Fara í efni

Ljósahönnuður í myndbandinu Husavik My Hometown

Sigurður Bogi Ólafsson.
Sigurður Bogi Ólafsson.

Eins og margoft hefur komið fram komst Húsavík heldur betur í heimsfréttirnar sl. sunnudagskvöld þegar myndband við lagið Husavík – My Hometown var sýnt í sjónvarpsútsendingu frá  Óskarsverðlaunahátíðinni í Hollywood. Lagið, sem var í mynd Will Ferrell, Eurovision Song Contest– The Story of Fire Saga, var tilnefnt til Óskarsverðlauna sem besta frumsamda lagið. Í myndbandi við lagið, sem var tekið upp á Húsavík sunnudagskvöldið 18. apríl sl., söng sænska söngkonan Molly Sandén og með henni stúlkur úr 5. bekk Borgarholtsskóla á Húsavík. Viku eftir upptökurnar var myndbandið sýnt á Óskarsverðlaunahátíðinni og fór þar með út um víða veröld. Það var unnið á methraða, eins og Íslendingum einum er lagið. Einn af lykilmönnum í tækniliðinu við vinnslu myndbandsins er nemandi við VMA, rafeindavirkjaneminn Sigurður Bogi Ólafsson.

„Framleiðslufyrirtækið True North tók að sér fyrir Netflix að vinna myndbandið við lagið og fékk Exton  með skömmum fyrirvara til að setja upp sviðið fyrir upptökur á myndbandinu og annast hljóðupptökur og lýsingu. Í upphafi átti þetta að vera lítið og einfalt en að kvöldi fimmtudagsins 15. apríl var ákveðið að leggja meira í þetta og þá var ég beðinn um að taka þátt í ljósavinnslunni. Föstudagurinn fór því í undirbúningsvinnu og á föstudagskvöld fórum við austur og byrjuðum að setja upp sviðið. Á laugardeginum voru sett upp ljós og gengið frá sviðinu fyrir tökur á laugardagskvöldið. Tökum þurfti hins vegar að fresta vegna rigningar og voru þær færðar til sunnudagskvöldsins. Siggi Bahama, sem svo er nefndur, hjá Exton hannaði ljósaumgjörð myndbandsins en ég hannaði sviðslýsinguna. Þetta var mikil vinna og heilmikið ævintýri. Við unnum frá átta á morgnana til miðnættis alla þrjá dagana, frá föstudegi til sunnudags. Tökurnar sjálfur á sunnudagskvöld tóku um þrjá tíma,“ segir Sigurður Bogi. Hann segir að í samanburði við ýmis önnur verkefni sem hann hafi komið að fyrir Exton, t.d. Fiskidagurinn mikli á Dalvík, hafi upptökurnar á Husavík – My Hometown ekki verið mjög umfangsmiklar. „Ef við horfum á þann búnað sem við notuðum má segja að þetta hafi verið meðalstórt verkefni. En það sem gerði þetta stórt og stærra verkefni en maður hefur áður komið að er að við vorum að vinna þetta fyrir Netflix. Gæðakröfurnar voru miklar og við vissum að afraksturinn myndi fara út um allan heim.“

Útkomuna sáu Sigurður Bogi og félagar hans í tækniliðinu ekki fyrr en myndbandið var sýnt sl. sunnudagskvöld á Óskarsverðlaunahátíðinni. Hann segist vera mjög ánægður með hvernig til tókst. „Það var svolítið stressandi að bíða eftir að sjá útkomuna. Í upptökunum var ég við ljósaborð í tjaldi til hliðar við sviðið og hafði því ekki möguleika á að sjá beint á sviðið í upptökunum en þurfti að forrita samkvæmt tölvuskjá sem ég hafði fyrir framan mig,“ segir Sigurður Bogi.

„Ég hef unnið að ýmsum verkefnum fyrir Exton síðan sumarið 2017. Ég byrjaði að fikta við hljóð og ljós þegar ég var í Naustaskóla og fékk þá áhugann á þessu. Ég var svolítið í leiklistinni þegar ég var yngri, m.a. í Freyvangsleikhúsinu og einnig var ég í sýningu sem Pétur Guðjóns og Jokka settu upp í Hofi. Ég hef hins vegar ekki leikið í leiksýningum Leikfélags VMA en verið í tæknimálunum í öllum sýningunum síðan ég byrjaði hér nema í Tröllum í fyrra,“ segir Sigurður Bogi en hann hannaði og stjórnaði lýsingu í söngleiknum Grease sem var sýndur í febrúar og mars sl. í Gryfjunni.

Sigurður Bogi fór í VMA að loknum 9. bekk í Naustaskóla – beint inn í grunndeild rafiðna. Grunndeildarnámið er tvö ár en síðan velja nemendur annað hvort rafvirkjun eða rafeindavirkjun. Sigurður valdi rafeindavirkjunina og er nú að ljúka annarri af þremur önnum í því námi. „Að grunndeildinni lokinni tók ég stúdentsprófsáfanga sl. vetur en byrjaði síðan í rafeindavirkjuninni sl. haust og lýk henni um næstu áramót,“ segir Sigurður Bogi og stefnir á að fara í framhaldsnám í tækni- eða verkfræðigreinum. „Ég stefni á áframhaldandi nám á þessu sviði og hef m.a. verið að skoða hátækniverkfræði, hún er spennandi kostur. En hvort hún verður fyrir valinu, það kemur bara í ljós,“ segir Sigurður Bogi Ólafsson.