Fara í efni

Vildi virkja myndlistargenin

Agnes Ísól Friðriksdóttir.
Agnes Ísól Friðriksdóttir.

Hún fór á myndlistarlínu listnámsbrautar VMA og er að ljúka því námi á þessari önn. Stúdentsprófinu hyggst hún síðan ljúka í vor. Akureyringurinn Agnes Ísól Friðriksdóttir.

Henni vefst tunga um tönn þegar hún er spurð að því hvort hún sé frá Akureyri. Já, segir hún en bætir síðan við: „Annars hef ég búið víða. Ég var á Akureyri en fór síðan burtu í mörg ár en kom aftur.“ Leiðin lá til Reykjavíkur, Kanada, Tálknafjarðar, Eyjafjarðarsveitar og loks Akureyrar. „Ég var í öðrum bekk í grunnskóla þegar við vorum í Kanada. Þó langt sé um liðið er sá tími mér eftirminnilegur. Menningin þar er um margt ólík því sem maður þekkir hér heima,“ segir Agnes.

Það kom eiginlega ekkert annað til greina en listnám. Strax á leikskóla komu í ljós ákveðnir hæfileikar til þess að púsla og mála. Móðir Agnesar, Helga Sigríður Valdimarsdóttir, er myndlistarmaður og er raunar sem stendur með sýningu á verkum sínum í Menningarhúsinu Hofi. Og sl. laugardag var opnuð sýning á verkum brautskráningarnema listnámsbrautar VMA í Ketilshúsinu og þar sýnir Agnes akrílverk eins og hún gerir einnig þessa dagana við austurinngang VMA. Myndlistargenin er því til staðar hjá Agnesi en hún er óráðin hvort hún virkjar þau til frekari náms í myndlist. Hún segir það mögulegt en eitthvað tengt kvikmyndagerð komi einnig til greina – og þá sé horft til skóla erlendis. En allt kemur þetta í ljós í fyllingu tímans.

Agnes segir að listnámið í VMA hafi gefið sér margt. Hún hafi lengi verið feimin að leyfa öðrum að sjá listsköpun sína en sér hafi lærst í náminu að yfirstíga þennan ósýnilega þröskuld og nú veitist henni það auðveldara.