Fara í efni

Verk Úlfs gleður augað í Kaupmannahöfn

Málverk Úlfs komið upp á vegg í Kaupmannahöfn.
Málverk Úlfs komið upp á vegg í Kaupmannahöfn.

Úlfur Logason, nemandi á listnámsbraut VMA, var einn þeirra ungu Íslendinga sem tóku sl. sumar þátt í menningarhátíðinni Nordisk ljus 2014. Málverk eftir hann sem hann nefnir „Kveðjustund“ var gefið Norræna menningarsjóðnum  fyrir hönd þátttakenda og þeirra sem stóðu að Nordisk ljus en það var einmitt Norræni menningarsjóðurinn sem valdi Nordisk ljus sem Menningarviðburð Norðurlanda á síðasta ári. Verki Úlfs hefur verið komið fyrir á skrifstofu Norræna menningarsjóðsins í Kaupmannahöfn.

Mbl.is greindi frá því á gamlársdag að Vilborg Einarsdóttir hafi afhent Norræna menningarsjóðnum verk Úlfs fyrir hönd Nordisk ljus 2014 en hún var ein af stjórnendum hátíðarinnar sem stóð í tvær vikur í júlí og ágúst sl. Á Akureyri og Hjalteyri  var hluti af menningarhátíðinni, þar stýrðu Arna Valsdóttir og Veronique Legros, kennarar á listnámsbraut VMA, vinnustofu í sviðslistum.

Þátttakendur í Nordisk ljus voru 75 ungmenni, þar af 19 Íslendingar auk 5 íslenskra ungmenna í fjölmiðlahópi.