunum hafi tekið í þessa nýbreytni í náminu enda segir hún lykilatriðið að samstarf milli skólans og viðkomandi fyrirtækja sé gott. Harpa segir að lengi hafi verið horft til þess að taka upp þennan þátt í náminu og með gerð nýrrar námsskrár hafi þetta verið mögulegt. Tækniskólinn hafi í fyrsta skipti prófað slíkt vinnustaðanám sl. vetur og það hafi gefið góða raun. Reynsla hans muni nýtast vel við skipulagningu og framkvæmd vinnustaðanáms hársnyrtinema í VMA.

„Ég tel að þetta sé mjög jákvætt skref á allan hátt. Það er vert að undirstrika að hér er um að ræða námsáfanga til jafns við aðra námsáfanga sem nemendur taka hér í skólanum og þeir þurfa að sjálfsögðu að standast hann. Að mínu mati ætti vinnustaðanám á þessum tímapunkti að auðvelda nemendum að komast að raun um hvort þeir vilji leggja þetta starf fyrir sig í framtíðinni. Það gæti líka auðveldað áhugasömum nemendum að komast síðar á námssamning. Í lok annarinnar munum við hitta meistarana á stofunum og fara yfir hvernig til hafi tekist. Ég hef fulla trú á að hér sé verið að taka gott skref fram á við í þessu námi,“ segir Harpa Birgisdóttir.