Fara í efni

Véronique Legros sýnir í Ketilhúsinu

Ein af ljósmyndunum á sýningunni í Ketilhúsinu.
Ein af ljósmyndunum á sýningunni í Ketilhúsinu.
Véronique Anne Germaine Legros, brautarstjóri myndlistargreina á listnámsbraut VMA, opnar sýningu á verkum sínum í sýningarrými Sjónlistamiðstöðvarinnar í Ketilhúsinu á morgun, laugardaginn 27. september, kl. 15. Sýningin stendur til 2. nóvember nk.

Véronique Anne Germaine Legros, brautarstjóri  myndlistargreina á listnámsbraut VMA, opnar sýningu á verkum sínum í sýningarrými Sjónlistamiðstöðvarinnar í Ketilhúsinu á morgun, laugardaginn 27. september, kl. 15. Sýningin stendur til 2. nóvember nk.

Véronique segir að langt sé um liðið síðan hún var síðast með einkasýningu, enda hafi hún síðustu ár fyrst og fremst einbeitt sér að kennslu. „Á þessari sýningu er ég að sýna ýmis verk sem ég hef verið að þróa á síðustu mánuðum. Meðal þess sem ég sýni eru vídeóverk og skúlptúr þar sem ljósið er meginþemað. Einnig sýni ég landslagsljósmyndir úr safni mínu sem ég hef stækkað gríðarlega mikið og unnið með.  Þetta er nokkuð ólíkt því sem ég hef gert áður og ég verð að viðurkenna að ég kem sjálfri mér dálítið á óvart á þessari sýningu,“ segir Véronique sem hefur síðustu mánuði undirbúið þessa sýningu í Ketilhúsinu.

Hún hefur búið hér á landi síðustu sextán ár og fyrst og fremst verið að kenna – fyrst í Dalvíkurbyggð síðan í MA og loks í VMA þar sem hún kennir á listnámsbraut auk þess að kenna frönsku í fjarnámi.

Sýninguna kallar Véronique "Landiða - Fata morgana". Sem fyrr segir verður hún opin til 2. nóvember og verður hún opin frá þriðjudegi til sunnudags kl. 12 til 17. Rétt er að taka fram að alla fimmtudaga kl. 12 verður ókeypis leiðsögn um sýningar í annars vegar Ketilhúsinu og hins vegar Listasafninu.