Fara í efni

Vinnustaðanám mikilvægur þáttur á starfs- og sérnámsbrautum

Valdimar Tryggvi Hannesson (t.v.) og Anton Orri Hjaltalín, nemendur á sérnámsbraut VMA, í starfsnámi…
Valdimar Tryggvi Hannesson (t.v.) og Anton Orri Hjaltalín, nemendur á sérnámsbraut VMA, í starfsnámi í Krónunni á Akureyri. Þeir hafa núna á vorönn unnið þar átta mánudaga, tvo tíma í senn.

Vinnustaðanám er mikilægur þáttur í námi nemenda á starfs- og sérnámsbrautum VMA. Nemendur spreyta sig og fá innsýn í mörg og ólík störf, sem er afar gott veganesti þeirra út í lífið. Mörg dæmi eru um að nemendur á þessum brautum fá í framhaldinu starf, til lengri eða skemmri tíma, á einhverjum af þeim vinnustöðum sem þeir hafa heimsótt í vinnustaðanáminu. 

Starfs- og sérnámsbrautir VMA eru fjögurra ára námsbrautir og er vinnustaðanámið í stundatöflum nemenda á þriðja og fjórða ári á báðum brautum.

Á haustönn 2023 voru 12 nemendur á starfsbraut í vinnustaðanámi en 6 núna á vorönn.

Núna á vorönn hafa starfsbrautarnemar starfað í Hagkaup, Frístund Síðuskóla, á Póstinum, Greifanum og í Nettó  Á haustönn 2023 voru starfsbrautarnemar í vinnustaðanámi hjá ÁK-smíði, á Greifanum, Hamborgarafabrikkunni, Sundlaug Akureyrar, Pennanum-Eymundsson, Nettó, Kristjánsbakaríi og Lækjarseli.

Önnur fyrirtæki og stofnanir sem starfsbraut hefur átt gott samstarf við eru m.a. Frumherji, Umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar, Dvalarheimilið Hlíð, Skíðaþjónustan, Bifreiðaverkstæði Bjarnhéðins, Krambúðin, Kötlukot í Árskógarskóla, Bónus, Bókasafn VMA og Lautin - athvarf fyrir fólk með geðraskanir.

Umsjón með vinnustaðanáminu á starfsbraut hafa kennararnir Kristján Bergmann Tómasson og Arnsteinn Ingi Jóhannesson.

Á sérnámsbraut hafa nemendur verið núna á vorönn í Kjarnafæði-Norðlenska, Bónus í Naustahverfi, Krónunni, Pennanum-Eymundsson og  Hagkaup. Á haustönn 2023 voru sérnámsbrautarnemar í vinnustaðanámi á Plastiðjunni Bjargi, Bónus í Naustahverfi, MS, Pennanum-Eymundsson og Hagkaup.

Umsjón með vinnustaðanáminu á sérnámsbraut hafa í vetur haft Inga Dís Árnadóttir kennari, Sigrún Fanney Sigmarsdóttir kennari og Hulda Júlía Ólafsdóttir iðjuþjálfi.

Grunnforsenda vinnustaðanáms eru jákvæð viðbrögð þeirra fyrirtækja og stofnana sem um ræðir. VMA vill  koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra þessara fyrirtækja og stofnana, stjórnenda þeirra og starfsmanna, fyrir sérlega gott samstarf, sem skiptir skólann og nemendur miklu máli.