Fara í efni

Vinnur ötullega að sinni listsköpun

Arna G. Valsdóttir, kennari og myndlistarmaður.
Arna G. Valsdóttir, kennari og myndlistarmaður.

Arna G. Valsdóttir, kennari á listnáms- og hönnunarbraut VMA, nýtir launalaust leyfi sitt í vetur til listsköpunar. Hún fékk níu mánaða starfslaun listamanna sl. vetur til þess að vinna að list sinni og það hefur hún verið að gera frá því í haust og mun halda því áfram til vors. Í þessari viku fór í loftið ný heimasíða Örnu þar sem finna má upptökur af mörgum af vídeóverkum hennar í gegnum tíðina. 

Í fyrra fékk Arna sex mánaða starfslaun listamanna sem hún nýtti til þess að vinna stóra sýningu í Listasafninu á Akureyri og til viðbótar kenndi hún í hlutastarfi í VMA.  En núna einbeitir hún sér algjörlega að listinni, í fyrsta skipti síðan hún hóf að kenna fyrir aldarfjórðungi.

Síðastliðið haust fór Arna til Amsterdam í Hollandi og skapaði þar verk, sem hún kallar „Yes sir I can boekie“  inn í svokallaða bókverkabúð. Sýningin ytra er ennþá í gangi.

Og í síðustu viku opnaði Arna sýningu á verki sínu Staðreynd 8-... Erling á Gullsmíðaverkstæði Erlings Jóhannessonar í Aðalstræti 10 í Reykjavík og verður hægt að sjá verkið næstu vikurnar á opnunartíma gullsmíðaverkstæðisins.  Um verkið segir Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og myndlistarmaður: "Hér gefst áhorfendum kostur á að njóta nýrrar Staðreyndar Örnu Valsdóttur, þeirrar áttundu í röðinni. Þetta eru allt verk sem eiga það sameiginlegt að vera söng-gjörningar gerðir þar sem verkin eru upphaflega sýnd. Nú er staðurinn gullsmíðaverkstæði Erlings Jóhannessonar í Aðalstræti 10. Verkið er í þetta sinnið tvíleikið. Í fyrra skiptið birtist Arna fyrir framan listasmiðinn og leikur sér að smíðisgripum hans fyrir framan kvikmyndavélina. Sú mynd sést á skjánum bak við seinni leikinn, þar sem hendur Örnu birtast stórar fremst í fletinum og leika með sömu munina, á meðan smiðurinn smíðar í bakgrunni, með fyrri útgáfu leiksins sér við hlið. Áhorfandinn horfir á gullsmiðinn þrefaldan, í reynd, og á skjá í skjá, tvöfaldan leik Örnu með munina, og sönginn sem tónar tvisvar við sjálfan sig. Ef áhorfandinn tekur áskoruninni, og handleikur raunverulegu hlutina fremst í rýminu, þá bætir hann sér inn í myndina — það má víst ekki bjóða honum að taka undir sönginn?“

Frá því í haust hefur Arna unnið að ýmsum öðrum verkefnum. Hún segist hafa hafið vinnu sína á listamannalaunum með því að halda vídeólistahátíðina „Heim“ á heimili sínu á Akureyri. Hátíðin var opnuð á Akureyrarvöku í lok ágúst og stóð hún í viku. Arna sýndi vídeóverk sem hún vann á heimili sínu og síðan bauð hún til sín tveimur ungum listamönnum, Freyju Reynisdóttur og Arnari Ómarssyni. „Þau urðu hluti af mínu heimilishaldi í viku og opnuðu svo sýningu á verkum sem þau unnu inn í heimilið. Hátíðin fékk um 150 heimsóknir á þassari viku,“ segir Arna og upplýsir að að lok ágúst á næsta ári hyggist halda þessa hátíð öðru sinni í útvíkkaðri mynd og hafi fleiri heimili lýst áhuga á að fá vídeólistamenn til að sýna verk sín hjá þeim. „Bæði er mögulegt að fá til sín listamenn sem vinna sig inn í heimilið en líka einfaldlega hægt að fá listamenn til að sýna verk sín eina kvöldstund á þeim skjám sem til eru eða með skjávörpum. Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkti þetta verkefni. Ef einhver heimili hafa áhuga á að fá vídeólist heimsenda á meðan á hátíðinni stendur má fólk gjarnan setja sig í samband við mig. Markmið hátíðarinnar er að gera almenningi grein fyrir því að vídeólist á ekki síður heima inni á heimilum en önnur list og það getur sett skemmtilegan svip á heimilislífið að geta varpað lifandi málverki upp á vegg, í loft eða á borðdúkinn þar sem snætt er, eða þá að orginal verk listamanns lifi á sjónvarpsskjánum,“ segir Arna.

