Fara í efni

Vetrarstarf Edrúklúbbsins að hefjast

Vetrarstarf Edrúklúbbsins hefst með fundi í dag.
Vetrarstarf Edrúklúbbsins hefst með fundi í dag.

Í VMA hefur verið starfræktur svokallaður Edrúklúbbur, sem er hluti af forvarnastarfi skólans og hefur það markmið að gefa þeim nemendum sem vilja, tækifæri til að skemmta sér og öðrum án vímuefna. Í dag, fimmtudaginn 15. september, er boðaður fyrsti fundur vetrarins í Edrúklúbbnum og verður hann kl. 16:30 í M-01.

Upplýsingar um klúbbinn er að finna á Facebook undir „Alsgáður VMA“. Þar er hægt að skrá sig í klúbbinn og sömuleiðis er það hægt á heimasíðu Þórdunu nemendafélags.

Valgerður Dögg Jónsdóttir, kennari og forvarnafulltrúi VMA, hefur haldið utanum starf Edrúklúbbsins. Hún segir klúbbfélaga hittast að jafnaði einu sinni í mánuði og gera eitthvað skemmtilegt saman. „Undanfarin ár höfum við t.d. haft spilakvöld, tónlistarkvöld, farið í keilu, út að borða, á fjórhjól o.fl. Þetta hefur verið afar skemmtilegt starf og nemendur á öllum aldri, á mismundandi brautum og með ólíkar hugmyndir og skoðanir. En þeir hafa allir tekið þessa sömu ákvörðun; að byrja ekki strax að nota vímuefni í hvað mynd sem þau má finna,“ segir Valgerður Dögg.

Í ár er ætlunin að bjóða nemendum úr MA að ganga í klúbbinn ef þeir hafa áhuga og koma þannig á samstarfi milli skólanna. „Einnig munum við setja okkur í samband við aðra skóla sem hafa svipaða klúbba og stefnum á einhverja samvinnu við þá.

Við eigum heldur betur spennandi önn framundan,“ segir Valgerður Dögg og bætir við að klúbburinn muni kjósa sér stjórn og formann þegar starfið verður komið í gang.