Fara í efni

Viktor Samúelsson Norðurlandameistari í kraftlyftingum!

Viktor tekur vel á því.  Mynd: Sigurjón Pétursson.
Viktor tekur vel á því. Mynd: Sigurjón Pétursson.
Viktor Samúelsson, nemandi á íþróttabraut VMA, gerði sér lítið fyrir um sl. helgi og varð Norðurlandameistari unglinga í kraftlyftingum í -120 kg flokki. Jafnframt varð hann stigahæsti keppandi mótsins. Annar nemandi í VMA, Þorbergur Guðmundsson, vann til silfurverðlauna í +120 kg flokki á sama móti, sem fór fram í Danmörku um síðustu helgi.

Viktor Samúelsson, nemandi á íþróttabraut VMA, gerði sér lítið fyrir um sl. helgi og varð Norðurlandameistari unglinga í kraftlyftingum í -120 kg flokki. Jafnframt varð hann stigahæsti keppandi mótsins. Annar nemandi í VMA, Þorbergur Guðmundsson, vann til silfurverðlauna í +120 flokki á sama móti, sem fór fram í Danmörku. 

„Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með sigurinn, þetta var það sem ég stefndi á,“ sagði Viktor sem lyfti 900 kg í samanlögðu sem er Íslandsmet í þessum flokki. Viktor lyfti 330 kg í hnébeygju, 260 kg í bekkpressu og 310 kg í réttstöðulyftu. Alexandra Guðlaugsdóttir, unnusta hans og fyrrverandi nemandi í VMA, vann til bronsverðlauna í -72 kg flokki og lyfti 150 kg í hnébeygju, 100 kg í bekkpressu og 172,5 kg í réttstöðulyftu. Þriðji keppandinn á mótinu frá Kraftlyftingafélagi Akureyrar var Þorbergur Guðmundsson og hann vann til silfurverðlauna í +120 kg flokki. Þorbergur, sem einnig er nemandi í VMA, lyfti samtals 740 kg.

Viktor, sem er fæddur 1993, hóf að æfa kraftlyftingar af kappi sextán ára gamall og fimm árum síðar er hann orðinn Norðurlandameistari í sínum aldursflokki. „Já, ég er mikið í lyftingasalnum, ég æfi að meðaltali svona níu sinnum í viku,“ segir Viktor og bætir við að hann stefni á að ljúka stúdentsprófi um næstu jól.

Alexandra hefur sömuleiðis ekki æft kraftlyftingar lengi en hún var að ná sínum besta árangri í Danmörku. Hún er sömuleiðis fædd 1993 og lauk námi frá VMA á sl. ári.

Næsta stóra verkefni þessa öfluga kraftlyftingafólks er Íslandsmótið í kraftlyftingum í Njarðvík um aðra helgi.