Fara í efni

Veltu vöngum yfir enskum orðaforðaleik

Erna Gunnarsdóttir með nemendum í ensku 303.
Erna Gunnarsdóttir með nemendum í ensku 303.
Í ensku 303 í dag veltu nemendur Ernu Gunnarsdóttur vöngum yfir orðaforðaleik þar sem áherslan var þá svokölluðu Íslandstexta sem þeir hafa verið að læra að undanförnu í enskutímum.

Í enskuáfanganum 303 sátu nemendur Ernu Gunnarsdóttur í dag yfir orðaforðaleik þar sem áherslan var þá svokölluðu Íslandstexta sem þeir hafa verið að læra að undanförnu í enskutímum.

Í ensku 303 er áherslan meðal annars á að byggja upp góðan orðaforða og ekki síður að koma frá sér rituðum texta í ritgerðarformi þar sem ákveðnu formi er fylgt. Núna á vorönn hefur töluverður tími farið í svokallaðan Íslandstexta, þar sem sjónum var meðal annars beint að því að nemendur gætu miðlað ýmsum upplýsingum um sérkenni landsins á ensku. Því hafa þau kynnt sér ensk hugtök úr jarðfræði Íslands, í tengslum við veðurfar, náttúru, menningu o.s.frv. Þeim orðaforða sem krakkarnir hafa byggt upp á ensku á þessu sviði var síðan unnið með í einskonar orðaforðaleik í enskutíma í dag, en Erna Gunnarsdóttir, enskukennari, hefur útbúið þennan  leik. Þarna reyndi verulega á kunnáttuna og það sem krakkarnir höfðu lært á þessu sviði.

Annað sem unnið hefur verið með að undanförnu í þessum áfanga er að nemendur skrifa fimm efnisgreina ritgerð á ensku, þar sem fylgt er ákveðnum, þekktum uppsetningarreglum.  Erna segir að ekki hafi verið gert nóg af því að láta nemendur skrifa slíkar ritgerðir, en þetta sé góð æfing fyrir það sem koma skal þegar nemendur haldi áfram í námi.

Erna segir að eins og með margar aðrar námsgreinar sé staða nemenda mjög mismunandi í ensku. „Sumir hafa ríka tilfinningu fyrir enskunni og í raun má segja að margir þessara nemenda séu tvítyngdir. Aðrir eru á bærilegu róli í enskunni en síðan er líka alltaf hópur nemenda sem á í miklum erfiðleikum með hana. Margir telja, m.a. vegna netsins, að nemendur séu nú til dags almennt mjög vel talandi og skrifandi á ensku, en það er mikill misskilningur.  Því miður er það svo, eins og alltaf hefur verið,  að töluvert stór hópur á í umtalsverðum erfiðleikum með að læra ensku. Netið og allar þær upplýsingar sem nemendur geta sótt sér þar breytir þar engu um,“ segir Erna Gunnarsdóttir.