Fara í efni

Vettvangsferð vélstjórnarnema í dælustöð Norðurorku

Nemendur og kennari í dælustöð Norðurorku.
Nemendur og kennari í dælustöð Norðurorku.

Nemendur í vélstjórn brugðu sér bæjarleið í vettvangsferð í vikunni ásamt Vilhjálmi G. Kristjánssyni, kennara, „vopnaðir“ reykgreiningartæki til þess að mæla útblástursefni. Ekki þurfti að fara um langan veg, aðeins var farið nokkur hundruð metra norður fyrir skólann í dælustöð Norðurorku fyrir sunnan dvalarheimilið Hlíð. Þar er forláta ketill sem Norðurorka setur í gang ef á þarf að halda í kuldatíð til þess að tryggja nægilegt heitt vatn á kerfinu.

Árni Árnason, yfirvélfræðingur hjá Norðurorku, tók á móti nemendum og sagði þeim í stórum dráttum frá katlinum. „Við ræstum ketilinn á fimmtudaginn í síðustu viku þegar tók að kólna verulega í veðri og það spáði mjög köldu áfram. Við kyndum hér bakrásarvatn frá húsum, það kemur hingað um 28 gráður og við hitum það upp í um 77 gráður. Við keyrum ketilinn á um það bil þremur megavöttum en hæst hefur hann farið í tíu megavött. Við erum einnig með varmadælur og þegar við erum að kynda ketilinn eigum við ekki alveg nóg bakrásarvatn fyrir þær og því erum við bara með aðra í gangi núna. Hún er ekki nema á rúmlega hálfum afköstum en er að skila upp undir tveimur megavöttum út í kerfið þegar hún í botni,“ sagði Árni sem þekkir vel til vélstjórnarnámsins í VMA því þar kenndi hann á árum áður.

Þessi stóri olíuketill gengur fyrir blöndu af flotolíu og lífdísel. Til að byrja með var blandan til helminga en núna er brennslan að stærstum hluta flotolía. Umtalsvert magn þarf til þess að keyra ketilinn, sólarhringsbrennslan er 17-20 tonn á sólarhring. Árni segir að það ráðist fyrst og fremst af hitastiginu hversu lengi ketillinn verður í gangi að þessu sinni, en lengst var hann í gangi í þrjár vikur árið 2003, áður en heitt vatn tók að streyma inn á kerfið frá Hjalteyri. 

Nemendur tengdu reykgreiningartækið sem þeir höfðu meðferðis við ketilinn til þess að sjá gildi til dæmis CO2, NO og NO2.