Fara í efni

Vélvirkjanemar þreyttu sveinspróf

Vélvirkjanemar sem þreyttu sveinsprófið.
Vélvirkjanemar sem þreyttu sveinsprófið.
Um síðustu helgi þreyttu 14 vélvirkjanemar sveinspróf í VMA. Flestir nemanna hafa farið í gegnum grunndeild málmiðna og vélstjórnarnám í VMA.

Um síðustu helgi þreyttu 14 vélvirkjanemar sveinspróf í VMA. Flestir nemanna hafa farið í gegnum grunndeild málmiðna og vélstjórnarnám í VMA.

Að loknu námi fara nemendur á átján mánaða samning hjá meistara. Að þeim tíma loknum hafa nemendur öðlast rétt til þess að fara í sveinspróf og það var einmitt það sem þeir þreyttu um síðustu helgi í húsakynnum VMA. Prófið samanstóð af bóklegu prófi og síðan var verklegt próf bæði sl. laugardag og sunnudag frá frá kl. 08 til 18.

„Sveinspróf hafa út af fyrir sig ekki tekið stórum breytingum á undanförnum árum. Þarna reynir á hvað nemarnir hafa lært í gegnum tíðina. Þetta er mikil nákvæmnisvinna og því er hægt að segja að prófið sé langt og strangt,“ segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmgreina í VMA, en sveinspróf eru jafnan tvisvar á ári, í janúar og september.

Í þessu prófi er komið inn á margt sem vélvirkjarnir þurfa að hafa á hreinu – nefna má málmsuðu, ýmsar mælingar og bilanaleit. „Verkefnin sem nemarnir vinna fara til prófmats fyrir sunnan og síðan fara þau í gegnum fleiri nálaraugu hér fyrir norðan. Það þarf margt að skoða í þessu,“ segir Hörður og reiknar með að það geti tekið nálægt mánuði að fá niðurstöður úr prófinu.