Fara í efni

Vetrarfrí í VMA 23. og 24. október

Myndverkið af landnámshjónunum Helga magra Eyvindarsyni og Þórunni hyrnu Ketilsdóttur á Miðhúsaklöpp…
Myndverkið af landnámshjónunum Helga magra Eyvindarsyni og Þórunni hyrnu Ketilsdóttur á Miðhúsaklöppum á Akureyri. Styttuna gerði Jónas S. Jakobsson á sjötta áratug síðustu aldar en hún var síðan steypt í brons í byrjun tíunda áratugarins.

Næstkomandi mánudag og þriðjudag, 23. og 24. október, verður vetrarfrí í VMA. Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 25. október.

Að venju eru vetrarfrísdagarnir í VMA kenndir við landnámsfólk Eyjafjarðar. Við lítum til mánudagsins 23. október sem afmælisdags landnámsmannsins Helga magra, sem sagan segir að hafi numið land í innanverðum Eyjafirði og sett sig niður á Kristnesi framan Akureyrar.

Í Landnámabók segir svo um landnám Helga magra í Eyjafirði:

Helgi hinn magri fór til Íslands með konu sína og börn. Þar var og með honum Hámundur heljarskinn mágur [= tengdasonur] hans er átti Ingunni, dóttur Helga. Helgi var blandinn mjög í trú. Hann trúði á Krist en hét á Þór til sjófara og harðræða. Þá er Helgi sá Ísland gekk hann til frétta við Þór hvar land skyldi taka, en fréttin vísaði honum norður um landið. Þá spurði Hrólfur son hans hvort Helgi mundi halda í Dumbshaf ef Þór vísaði honum þangað því að skipverjum þótti mál úr hafi er áliðið var mjög sumarið. Helgi tók land fyrir utan Hrísey en fyrir innan Svarfaðardal. Hann var hinn fyrsta vetur á Hámundarstöðum. Þeir fengu vetur mikinn. Um vorið gekk Helgi upp á Sólarfjöll. Þá sá hann að svartara var miklu að sjá inn til fjarðarins er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim er þar lágu úti fyrir. Eftir það bar Helgi á skip sitt allt það er hann átti, en Hámundur bjó eftir. Helgi lenti þá við Galtarhamar. Þar skaut hann á land svínum tveimur, og hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremur vetrum síðar í Sölvadal; voru þá saman sjö tugir svína. Helgi kannaði um sumarið hérað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness og gerði eld mikinn við hvern vatnsós og helgaði sér svo allt hérað. Hann sat þann vetur að Bíldsá, en um vorið færði Helgi bú sitt í Kristsnes og bjó þar meðan hann lifði. Í búfærslunni varð Þórunn léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará. Þar fæddi hún Þorbjörgu hólmasól. Helgi trúði á Krist og kenndi því við hann bústað sinn. Eftir þetta tóku menn að byggja í landnámi Helga að hans ráði.

Næstkomandi þriðjudagur, seinni vetrarfrísdagurinn, er í ár kenndur við Ketil flatnef, sem var tengdafaðir Helga magra, faðir Þórunnar hyrnu. Um hann segir svo í fornsögunum:

Ketill flatnefur Bjarnarson var hersir í Noregi á 9. öld. Faðir hans var Björn buna Grímsson, sonur Veðrar-Gríms hersis úr Sogni og er sagt í Landnámabók að frá Birni sé komið nær allt stórmenni á Íslandi. Kona Björns hét Vélaug og áttu þau tvo syni auk Ketils: Hrapp og Helga.
Kona Ketils var Yngvildur Ketilsdóttir og áttu þau synina Björn austræna og Helga bjólu og dæturnar Auði djúpúðgu og Þórunni hyrnu en einnig átti Ketill dótturina Jórunni manvitsbrekku. Haraldur hárfagri sendi að sögn Ketil til Suðureyja til að vinna þær aftur af Skotum og Írum, sem höfðu náð völdum í eyjunum á ný eftir að Haraldur hvarf heim til Noregs eftir frækilega herför. Ketill setti Björn son sinn yfir ríki sitt í Noregi og fór síðan og lagði undir sig allar Suðureyjar. Hann gerðist sjálfur höfðingi yfir eyjunum en galt Haraldi konungi enga skatta. Því reiddist konungur, tók undir sig eignir Ketils í Noregi og rak Björn son hans á brott.
Björn hélt þá til Suðureyja og síðan til Íslands, nam land á Snæfellsnesi og bjó í Bjarnarhöfn. Hann var eina barn Ketils sem ekki tók kristni. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi og bjó á Hofi. Þórunn hyrna giftist Helga magra Eyvindarsyni landnámsmanni í Eyjafirði og Auður hélt til Íslands eftir að Þorsteinn sonur hennar féll og faðir hennar andaðist og nam land í Dölum. Sonur Jórunnar, Ketill fíflski, hélt einnig til Íslands, nam land á Síðu og bjó í Kirkjubæ.