Fara í efni

Vinna að tónlistarsköpun undir nafninu Aquariion

Kristján Karl (til vinstri) og Haukur Sindri.
Kristján Karl (til vinstri) og Haukur Sindri.

Þeir félagar úr Eyjafjarðarsveit, Haukur Sindri Karlsson og Kristján Karl Randversson, sem báðir eru fæddir 1999 og eru á fyrsta ári í grunndeild rafiðnaðar í VMA, feta í sameiningu tónlistarveginn og eru þegar farnir að vekja nokkra athygli fyrir tónlistarsköpun sína. Þeir búa sem sagt til tónlist og hafa nú þegar sett fimm lög á netið. Samstarf þeirra gengur undir nafninu Aquariion.

Þeir Haukur Sindri og Kristján Karl hafa báðir lært eilítið á gítar í Tónlistarskóla Eyjafjarðar og sömuleiðis hefur Haukur verið um tíma í Tónlistarskólanum á Akureyri.

„Við höfum síðustu mánuði verið að pródúsera tónlist og höfum m.a. unnið með Anton Líni Hreiðarssyni. Við unnum til dæmis með honum lagið Friendship sem hann samdi og flutti í Söngkeppni VMA í febrúar. Það lag lenti þar í öðru sæti. Hann kom með melódíuna, hljómana og textann til okkar og við unnum síðan „playback“ fyrir flutninginn í Hofi. Síðan höfum við fullklárað lagið og sett á netið,“ segir Kristján Karl og bætir við að lögin vinni þeir með því að spila hljóma á píanó, bassa og gítar og síðan fullvinni þeir þau inni í tölvu. „Við semjum lögin frá grunni, búum til melodíurnar og fullvinnum þær síðan,“ segir Haukur Sindri.

Þeir hafa fengist við þessa tónlistarsköpun í um hálft ár og segjast vera rétt byrjaðir. „Við höfum báðir mikinn áhuga á þessu og við hugsuðum sem svo, af hverjum reynum við ekki bara sjálfir að gera þetta? Til að byrja með vorum við ógeðslega lélegir í þessu en svo lærðum við þetta smám saman og höfum núna náð ágætum tökum á vinnslunni,“ segir Haukur Sindri og bætir við að hann hlusti á nánast alla tónlist en hins vegar hafi Kristján Karl mestan áhuga á raftónlist.

Aquariion – nafnið sem Haukur Sindri og Kristján Karl kalla sig – á sér þá bakhlið að Haukur Sindri er Vatnsberi eða Aquarius og Kristján Karl er Sporðdreki eða Scorpion. Þessi nöfn settu þeir félagarnir saman og bættu við einu i og útkoman varð Aquariion.

Nú þegar hafa þeir Aquariion-bræður fullunnið fimm lög og sett á netið. Áður er getið um Friendship, lagið sem Anton Líni Hreiðarsson flutti í Söngkeppni VMA. Fyrsta lagið sem þeir unnu var Endless Waiting, annað lagið var Echoes, það þriðja Hiraeth og síðan hefur annað lag, One, bæst við sem Anton Líni syngur.

Þeir stefna að því að koma lögum í spilun og hafa þegar sent Rás 2 Friendship. Nú bíða þeir og sjá til hvort og þá hvenær það fær að heyrast á öldum ljósvakans. Rifja má upp að þegar Axel Flóvent, sem brautskráðist af listnámsbraut VMA sl. vor, hóf að setja sínu frumsömdu lög á netið sýndu íslenskar útvarpsstöðvar honum engan áhuga. Síðan allt í einu kveiktu stjórnendur útvarpsþátta á perunni og uppgötvuðu hann sem frábæran listamann. Síðan er hann reglulega spilaður á útvarpsstöðvum og hefur náð miklum vinsældum. Ekki er ósennilegt að það sama verði uppi á teningnum með strákana í Aquariion. Einn góðan veðurdag verða þeir uppgötvaðir.