Fara í efni

Vika forvarna í VMA

Áhugaverð dagskrá verður í VMA í þessari viku.
Áhugaverð dagskrá verður í VMA í þessari viku.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni verður þema þessarar viku í VMA forvarnir þar sem sjónum verður beint að fíkniefnum og ofnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Um undirbúning og framkvæmd þessarar viku sjá nemendur í áfanga í viðburðastjórnun undir handleiðslu Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur. Dagskráin hefst í dag en síðasti dagskrárliður verður nk. fimmtudagskvöld. Eftirfarandi er dagskrá vikunnar:

Mánudagur 22. október

Kl. 13.15-14.40 – Málstofa í M01 þar sem nemendur í VMA sem þekkja af eigin raun skuggahliðar neyslu segja sína sögu.

Þriðjudagur 23. október

Kl. 12:05 - Nemendur í VMA mynda kærleikskeðju kringum skólahúsin til minningar um það unga fólk sem hefur látist af völdum fíkniefna og lyfseðilsskyldra lyfja. Þegar keðjan hefur verið mynduð verður tveggja mínútna þögn til að heiðra minningu þessa unga fólks.

Kl. 19:00 – Bingó í Gryfjunni. Ágóðanum verður varið til þess að greiða útlagðan kostnað vegna forvarnavikunnar og styrkja Minningarsjóð Einars Darra. Bingóið verður öllum opið og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta og eiga saman góða stund og styrkja um leið gott málefni.  Spjaldið kostar 500 kr. en 300 kr. í hléi.

Miðvikudagur 24. október

Kl. 09:55-11:20 – Heimildaþættirnir Lof mér að lifa, sem sýndir voru á RÚV á dögunum, fjalla um gerð myndar Baldvins Z Lof mér að falla. Þættirnir verða sýndir í M01.

Fimmtudagur 25. október

Kl. 11:45-13:30 – Forvarnadagur í Gryfjunni. Fulltrúar frá Minningarsjóði Einars Darra flytja ávörp, tónlist verður flutt o.fl.

Kl. 19:00 – Forvarna- og skemmtikvöld í Gryfjunni. Ávörp flytja Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi á Akureyri, fulltrúar Minningarsjóðs Einars Darra og Saga Nazari sem jafnframt mun flytja tónlist sína. Öll munu þau segja reyslusögur tengdar fíkniefnum og lyfseðilsskyldum lyfjum. Einnig verður Stefán Haukur Björnsson Waage með tónlistaratriði. Þessi viðburður er öllum opinn og er aðgangseyrir kr. 1000 en 500 kr. fyrir grunnskólanemendur. Allur ágóði rennur til Minningarsjóðs Einars Darra.