Fara í efni

Vinna kynningarefni fyrir kynningardaginn

Nýtt lógó viðskipta- og hagfræðibrautar VMA.
Nýtt lógó viðskipta- og hagfræðibrautar VMA.
Ein af þeim deildum sem koma til með að kynna starfsemi sína á kynningardegi og opnu húsi í VMA þann 10. október nk. er viðskipta- og hagfræðibraut skólans. Nemendur í áfanga í markaðsfræði hafa undirbúið kynninguna vel og þeir eru sannfærðir um að kynningarbásinn þeirra eigi eftir að vekja athygli.

Ein af þeim deildum sem koma til með að kynna starfsemi sína á kynningardegi og opnu húsi í VMA þann 10. október nk. er viðskipta- og hagfræðibraut skólans. Nemendur í áfanga í markaðsfræði hafa undirbúið kynninguna vel og þeir eru sannfærðir um að kynningarbásinn þeirra eigi eftir að vekja athygli.

Eins og kom fram hér á heimasíðunni í gær verður mikið um að vera í VMA 10. október nk., fimmtudag í næstu viku, þegar 10. bekkingar frá Akureyri og nærsveitum sækja skólann heim og kynna sér hvaða nám og starf hann hefur upp á að bjóða. Einnig verður opið hús seinnipart dags og þá gefst öllum öðrum tækifæri til þess að kynna sér fjölbreytt starf skólans.

Nemendur á viðskipta- og hagfræðibraut VMA ætla ekki að láta sitt eftir liggja í kynningu á sinni braut. Nemendur í markaðsfræði, sem er áfangi innan viðskipta- og hagfræðibrautar, tóku að sér í  upphafi annar að vinna að víðtæku markaðsverkefni. Ákveðið var að þeir ynnu kynningar- og markaðsefni fyrir deildina sjálfa með það fyrir augum að nýta það á kynningardaginn í næstu viku. Meðal annars var búinn til kynningarbæklingur, þar sem fram koma upplýsingar um námið frá ýmsum hliðum. Nemendur unnu textann en útlit bæklingsins vann Sigurður Heimir Guðjónsson, sem útskrifaðist af listnámsbraut VMA sl. vor. Einnig var hannað nýtt lógó fyrir deildina sem héreftir verður notað fyrir hana.

Nemendur eru þess fullvissir að kynningarbás deildarinnar eigi eftir að vekja mikla athygli, enda hafi verið lögð mikil vinna í hann. Punkturinn yfir i-ið er sú staðreynd að á svæðinu verða kindur, sem er ákveðin vísun til fjármála, sem nemendur á viðskipta- og hagfræðibraut vinna óneitanlega tölurvert með, þótt í öðru formi sé.

„Þetta er búin að vera mjög skemmtileg vinna og hún á eflaust eftir að nýtast okkur áfram í náminu,“ segir Ingiríður Halldórsdóttir, sem er ein af fimmtán nemendum í markaðsfræðiáfanganum. Hér má sjá fimm þeirra.

„Við teljum að margir hafi töluverðar ranghugmyndir um þetta nám og úr því viljum við bæta. Hugmyndin er að nýta þetta kynningarefni áfram fyrir deildina. Þetta er gott nám, frábær grunnur fyrir alla, hvort sem er í daglegu starfi eða fyrir þá sem ætla að fara í frekara nám á þessu sviði. Reynsla þeirra nemenda sem fara héðan í háskólanám er mjög jákvæð, námið hérna er mjög góður undirbúningur fyrir frekara nám,“ segir Ingiríður. Hún bætir við að síðar í þessum mánuði sé ætlunin að stofna félag nemenda á viðskipta- og hagfræðibraut sem verði vonandi til þess fallið að efla félagsanda nemenda og standa fyrir ýmsu skemmtilegu til viðbótar við skemmtilegt og gefandi nám.