Fara í efni

Venus í ýmsum myndum

Ein af Venus klippimyndunum.
Ein af Venus klippimyndunum.

Í áfanganum Listum og menningu á listnáms- og hönnunarbraut unnu fyrsta árs nemar á dögunum skemmtilegt verkefni sem fólst í því að tengja saman stjörnuna Venus, Venus frá Willendorf og Fæðingu Venusar eftir Botticelli. Venus var sem sagt rauði þráðurinn eða samnefnarinn í verkefninu og útfærslan var í formi klippimynda. Útkoman var fjölbreytt og áhugaverð eins og hér má sjá.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að Venus sé sjötta stærsta reikistjarna sólkerfisins, aðeins minni en jörðin. Venus er nefnd eftir rómversku ástar- og fegurðargyðjunni. Upphaflega var hún akuryrkjugyðja áður en hún var sameinuð hinni grísku Afródítu.

Venus frá Willendorf er 11,1 cm há höggmynd af konu sem er talin vera frá því 22-24 þúsund árum fyrir Krist. Verkið er sagt vera eitt það elsta sem hefur varðveist á jörðinni. Þessi litla höggmynd fannst skammt frá smábænum Willendorf í Austurríki árið 1908 og er æ síðan kennd við hann.

Fæðing Venusar er þekkt málverk unnið af ítalska málaranum Sandro Botticelli á fmmtándu öld. Myndin, sem er 172 cm á hæð og 279 cm breið, er til sýnis í Uffizi galleríinu í Flórens á Ítalíu.