Hún segir að Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra hafi einnig lagt lið skemmtilegu verkefni sem hún vann ásamt Kristjáni Pétri Sigurðssyni myndlistar- og tónlistarmanni. Kristján Pétur íslenskaði texta eftir Tom Waits sem sá sami flutti ásamt Betty Midler og heitir á frummálinu I never talk to Strangers. „Á íslensku fékk lagið titilinn Ég tala aldrei við ókunnuga og fluttum við það saman ásamt hljóðfæraleikurunum Valmari Valjots og Wolfgang Frosta Sahr. Elvar Örn Egilsson, sem lauk stúdentsprófi af listnámsbraut VMA og lauk síðan kvikmyndanámi, sá um tökur og tæknimál og voru upptökur á Götubarnum. Við sýndum síðan myndbandið hjá Birgi Sigurðssyni í Gallerí 002 í Hafnarfirði. Þar fluttum við Götubarinn inn í svefnherbergi Birgis en hans skemmtilega gallerí er á heimili hans í Þúfubarði. Verkið sýndum við síðan aftur í Kaktus á Akureyri í byrjun nóvember og höfum í huga að taka upp þráðinn í upphafi næsta árs,“ segir Arna.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur Arna verið að vinna að því að koma upp eigin heimasíðu. Hún segir að hlutirnir hafi farið að ganga þegar hún fékk til liðs við sig Helgu Óskarsdóttur og síðan hafi síðan verið opnuð núna í vikunni. „Þarna er ég búin að setja inn mörg af verkum mínum, sem ég á upptökur af síðan 1986, en ég mun bæta þarna fleiri verkum. Í mínum huga er mikilvægt að hafa þetta á einum stað og gefa fólki þannig kost á að skoða verkin.“

En hvað er framundan hjá Örnu? Hún hefur frá því í haust og mun áfram í vetur vinna að list sinni í Reykjavík, hefur vinnuaðstöðu úti á Granda. Arna segir að ýmsar minni sýningar séu í deiglunni. Til dæmis sé hún að vinna að sýningu í Sal Grafíkfélagsins í Reykjavík. "Sýningarstjóri er Baldvina Sigrún Sverrisdóttir og er sýningin fyrirhuguð í ágúst 2016 og opnar á Menningarnótt. Ég hef í hyggju að syngja mig inn í salinn og vinna vídeó-innsetningu í hann,"segir Arna. Einnig nefnir hún stærri sýningu árið 2017, en vill á þessu stigi ekki upplýsa frekar um hana. Þá segist hún stefna að því að taka þátt í árlegu „vídeófestivali“ í Skotlandi í apríl nk., en þar kemur saman myndlistarfólk sem vinnur með vídeó og kvikmyndir. Þetta segir Arna að hafi komið til í kjölfar þess að listamaðurinn Richard Ashrowan sýndi ásamt fleirum í Verksmiðjunni á Hjalteyri sumarið 2013.

Þó svo að Arna segist sannarlega sakna kennslunnar og samveru með samkennurum og nemendum í VMA njóti hún þess að geta einbeitt sér að sinni listköpun í vetur. „Þetta er mikilvægt fyrir okkur kennara og einnig nemendur því það er beinlínis ætlast til þess að við sem kennum listnám séum jafnframt starfandi listamenn, því með því móti erum við stöðugt að þróa eitthvað nýtt sem við síðan miðlum til okkar nemenda,“ segir Arna G. Valsdóttir.