Fara í efni

Víkka út sjóndeildarhringinn í tónlistinni

Nemendur flytja frumsamið lag.
Nemendur flytja frumsamið lag.
Núna á haustönn er boðið upp á nýjan valáfanga - TÓN173 - þar sem nemendur geta víkkað út sinn tónlistarlega sjóndeildarhring, ef svo má segja. Um 20 nemendur eru í áfanganum.

Núna á haustönn er boðið upp á nýjan valáfanga - TÓN173 - þar sem nemendur geta víkkað út sinn tónlistarlega sjóndeildarhring, ef svo má segja. Um 20 nemendur eru í áfanganum.

„Áfanginn er fyrst og fremst ætlaður þeim nemendum sem eru í tónlist af einhverjum toga, syngja eða búa til tónlist. Við komum inn á fjölmargt sem tengist tónlist – ýmislegt í sambandi við söguna, míkrófóntækni, grundvallaratriði í tæknimálum, grunnatriðin í því að semja tónlist og margt fleira,“ segir Skúli Gautason, kennari í áfanganum, en hann er  leikari og tónlistarmaður, m.a. í Sniglabandinu.

Skúli segir að flestir nemendanna í áfanganum hafi einhvern tónlistarlegan bakgrunn – spili á hljóðfæri eða syngi – og sumir hafi fengist við að semja tónlist. Raunar verður töluverð þjálfun í áfanganum í að semja tónlist og flytja hana. Þegar tíðindamaður heimasíðunnar leit inn í tíma í TÓN173 voru nemendur einmitt að flytja lög eða stef sem þeir höfðu samið. Hér má sjá myndir sem voru teknar við það tækifæri. Skúli segir að ætlunin sé að nemendur í áfanganum troði upp í skólanum og flytji eitthvað af þeim lögum sem verði til í náminu. 

Sem fyrr segir er hér um að ræða valáfanga á haustönn. Ef vel tekst til er ekki loku fyrir það skotið að framhald verði á eftir áramót.